Plastmengun er krabbameinsvaldandi í gegnum fæðukeðjuna– ný löggjöf

Vilborg storVilborg G Hansen, landfræðingur / pistill |  Plast er hættuleg mengun í lífríkinu og enn hættulegri þegar hún er komin inn í fæðukeðjuna.  Nú leggur Evrópuþingið til að bannað verði að gefa plastpoka í verslunum.  Stefnt er að því að árið 2019 verði aðeins notaðir pokar sem búnir eru til úr endurnýttum pappír eða niðurbrjótanlegum efnum.  Í október á síðasta ári var fjallað um þetta í Umhverfisfréttum og var sagt frá frétt af BBC þar sem fjallað er um mengun vegna plastúrgangs.  Þar er vitnað til rannsóknar sem gerð var við Gardavatn á Ítalíu en niðurstaðan var sú að mikið magn af plastögnum fundust í vatninu og einnig er talið að svipað magn finnist víða við strendur.  Hættan sem í þessu felst er sú að dýr sem lifa í ferskvatni taka gjarnan þessar agnir inn í mistökum fyrir fæðu og þannig kemst mengunin af plasti inn í fæðukeðjuna og hefur áhrif á heilsu fólks.  Það sem vakti hins vegar einnig áhyggjur hjá rannsakendum er sú staðreynd að svo mikið magn í vötnum og ám getur haft áhrif á mannkynið í gegnum drykkjarvatnneyslu og vatn sem notað er á ræktarland, því efnin eru krabbameinsvaldandi.  Töldu rannsakendur þetta vandamál um alla Evrópu og í raun allan heim.

Löggjöf Evrópusambandsins kemur því ekki á óvart í framhaldi af þessum rannsóknum þó enn sé þeim ábótavant.  Léttir pokar sem notaðir eru einu sinni geta auðveldlega verið í náttúrunni í hundruð ára og brotna þar hægt niður.  Talið er að árlega fari átta milljarðar af plastpokum í ruslið í Evrópu sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið.   Stefnt er að því að Evrópuríki dragi úr plastpokanotkun a.m.k. 50% fyrir 2017 en allt að 80% fyrir árið 2019.  Greitt verður atkvæði um þetta á Evrópuþinginu dagana 14.-17.apríl n.k.  Slík löggjöf fellur undir EES samninginn og kemur því til framkvæmda  á Íslandi ef hún verðu samþykkt sem miklar líkur eru á.

Þetta er angi af umhverfisstjórnun almennt sem bæði hefur áhrif á efnahag og heilsu. Umhverfismál eru þegar á botnin hvolft efnhagsmál + heilbrigðismál = umhverfismál. Tengslin eru þau að með því að takmarka plast í náttúrunni og rusli þá má minnka krabbameinstilfelli af þeim sökum, sem aftur er dýr sjúkdómur fyrir efnahag landa og kostnað heilbrigðiskerfis.  Það er auðvelt fyrir hvern og einn að kaupa sér margnota innkaupapoka og raunar væri tilvalið að þeir pokar væru gefins en ekki seldir til þess að stuðla að notkun þeirra.  Kostnaðurinn við að gefa þessa poka er mjög líklega margfalt minni en sá kostnaður sem hlýst að því að mengun sem þessi haldist í fæðukeðjunni.

Fara í fyrri frétt um málið á Umhverfisfréttir hér
Tilkynning um lagasetningu ESB á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytis hér