Brottfarargjald í stað nattúrupassa

Ari Trausti storAri Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur / pistill |  Fylgist menn með þróun ferðaþjónustunnar er augljóst að sumt af innviðunum fylgir ekki hraðri fjölgun ferðamanna til landsins. Þess vegna er leitað að sértekjum til að koma ýmum grunnþáttum í sæmilegt horf. Núverandi fjármunir sem eiga að ganga til ferðþjónustunnar skila sér ekki nægilega vel.

Gjaldtaka við ferðamannastaði er ein leið og fer hún þá fram á vegum einkaaðila eða opinberra aðila. Það kostar 16 ensk pund að skoða Edinborgarkastala og 5 dollara að komast inn um eina hliðið á Cotopaxi-þjóðgarðinum í Ekvador.

Íslensk stjórnvöld hafa verið of sein á sér að hyggja að heppilegustu leiðinni í þessum efnum á Íslandi. Nokkrir landeigendur ríða á vaðið og brátt kostar fimm evrur að skoða eitthvað í landi Reykjahlíðar fyrir norðan, álíka mikið að líta á Kerið í Grímsnesi og nokkrar evrur að heimsækja Geysi gamla. Flestir erlendir ferðamenn kannast við svona gjaldtöku og kippa sér ekki upp við hana fyrr en heildarsumma í heimsókn fer að bíta vel í pyngjuna. Gjaldtaka við heimsókn heimamanna er oftast erfiaðri í framkvæmd en ekki ómöguleg. Í Ekvador borga heimamenn einn dollar í Cotopaxi-þjóðgarðinn en þar heyrir maður að greiðslan veki óánægju margra. Rökin eru þau að heimamenn standi hvort eð er undir kostnaði við þjóðgarða og líka við alla innviði, svo sem vegi og fleira, í kringum skoðunarverða staði í einkaeign. Loks koma innheimtukerfin, fyrirhöfnin og kostnaðurinn til álita.

Víða erlendis, einkum utan Evrópulanda. Kína, Rússlands og Bandaríkjanna, tíðkast víða að innheimta brottfarargjald af erlendum ríkisborgurum sem ekki aðeins millilenda; á bilinu 10 til 40 dollara. Það er valið í stað komugjalds (sem er innifalið í verði ferðalaga) vegna þess að það þykir brött byrjun á ferð að rukka inngangseyri til lands. Eins hætta allmargir við ferðir eða breyta þeim. Miðað við kostnað við flug- og járbrautarferðir, gistingu og mat eru upphæðir af þessari stærðargráðu lágar og ná ekki sömu stærð og gjöld við skoðun á 5 – 10 stöðum.

Einfaldasta lausnin á Íslandi er að taka upp svona gjald og semja við alla hlutaaðeigandi innanlands um að láta sértöku gjalda eiga sig frá því að innheimta hefst. Sjóður sem þannig yrði til væri lögvarin til notkunnar handa öllum ferðaþjónustaðilum til úrbóta á grunnþáttum þjónustu og umferðar um tiltekin svæði eða staði. Umsóknir væru afgreiddar hlutlægt af samstarfshópi ólíkra aðila og hins opinbera. Tveir milljarðar króna á ári (miðað við 20$ á mann og 800 þús. gesti) duga vel til þess að allir þurfandi fái sitt á skömmum tíma. Innheimtan fer fram með staðgreiðslu við brottför (rafrænt eða handvirkt)og leggur engar skyldur á herðar þjónustuaðila nema við afgreiðslu stórra hópa, svo sem skipafarþega. Þessi leið er einföld, þægileg og hefur lægsta flækjustigið, ef skilvirk dreifing fjármuna er tryggð.