Vilja leggja niður aðflutningsgjöld af jarðstrengjum – mótmæla loftlínu um Sprengisand

P1050472Í vefritinu Feyki.is kemur fram ályktun landeigenda sem samþykkt var að Mælifellsá þann 19.apríl s.l.  Þar sem því er mótmælt að lögð verði loftlína í stað jarðstrengs á Sprengisandsleið.  Í ályktuninni kemur fram að landeigendur fagni því að jarðstrengir séu nú metnir sem valkostur við raflínulagnir um Sprengisand og lýsa þeir yfir stuðningi við verndun hálendisins og mótmæla loftlínu um Sprengisand.  Segir ennfremur í ályktuninni að um árabil hafi íbúar á leið Blöndulínu 3 barist gegn þrýsingi Landsnets um lagningu háspennulínu og krafist þess að metin verði á hlutlausan hátt lagning jarðstrengja á þeirri leið sem Íslandi öllu.  Jafnframt er þess krafist að stjórnvöld leggi niður aðflutningsgjöld af jarðstrengjum til samræmis við loftlínur.  Þakka þeir jafnframt eyfirskum sveitarstjórnarmönnum fyrir fraumkvæði og framsýna stefnu um lagningu jarðstrengja “landsmönnum og náttúru Íslands til hagsbóta” . Um leið skora landeigendur á Sveitarfélag Skagafjarðar að fylgja frumkvæði.

Við þetta má bæta að frumvarp liggur nú fyrir Alþingi um afnám vörugjalda af jarðstrengjum til raforkuflutnings en Steingrímur J. Sigfússon er flutningsmaður frumvarpsins.  Í dag er lagt 15% vörugjald á jarðstrengi en í skýrslu nefndar frá því í október 2013 er lagt til að iðnaðar- og viðskiptaráðherra ásamt fjármála- og efnahagsráðherra endurskoði skattlagningu jarðlína og loftlína.  Slíkar lækkanir vörugjalda hafa áhrif á ákvarðanatöku þegar kemur að vali á leiðum í þessum efnum .

Fara í frétt á Feyki.is hér