Takið eftir: Hjálpar er þurfi nú þegar fyrir flóttamenn loftslagsbreytinga

Birna_midjaAðalbjörg Birna Guttormsdóttir, líf-, umhverfis- og auðlindafræðingur / pistill  |  Ríkisstjórnir heimsins hafa fengið viðvaranir. Ljóst er að koma þarf til móts við fjöldan allan af fólki sem neyðist til að flýja heimili sín vegna loftslagsbreytinga. Þetta fólk gæti þurft að horfa fram á átök og óöryggi í nánustu framtíð.

Hundruðir þúsunda manna eru nú þegar á faraldsfæti vegna loftslagsbreytinga, og þjóðir heims þurfa að setja fram aðgerðaráætlanir til að koma til móts við þennan fjölda og koma í veg fyrir að átök brjótist út segir í nýrri skýrslu Sameinuðu Þjóðanna (Institute For Environment and Human Security, UNU – EHS).

Hækkað yfirborð sjávar, ofsafengir stormar og fleiri náttúruhamfarir eins og t.d. langvarandi þurrkar munu koma til með að valda því að fleira og fleira fólk þarf að flýja heimili sín og leita á nýjar slóðir, hvort sem er til lengri eða styttri tíma. Þjóðir heimsins þurfa því að vera í viðbragðsstöðu og hafa aðgerðaráætlanir tilbúnar til að hægt sé að koma til móts við þá sem þurfa að yfirgefa heimili sín. Skýrslan varar við því að óundirbúnir flutningar svo mikils fjölda fólks geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, átök og óöryggi.

Í skýrslunni er farið yfir aðgerðaráætlanir 50 landa sem hafa nú þegar orðið fyrir loftslagsbreytingum og telja að til þess muni koma fljótlega að fólk þurfi að flýja heimili sín í stórum stíl. Þessi lönd eru einkum og sér í lagi lönd á við Bangladesh, eyjur í Kyrrahafi og Karabískahafinu ásamt mörgum Afríkulöndum.

Noregur og Sviss hafa sett á laggirnar verkefni sem kallað er Nansen Initiative. Verkefnið gengur út á að greina hvernig hægt er að hjálpa fólki sem hefur þurft að flýja heimili sín vegna loftslagsbreytinga. Á þessu stigi verkefnisins er verið að horfa sérstaklega á þau svæði heimsins sem nú þegar eiga við fólksflutningavandamál að stríða.

Skýrslan leiðir til lykta að til viðbótar því að finna land, heimili og vinnu fyrir það fólk sem mun þurfa að flýja heimili sín, svo það geti framfleytt fjölskyldum sínum, þá þarf að búa þannig í haginn að þessu fólki finnist það vera partur af því samfélagi sem það sest að í. Þjóðir heims þurfa því að byggja aðgerðaráætlanir sínar upp á þann hátt að innflytjendur (e. Newcomers) aðlagist samfélaginu t.d. með því að gefa þeim rétt til ákvarðana um sína eigin framtíð. Sérstaklega þarf að huga að eldri borgurum, þeim sem hafa um sárt að binda, börnum og konum.  Nauðsynlegt er að koma í veg fyrir átök innan fjölskyldna, við yfirvöld og samfélagið sem tekur á móti fólkinu. Sérstaklega þarf að huga að því að ekki sé gengið á menningararfðleið, trúarvitund, venjur og hefðir þeirra sem þurfa að færa sig um set. Aðeins þannig verði komið í veg fyrir áframhaldandi fólksflutninga þeirra sem þá þegar hafa þurft að flýja heimili sín vegna loftslagsbreytinga.

Fara í The Ecoligist hér
Fara í The United Nations University Institute for Environment and Human Security hér
Fara í Nansen Initiativ hér
Sjá skýrsluna í heild sinni hér