Rafbílavæðing gegn hávaða – loftmengun sem veldur lungnakrabba og er efnahagslega jákvætt

Vilborg storVilborg G Hansen, landfræðingur / pistill | Í Evrópusambandinu hafa nú verið samþykktar reglur um að minnka skuli notkun jarðefnaeldsneytis og auka notkun lífefnaeldsneytis á bílaflotann.  Eðlilega þarf að rækta lífefnaeldsneyti með einhverjum hætti og kom nýverið í ljós að ekki væru nægar býflugur til þess að standa undir þessum áformum.  Það er yfirleitt betra að rannsaka fyrst og framkvæma svo!  Þessar reglur þýða það að Ísland þarf líka að auka notkun lífefnaeldsneytis og í okkar tilviki þurfum við að flytja það inn fyrir dýrmætan gjaldeyri, en jarðefnaeldsneytið nú er ódýrara en lífefnaeldsneyti.   Á Íslandi er hins vegar mikil innlend orka og við getum hæglega rafvætt bílaflota landsins ef vilji er fyrir því hjá stjórnvöldum á öllum stigum.  Með því að nota innlenda orku eins og rafmagn værum við að slá margar flugur í einu höggi.  Rafbílar eru svo til hljóðlausir og hávaðamengun væri svo gott sem úr sögunni og óþarft að fara í dýrar framkvæmdir vegna þess.  Við þyrftum heldur ekki að kaupa dýrt lífefnaeldsneyti til landsins fyrir okkar dýrmæta gjaldeyri sem við eigum af skornum skammti þar sem rafmagn er innlend framleiðsla.  Við værum einnig að leggja mikið til loftslagsmála. 

Í Evrópusambandinu hafa verið sett lög um loftmengun vegna útblásturs bíla og loftmengun hefur nú verið flokkuð af World Health Organization (WHO) í sama flokk og reykingar, því svo hættulegur er útblásturinn með tilliti til lungnakrabbameins.  Nýverið hóf Evrópusambandið málaferli á hendur Bretum vegna þess að þeir ná ekki markmiðum nýrra laga um loftmengun fyrir tilsettan tíma.  Raunar eru mörg fleiri lönd í Evrópu sem ekki ná þessum tímamörkum.  Krabbamein er almennt mjög dýr sjúkdómur fyrir öll ríki og því mikilvægt að stöðva allt það sem honum veldur.  Við erum það sem við borðum og öndum að okkur og umhverfismál eru alltaf efnahagsmál + heilbrigðismál = umhverfismál.  Á Íslandi er þetta auðvelt, því með því að rafbílavæða flotann er loftmengun sem þessi svo til úr sögunni. 

Vandamálið er helst það að borgar- og bæjaryfirvöld um allt land þurfa að hugsa það og skipuleggja hvernig þeir ætla að gera fólki kleift að hlaða bílana sína heimavið eða nálægt heimilum sínum.  Það þarf að byggja upp innviðina og það er hlutverk stjórnkerfisins.  Þetta er áskorun í átt til nýrra tíma.

Pistillinn birtist áður í Reykjavík vikublaði sjá hér