Þriðjungsfleiri ferðamenn í febrúar

februar14_10_fjolmennustuVGH | Samkvæmt Ferðamálastofu fóru um 52 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu í febrúar í ár samkvæmt talningum eða um 12.500 fleiri en í febrúar á síðasta ári. Um er að ræða 31,2% fjölgun ferðamanna í febrúar milli ára. Ferðamannaárið virðist því ætla að fara vel af stað en fyrir mánuði síðan birti Ferðamálastofa frétt um 40% aukningu í janúarmánuði.

Tveir af hverjum fimm voru frá Bretlandi.

Bretar voru langfjölmennastir eða 43,5% af heildarfjölda ferðamanna en næstfjölmennastir voru Bandaríkjamenn eða 12,9% af heild. Þar á eftir komu Norðmenn (4,8%), Frakkar (4,8%), Þjóðverjar (4,1%), Danir (3,6%), Hollendingar (3,1%), Svíar (2,5%), Japanir (2,5%) og Kínverjar (2,2%). Samtals voru framangreindar tíu þjóðir 84% ferðamanna í febrúar.

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum langmest milli ára en 6.850 fleiri Bretar komu í febrúar í ár. Bandaríkjamenn voru 1.386 fleiri, Frakkar 827 fleiri og Kanadamenn 765 fleiri.

Þróun á tímabilinu 2003-2014

Þegar þróunin er skoðuð á því tímabili sem Ferðamálastofa hefur verið með talningar í gangi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar má sjá hvað ferðamönnum hefur fjölgað mikið í febrúar og þá einkum síðastliðin þrjú ár. Mismikil fjölgun eða fækkun hefur hins vegar átt sér stað eftir því hvaða markaðssvæði á í hlut. Mest áberandi er aukning Breta sem nálgast að vera helmingur ferðamanna í febrúar. Það vekur hins vegar athygli að Norðurlandabúar sem framan af voru stærsta markaðssvæðið í febrúar hafa nú minnstu hlutdeildina. Þó svo ferðamönnum hafi fjölgað frá öðrum markaðssvæðum þá eru það einkum Bretar sem hafa borið uppi þessa miklu ferðamannaukningu í febrúar.

Tæplega 100 þúsund ferðamenn frá áramótum

Það sem af er ári hafa 99.099 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 26 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 35,3% aukningu milli ára. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum; Bretum hefur fjölgað um 51,5%, ferðamönnum frá N-Ameríku um 40,1%, Mið- og S-Evrópubúum um 19,6%, Norðurlandabúum um 10,8% og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum um 33%.

Ferðir Íslendinga utan

Um 21 þúsund Íslendingar fóru utan í febrúar síðastliðnum, 428 fleiri en í febrúar árið 2013. Frá áramótum hafa 46.812 Íslendingar farið utan, 6,2% fleiri en árinu áður en þá fóru 44.089 utan.

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð.  Skiptingu milli landa má sjá í töflu á vefsíðu Ferðamálastofu hér