Vatnið og orkan

P1040472EHJ | Morgunverðarfundur í tilefni af alþjóðlegum degi vatnsins var haldinn í Hörpu föstudaginn 7. mars en alþjóðadagur vatnsins verður 22. mars næstkomandi.  Ástæða þess að fundinum var flýtt var koma Juerg Hartmann til landsins en hann er einn af höfundum Alþjóðlegs matslykils um sjálfbæra nýtingu vatnsafls, sem hann kynnti á fundinum. Kristín Linda Árnadóttir forstjóri umhverfisstofnunar stýrði fundinum en þar töluðu einnig Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, Stefán Gíslason formaður verkefnisstjórnar Rammaáætlunar og Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands.

Juerg Hartmann kynnti sjálfbærnivísi; Alþjóðlegan matslykil um sjálfbæra nýtingu vatnsafls (sjá hér ) sem gefinn var út árið 2011. Lykillinn nýtist til að mæla og leiðbeina varðandi frammistöðu í málefnum vatnsaflsgeirans en er ekki staðall eða stimpill. Hann er tæki þar sem dregnar eru fram staðreyndir, á óháðan máta, frá fjölmörgum hliðum. Eftir hverja úttekt fer skýrslan í umsagnarferli þar sem almenningur getur komið með athugasemdir. Niðurstöður matsins eru settar fram á kóngulóarvefsgrafi þar sem 5 er best og 0 er verst. Búið er að meta tvær íslenskar virkjanir, Blönduvirkjun sem er þegar í notkun og Hvammsvirkjun sem er á hönnunarstigi. Landsvirkjun er fyrsta fyrirtækið sem íhugar að nota Sjálbærnivísinn fyrir allar vatnsaflsvirkjanir héðan í frá.

SjalfbaernivisirGuðni A. Jóhannesson talaði einnig um sjálfbærnivísinn og kom fram að hann er einn af höfundum lykilsins.  Hann ræddi um möguleika á að aðlaga lykilinn að jarðhitavirkjunum og vísaði í meistaraverkefni  Rutar Bjarnadóttur (2010)  og niðurstöður faghóps um sjálfbæra nýtingu jarðhita sem skipaður var af Orkustofnun og verkefnisstjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma (Jonas Ketilsson et al. 2011).  Viðtal við Guðna birtist á vef ruv.is

Stefán Gíslason formaður verkefnisstjórnar Rammaáætlunar kynnti lauslega það sem gerst hefur á síðustu misserum. Rammaáætlun var samþykkt á alþingi í janúar 2013, ný verkefnastjórn var skipuð í mars yfir 3. áfanga rammaáætlunar og tillögur um virkjanakosti voru kynntar í desember og eru enn í umsagnarferli til 19. mars á þessu ári. Þar er helsta breytingin sú að virkjanir í neðri hluta Þjórsár þ.m.t. Hvammsvirkjun hefur verið færð í nýtingarflokk. Sú ákvörðun byggir aðallega á niðurstöðum rannsókna á áhrifum virkjunarinnar á laxfiska og mögulegar mótvægisaðgerðir. Aðrar virkjanahugmyndir þurfa meiri skoðun svo hægt sé að taka ákvörðun um flokkun þeirra.

Árni Snorrason talaði um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á vatnafar. Hann vísaði í skýrslu IPCC  þar sem hlýnun jarðar hefur verið staðfest.  Hann sýndi breytingar á rennsli síðasta áratuginn og myndir af hopandi jöklum. Hann sýndi að spá um loftslagsbreytingar fram á næstu öld, fellur vel saman við þær breytingar sem þegar eru farnar að koma í ljós.  Hann ítrekaði það sem áður hefur komið fram að öllu óbreyttu munu jöklar á Íslandi hverfa á næstu 150-200 árum.  Nokkrar myndir úr erindi hans má finna á vef Veðurstofu Íslands hér 

Að loknu erindi Árna Snorrasonar var tekið á móti spurningum úr sal. Var spurt um nýtingu lykilsins á hönnunarstigi virkjana en fram kom að lítið hefur verið birt af skýrslum varðandi það. Þá var spurgt um skort á upplýsingum um aurframburð og fyllingu Sultartangalóns en panillinn taldi það ekki hafa áhrif innan þeirra 60 ára sem hönnunin tekur yfir. Við minnkun jökla mun draga úr framburði, þótt að aukning verði tímabundið með auknu rennsli. Ítrekað var að sjálfbærnivísirinn leggur mat á gæði rannsókna. Einnig var spurgt um þann skort sem verið hefur á vatni í lónum og hvað veldur. Kom fram að þrátt fyrir hlýnun til langs tíma munu tímabundnar sveiflur í báðar áttir halda áfram að eiga sér stað. Einnig hafa breytingar á hafís talsverð áhrif á lægðagang, sem hefur áhrif á úrkomu og þar með vatnssöfnun í lón.

Þá var rætt um aðlögun sjálfbærnivísisins að jarðhitavirkjunum og koma fram það væri ekki einfalt verk. Það þarf hins vegar tól til að bera saman mismunandi virkjanakosti. Að lokum var rætt um hvernig sjálfbærnilykillinn væri ólíkur umhverfismati að því leyti að hann t.d. metur hvort umhverfismat hafi verið gert á “réttum” tíma í ferlinu.

Juerg Hartmann lýsti þeirri skoðun sinni að íslenskir aðilar ættu að kynna betur fyrir umheiminum. þá vinnu sem hér hefur farið fram.

Fundurinn var haldinn af Orkustofnun, Umhverfisstofnun, Veðurstofunni og Landsvirkjun í tilefni af alþjóðadegi vatnsins.

Umfjöllun Umhverfisfrétta um skýrslu IPCC má nálgast hér og almennt um loftslagsmál hér