Landrán og lífeldsneyti

KarlBenFEATUREDKarl Benediktsson, prófessor í mannvistarlandfræði / pistill | Þessi árin er að eiga sér stað stórfelld breyting á eignarhaldi lands í fátækari hlutum heimsins. Fyrirtæki frá ríkari löndum kaupa upp flæmi lands og breyta nýtingu þess. Gagnrýnendur margir taka svo djúpt í árinni að tala um „landrán“ – land grab. Þetta tengist meðal annars auknum umhverfisáhyggjum og áherslu á „þjónustu vistkerfa“ eins og það heitir – eða kannski öllu heldur markaðsvæðingu mengunar og umhverfisspjalla, sem á sér fjölmarkar birtingarmyndir.

Seint á síðasta ári átti ég þess kost að dvelja í Ghana um tveggja mánaða skeið, með bækistöð í borginni Tamale. Þetta er í suðurhluta Sahel-beltisins. Þarna eru skörp skil regntíma og þurrkatíma. Gróðurfarið er hitabeltisgresja, með stæðilegum stökum trjám og hávöxnu grasi. Allt var iðjagrænt þegar ég kom til Tamale í lok regntímans, sem þarna varir einungis í um fimm mánuði. Þegar ég yfirgaf svæðið var þurrkatíminn brostinn á. Harmattan – þurr norðanvindur sem ræður ríkjum frá nóvemberlokum fram í mars – var að byrja, með tilheyrandi rykmekki frá Sahara-eyðimörkinni.

Þetta er afar fátækt svæði. Utan borgarmarkanna ræður sjálfsþurftabúskapur ríkjum. Svæðið er ekki sérlega þéttbýlt og við fyrstu sýn virðist að minnsta kosti enginn skortur á landi. Yfir regntímann ræktar fólk maís, hrísgrjón, hirsi og fleira. Trén gefa mörg hver af sér mikilvægar afurðir líka, mest til sjálfsþurfta en eitthvað til sölu. Lítið er um tækifæri til að afla viðurværis með öðrum hætti. Launuð vinna er ekki á hverju strái og fátt virðist unnt að rækta til sölu á markaðstorgum heimsins.

En ég komst á snoðir um nýbreytni sem hefur verið reynd á þessum slóðum og raunar víðar í Afríku. Þetta er framleiðsla á lífdíselolíu, nánar tiltekið með því að rækta plöntu sem kallast jatropha. Plantan sú ber afar olíuríkar hnetur. Hún er þurrkþolin og ekki sérlega kröfuhörð á frjósemi jarðvegs. Hún bindur einnig jarðveginn, auk þess sem hún bindur að sjálfsögðu kolefni eins og aðrar grænar plöntur.

Hugmyndin var sem sagt að ræktun á jatropha í stórum stíl gæti slegið margar flugur í einu höggi: Veitt fólki í sveitunum ný efnahagsleg tækifæri með framleiðslu á verðmætri vöru, jafnframt því að stuðla að vernd jarðvegs á svæðinu, og einnig umhverfisvernd í víðara skilningi með bindingu kolefnis. Með því síðastnefnda myndu skapast enn frekari markaðstækifæri: Kolefnisbinding er orðin að verslunarvöru á heimsvísu. Þetta væri sannkallað vinn-vinn, eins og það heitir á vorra tíma íslensku.
BiofuelsTractorEn þetta hefur satt að segja ekki gengið alveg upp. Eitt dæmi sem ég leit á var sérstaklega áhugavert. Þar hafði verið á ferð stórhuga Norðmaður, sem hafði komið höndum yfir mikið ræktarland í þorpi skammt frá Tamale árið 2008 eða svo. Traktorar og önnur tæki voru keypt og allt sett í gang. Af nokkrum hluta landsins var trjánum rutt um koll og plantað jatropha.

Þegar ég átti leið þar um virtist eitthvað samt hafa farið illilega úrskeiðis. Við veginn voru vissulega skilti sem á stóð „Biofuels“ og vísuðu út og suður, en á trjálausu landinu fór lítið fyrir jatropha-runnum. Og við þorpið sjálft stóðu yfirgefnir traktorar og jarðvinnslutæki í hrúgu og ryðguðu. Ég fór að kanna hverju þetta sætti.

Nú háttar svo til að í sveitum Ghana er vald höfðingja óskorað. Höfðinginn ræður hvernig land þorpsins er nýtt. Í ljós kom að höfðinginn í þessu tiltekna þorpi hafði „selt“ landið úr hendi þorpsbúa til fyrirtækisins fyrir lítið annað en óljós loforð um næga launavinnu fyrir alla. Þegar fyrirtækið hófst handa við að ryðja landið og planta hinni nýju undrajurt þurftu margir bændur að sjá á eftir ökrunum sem þeir höfðu verið að nýta sér og fjölskyldum sínum til lífsviðurværis. Ekki voru allir ánægðir með þetta, eins og gefur að skilja. Umhverfissamtök í Ghana tóku málið upp og fundu verkefninu ýmislegt til foráttu.

Síðan gerðist það að fjárhagslegir bakhjarlar verkefnisins heima í Noregi fengu veður af því að eitthvað gruggugt hefði verið í gangi við landakaupin og umhverfisávinningurinn væri kannski ekki alveg jafn borðleggjandi og upphafsmaðurinn vildi vera láta. Mikilvægast var að sjálft Statoil bakkaði út. Þar með datt botninn úr fjárfestingunni og eftir stóð enn eitt minnismerkið um stórverkefni sem ekki varð að neinu. Nóg er af slíkum verkefnum í Afríku – og þarf reyndar ekki að leita svo langt eftir þeim.

Dæmið er einungis eitt af mörgum svipuðum. Kvaðir í Evrópulöndum um aukið hlutfall lífeldsneytis hafa hér skapað nýjan og hratt vaxandi markað. Síaukinn hluti ræktarlands í Evrópu sjálfri er tekinn undir ræktun lífeldsneytis og hafa sumir af því talsverðar áhyggjur nú þegar. Enn meira áhyggjuefni er aukin ásókn í land í Afríku. Það er kaldhæðnislegt í besta falli að sífellt meira land í þeirri álfu sé tekið undir ræktun eldsneytis fyrir bíla í Evrópu. Það er enn fremur alls ekki sjálfgefið að slík þróun sé heimafólki eða umhverfi hagfelld þegar á hólminn er komið. Land sem er heimamönnum mikilvægt fyrir ræktun á matvælum er tekið til iðnaðarnota. Oft felur slíkt í sér stórfellda einföldun lífríkisins, með ræktun einnar tegundar á stóru svæði – jatropha eða olíupálma til dæmis. Til viðbótar þessu koma ýmsar menningarlegar flækjur og óvæntar samfélagslegar hliðarverkanir.

Umfram allt ber að viðurkenna að umhverfismál og þróunarmál eru nátengd. Það er óraunhæft að ætla sér að leysa hnattrænan umhverfisvanda, sem skapast hefur að miklu leyti af hagvexti ríku landanna, með því að útvista neikvæðum umhverfisáhrifum til fátækari landa. Slíkt jafngildir endurkomu nýlendustefnunnar.