Frá orðum til athafna – sjálfbærni í framleiðslu og neyslu matvæla

Þórhildur notamyndFEATUREÞórhildur Ósk Halldórsdóttir, viðskiptafræðingur og sérfræðingur í sjálfbærni / pistill | Fæðuöryggi er skilgreint af Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) sem svo:

Food security exists when all people, at all times, have physical, social and economic access to sufficient, safe and nutritious food which meets their dietary needs and food preferences for an active and healthy life.

Í þessu felst að tryggja þarf aðgengi að matvælum í samræmi við óskir neytenda sem standast jafnframt kröfur um næringargildi, öryggi og magn. Framboð matvæla þarf að vera viðunandi og aðgengi þarf að vera tryggt með nægilegu magni, dreifileiðum og viðráðanlegu verði.

Hérlendis stöndum við ekki frammi fyrir skorti á matvælum en það þýðir ekki að málið sé okkur Íslendingum óviðkomandi. Matvælaframleiðsla nú og um ókomna framtíð er mál okkar allra og endurspeglar almenn umræða mikla vakningu þess efnis. Kastljósinu hefur verið beint að matarsóun undanfarið og má þar nefna málþing Norræna hússins, Slow Food Reykjavík og GAIA um matarleifar og matarsóun, umfjöllun Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á Degi umhverfisins og grasrótarstarf Vakandi. Takmörkun á sóun matvæla er hluti af fæðuöryggi sem er aftur forsenda þess að við getum brauðfætt okkur um ókomna framtíð.

Í tengslum við þessa vakningu vöknuðu áhugaverðar umræður tengdar sóun matvæla, til dæmis varðandi nýtingu matvæla í skepnufóður. Það er borðleggjandi að það er sóun að henda mat og með hliðsjón af því má teljast betri nýting að matur fari í skepnufóður en í urðun. En það góð nýting að nota matvæli í fóður ef matvælin eru nógu góð til manneldis?

Einnig má nefna verð á matvælum, en eins og fjallað var um á morgunfundi Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á Degi umhverfisins, þá endurspeglar matvælaverð ekki þau umhverfisáhrif sem verða af iðnvæddri matvælaframleiðslu. Neytendur vilja ekki sjá hækkun vöruverðs og matvælaverð má heldur ekki verða svo hátt að það skerði aðgengi að mat. En umhverfisáhrif matvælaframleiðslu eru eftir sem áður mikil. Kostnaður við matvælaframleiðslu er til staðar í formi eyðileggingar á náttúruauðlindum sem mun fyrr eða síðar skila sér í skerðingu á þeirri þjónustu sem náttúran veitir okkur. Það má því segja að við séum að safna skuldum – og skuldir þarf að greiða. Spurningin er hvort við ætlum að standa í skilum eða geyma skuldasúpuna fyrir afkomendur okkar. Ef við ætlum okkur að standa í skilum núna þá þurfa að koma til breytingar á matvælaframleiðslukerfinu eins og það er nú.

Umhverfisvernd með breyttu mataræði

Neytendur eru ekki í aðstöðu til að hafa bein áhrif á matvælaframleiðslu en stjórna þó að mestu hversu mikið þeir kaupa, hvernig þeir nýta vöruna og hvaða vöru þeir velja. Ég spurði eitt sinn skólafélaga minn sem borðar hvorki kjöt né dýraafurðir um ástæður hans fyrir slíkum lífsstíl. Hann svaraði þannig til að hann hefði viljað leggja sitt af mörkum til umhverfismála og að vel athuguðu máli hefði breyting á mataræði verið aðgengilegasta og áhrifaríkasta leiðin fyrir hann sem einstakling. Með því að sleppa vörum eins og kjöti, mjólk og osti minnkaði hann vistspor sitt meira en hann gæti gert með á einu bretti með nokkrum öðrum hætti.

Þróun kjötríkara mataræðis er áhyggjuefni vegna þess álags sem kjötframleiðsla veldur, en mun meira ræktarland þarf til að rækta kjöt en til að rækta grænmeti. Það er óþarfi að framleiða meira en við þurfum og það er beinlínis skaðlegt umhverfinu. Það er einnig skaðlegt með tilliti til fæðuöryggis þar sem skaddað umhverfi takmarkar framtíðar framleiðslumöguleika. Það er vissulega sóun að henda mat, en það má líka teljast sóun að huga ekki að þeim umhverfisáhrifum sem lífsstíll okkar og val í mataræði veldur.

Er þetta svona einfalt?

