Stykkishólmur – fyrsta burðarplastpokalausa sveitarfélag á Íslandi?

burðarplastpokalaus sveitarfélag_2_mediumÁ undanförnum árum og mánuðum hefur umræða um skaðsemi plasts stóraukist meðal almennings, en plast getur valdið mjög neikvæðum áhrifum á heilsu og umhverfi. Lengi hefur verið vitað um þörf þess að draga úr notkun plasts í heiminum en þróunin hefur því miður verði þveröfug.

Umhverfishópur Stykkishólms fékk í ársbyrjun styrk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til að ráðast í tilraunaverkefni sem felur í sér að gera Stykkishólm að burðarplastpokalausu sveitarfélagi. Verkefnið er unnið í samstarfi við Náttúrustofu Vesturlands, Landvernd, Umís/Environice og Stykkishólmsbæ.

Undirbúningur verkefnisins hófst í vor og stendur nú yfir. Hann felur m.a. í sér samráð við verslanaeigendur og Íslenska gámafélagið og leit að mismunandi gerðum poka sem geta leyst burðarplastpokana af hólmi í öllum þeim fjölbreyttu hlutverkum sem slíkir pokar hafa gegnt hingað til, bæði við innkaup og förgun úrgangs. Stefnt er á að þann 4. september verði burðarplastpokanotkun hætt með pompi og prakt í öllum
verslunum í sveitarfélaginu.

Leitast er við að vinna verkefnið í sem mestri sátt og samvinnu við íbúa og starfsfólk verslunar og þjónustu. Umhverfishópurinn vonast til þess að Stykkishólmur verði fyrsta burðarplastpokalausa sveitarfélagið á Íslandi, íbúum og umhverfi til heilla. Enn fremur er stefnt að því að þekkingin sem verður til muni nýtast öðrum sveitarfélögum til að fylgja í kjölfarið. Um næstu áramót verður gefin út greinargerð um framvindu og árangur verkefnisins sem mun vonandi auðvelda öðrum að feta í fótspor Hólmara.

Hægt er að fylgjast með á Facebook-síðu verkefnisins, Burðarplastpokalaus Stykkisholmur,
http://www.facebook.com/burdarplastpokalaus.