Loftmengun frá Hellisheiðarvirkjun ógnar tilveru Waldorfskóla – formaður bæjarráðs Kópavogs vill ekki taka sénsa með heilsu fólks

Hellisheidi_mengunVGH | Undanfarið hafa verið fréttir af því að brennisteinsmengun frá Hellisheiðarvirkjun ógni tilveru barnaskólans Waldorfsskóla í Lækjarbotnum í Kópavogslandi.  Hafa mörk brennisteins mælst yfir leyfilegum mörkum á svæðinu.  Af og til hafa á undanförnum árum borist fréttir af brennisteinsmengun í byggð á höfuðborgarsvæðinu en lítið verið aðhafst svo árangur fréttist af.  Þetta er t.d. Grafarholt, Breiðholt og Umhverfisfréttir hafa afspurn af því að brennisteinsfnykur finnist einnig í Þingahverfi í Kópavogi.  Mikilvægt er að íbúar láti vita af slíkri mengun finni þeir hana í íbúahverfi.   Í frétt á visir.is í dag kemur fram að formaður bæjarráðs Kópavogs Rannveig Ásgeirsdóttir vill ekki taka sénsinn varðandi mengun frá Hellisheiðarvirkjun en samkvæmt fréttinni segir hún:  „Við viljum ekkert taka sénsinn á því að sjá hvort hér verði einhverjar varanlegar skemmdir á heilsufari fólks – það er ekki séns sem við getum tekið,“  Samkvæmt fréttinni kemur einnig fram að Orkuveitan er við það að hefja tilraunarekstur á hreinsistöð sem hreinsar frá einni vél af sex á Hellisheiði.  Er það gert þannig að útblæstrinum er blandað saman við vatn og því dælt niður á 1000-2000 metra dýpi þar sem hann binst berginu.

Í fréttinni kemur fram að Rannveig segir engar rannsóknir eða reynslu til sem geti sagt til um langtímaáhrif jarðgasmengunarinnar frá Hellisheiði en alltaf verði mengun á svæðinu hvort sem heldur vegna koltvísýrings eða brennisteins.  Rannsóknir vegna áhrifa mengunarinnar út frá þessum atriðum er varða heilsu hafa því ekki farið fram .

Í þessu samhengi er ástæða til að hafa í huga að World Health Organization (WHO) hefur frá því í október 2013 flokkað loftmengun í sama flokk og reykingar en sagt var frá þessari breytingu hér á Umhverfisfréttir.  Stofnunin breytir ekki flokkun sinni án þess að baki þeim liggi ítarlegar rannsóknir og vísindalegar niðurstöður.  Einnig hefur Evrópusambandið hert löggjöf um loftmengun og sagt var einnig frá því á Umhverfisfréttir hér að sambandið hefur höfðað mál gegn Bretlandi vegna þess að landið nær ekki að minnka loftmengun á tilskyldum tíma.

Fara í fleiri  fréttir af mengunarmálum á Umhverfisfréttir hér