Flestir velja sinn lífsstíl hvað varðar mataræði þó svo að ekki sé endilega tekin meðvituð ákvörðun á borð við að hætta kjötneyslu. Einnig getur verið um ómeðvitaða ákvörðun að ræða, eins og að viðhalda þeim lífsstíl sem við ólumst upp við. Hvort sem ákvarðanir eru meðvitaðar eða ekki þá hafa þær áhrif, áhrif á okkur og áhrif á umhverfið.

Við getum tekið ýmsar ákvarðanir sem snerta mat og umhverfi. Árstíðabundin og staðbundin matvæli er vert að skoða. Alveg eins og það má kallast sóun að rækta kjöt frekar en grænmeti þá má segja að það sé sóun að flytja matvörur þvert yfir hnöttinn til þess að neytendur hafi meira val. Vissulega er gott að fá ferskan aspas í súpuna á aðfangadag og jarðarber til að skreyta súkkulaðikökuna ef okkur dettur það í hug. En það er ekki nauðsynlegt að geta valið um allt – alltaf. Þetta er spurning um hugarfar og hvað okkur finnst sjálfsagt. Við getum oftast valið annað grænmeti í súpuna, eitthvað sem þarf ekki að flytja jafn langt með tilheyrandi geymslu, rýrnun og mengun vegna flutninga.

Árstíðabundin ferskvara er góður kostur fyrir þá sem vilja leggja sitt af mörkum til umhverfisins. Þessu tengjast svo sterklega staðbundin matvæli því eðli málsins samkvæmt er alltaf uppskera einhvers staðar í heiminum, galdurinn er að velja uppskeruna frá nærsamfélaginu eða nágrannalandinu. Það er því misjafnt eftir löndum og svæðum hvaða þýðingu það hefur fyrir neytendur að velja árstíðabundna vöru. Framleiðslugeta er misjöfn á milli landsvæða, bæði hvað varðar magn og fjölbreytileika, en á Íslandi framleiðum við að minnsta kosti sama magn og við neytum af kjöti og fiski og þessa matvöru getum við nálgast árið um kring. Við framleiðum líka grænmeti allt árið og kornrækt vex ásmegin.

Að velja í búðinni

Rannsóknir hafa sýnt að þrátt fyrir að vaxandi hluti neytenda séu upplýstir um umhverfismál þá sýni færri það í verki. Það er erfitt að breyta kauphegðun einfaldlega af því að það er mikill munur á að ætla og að gera. Ég tel mig til dæmis nokkuð upplýsta um umhverfisáhrif matvælaframleiðslu eftir tveggja ára framhaldsnám í umhverfisfræði. Í samræmi við það ætla ég iðulega að gera það sem er gott fyrir umhverfið og samfélagið. Svo fer ég út í búð og kaupi bara eitthvað. Mér finnst gott að varpa ábyrgðinni á matvælaframleiðendur og smásala því þeir hafa stórt hlutverk. Gott úrval af árstíðabundinni og staðbundinni matvöru eykur til dæmis líkurnar á því að ég fari eftir mínum óljósu markmiðum.

En sem neytendur eigum við ekki bara að fylgja þeim áherslum sem settar eru fyrir framan okkur. Við getum gert betur. Upplýst ákvarðanataka og að marka sér meðvitaða stefnu skiptir þar höfuðmáli. Skólafélagi minn sem borðar hvorki kjöt né dýraafurðir gerði nefnilega meira en að taka upplýsta ákvörðun. Hann skapaði sér ramma sem hann getur farið eftir í hvert sinn sem hann kaupir í matinn.

Fræðsla og vitundarvakning eru veigamiklir þættir þegar kemur að breytingu á lífsstíl og kauphegðun. Slík fræðsla er ekki síst drifin áfram af grasrótarstarfi. Fjölmörg spennandi verkefni eru í deiglunni og einnig eru margir sem hafa unnið ötult starf um árabil. Grasrótarstarf er mikilvægur þáttur framfara og hvað varðar matvæli þá getur slíkt starf verið milliliður í samræðu milli neytenda og framleiðenda og þrýst þannig á breytingar til hins betra.

Áhugaverðar vefsíður:

Vakandi

Ljósvarp

Slow food hreyfingin á Íslandi hér

Vefur nátturu: www.nattura.is

Ítarefni

FAO – fæðuöryggi hér

Foley et al. (2011). Solutions for a cultivated planet. Nature, Vol. 478, 337-342.

Kastner et al. (2012). Global changes in diets and the consequences for land requirements for food. PNAS 109 (18), 6868-6872.

Martinsson & Lundqvist (2010). Ecological citizenship: coming out “clean” without turning “green”?, Environmental Politics, 19:4, 518-527.