Það eru komnir gestir!

KarlBenFEATUREDKarl Benediktsson, prófessor í mannvistarlandfræði / pistill | Af umræðu undanfarinna vikna mætti ætla að íslenska þjóðin væri fyrst nú að átta sig á því að landið okkar litla er orðið býsna heitur áfangastaður fyrir ferðafólk frá öðrum löndum. Og að helstu áfangastaðir muni láta stórlega á sjá verði ekkert að gert.

Þetta er reyndar eðli veldisvaxtar: Allt í einu vaknar fólk upp við það að stórfelldar breytingar eru að gerast fyrir framan nefið á þeim, þótt þróunin hafi ef til vill kraumað alllengi. Erlendu ferðafólki á Íslandi hefur fjölgað eftir veldisvexti síðan á 7. áratug síðustu aldar. Gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 trekkti upp áhugann sem um munaði.

En flestum er nú orðið ljóst að margir fegurstu staðir Íslands eru sannarlega í bráðri hættu vegna þess fjölda sem heimsækir þá. Þá er tvennt til ráða: Að takmarka fjöldann og að byggja upp innviði þessara staða. Og nú á að fara að rukka. Setja upp skúra við Geysi, við Dettifoss og víðar. Fimmhundruðkall hér, sexhundruðkall þar. Fyrirmyndin er meira að segja komin við Kerið í Grímsnesi, þar sem einkaaðilar hafa heimt gjald í nokkur ár. Er þetta ekki bara besta mál – að þeir sem njóta staðanna greiði gjald til að standa straum af uppbyggingu og verndun?

Það er auðvitað afar dapurlegt að við séum komin á þennan stað. Að stjórnvöld hafi í áranna rás ekki séð sér fært að leggja fé til nauðsynlegrar uppbyggingar á ferðamannastöðum, þrátt fyrir að býsna mikið komi í ríkiskassann og inn í íslenska hagkerfið í heild í gegnum ferðaþjónustuna. Ekki hafa núverandi stjórnvöld stigið gæfuleg skref til þessa. Þegar þetta er skrifað er reyndar nýbúið að fresta fyrirhugaðri einkainnheimtu við Geysi vegna þrýstings frá stjórnvöldum, sem er vel. En nú stendur hins vegar til að innleiða „náttúrupassa“, sem að mínu mati er ekki mikið skárri lausn en gjaldtaka á einstökum stöðum. Á tímum þegar nánast allt sem er hefur verið gert að söluvöru finnst kannski einhverjum ég vera gamaldags, en mér finnst þetta satt að segja snúast um ákveðin grundvallargildi og réttindi borgaranna. Mér finnst álíka fráleitt að láta íslenskan almenning greiða fyrir aðgang að náttúru landsins eins og að láta hann greiða fyrir aðgang að heilbrigðisþjónustu og menntun.

Réttur almennings til aðgangs að landinu er ríkur á Íslandi og á sér langa menningarlega hefð. Eins og í norrænum nágrannalöndum er almennum borgurum heimilt að leggja leið sína – á tveim jafnfljótum að minnsta kosti – um mestallt landið utan byggðar (Að vísu virðist hér almannarétturinn á stundum vera túlkaður á svolítið séríslenskan máta: Að hér gildi eins konar „aljepparéttur“, eins og sást í deilum um lokanir fáeinna slóða í Vatnajökulsþjóðgarði fyrir nokkru. En það er önnur saga.). Almenn gjaldtaka fyrir aðgang að náttúrunni myndi fela í sér grundvallarbreytingu á sambandi fólks við landið, sem við mörg okkar erum miður hrifin af.

Að mínu mati ætti ríkið að byrja í eigin ranni – á þeim svæðum sem ríkið hefur forráð yfir og sem hafa verið friðlýst með einu eða öðru móti. Mörg þeirra eru mjólkurkýr einkarekinnar ferðaþjónustu. Einkafyrirtæki reka umsvifamikla starfsemi í Skaftafelli og nýta land Vatnajökulsþjóðgarðs. Ferðafélag Íslands rekur Landmannalaugar nánast eins og sú hálendisvin innan Friðlands að Fjallabaki væri einkaeign þess. Vélsleðaútgerðarmenn gera út á Snæfellsjökul og þjóðgarðinn þar. Þúsundum ferðafólks er sturtað úr rútum á Hakinu við Almannagjá og þyrlur sveima yfir Lögbergi. Svo mætti lengi telja.

Flestir Íslendingar eru á því að eðlilegt sé að einkaaðilar sem nýta auðlindir í almannaeigu greiði gjald fyrir. Við nýtinguna skapast auðlindarenta sem réttlátt sé að renni til eigandans – almennings. Veiðigjald í sjávarútvegi er dæmi um þetta. Hluti þess rennur einmitt til að rannsaka sjávarauðlindir, skipuleggja nýtingu þeirra og hafa eftirlit með henni.

Því vil ég leyfa mér að spyrja: Á það að vera sjálfsagt að einkafyrirtæki nýti þjóðlendur, þjóðgarða og friðlönd nánast að vild án þess að greiða fyrir aðgang sinn að þeirri náttúru sem hefur orðið þeim að auðlind? Ég svara því neitandi. Um upphæðina má vissulega rökræða, en ef farið er að innheimta eðlilega auðlindarentu af slíkri starfsemi þarf hún að renna beint til náttúruverndar, viðhalds og uppbyggingar ferðamannastaða. Það veitir ekki af. Það eru nefnilega komnir gestir.