Borgarskipulag – enn einu sinni

Ari Trausti storklipptAri Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur / pistill |  Skipulagsvandi Reykjavíkur á stærstar rætur í útpældri svefnhverfavæðingu sem hófst upp úr 1960. Hann stafar nefnilega ekki að stórum hluta af Reykjavíkurflugvelli. Inn í vandann fléttast hröð stórmarkaðsvæðing og t.d. dagleg innkaup fólks sem oftast krefjast bílferða. Í viðbót tíðkast að telja að almenningssamgöngur verði að borga sig, eða þær skuli reknar á núlli. Þá horfa menn fram hjá ávinningi af minna sliti gatna, tímasparnaði fólks, minna álagi á umhverfið, sparnaði í akstri fjölda einkabíla og fleiri þáttum. Allir eru þeir í raun ígildi beinharðra peninga og eiga að blandast í reiknidæmið.
Reykjavík tekur of mikið pláss miðað við íbúafjölda. Með byggð í Vatnsmýri handa 10-20 þúsund manns (10% íbúa Stór-Reykjavíkursvæðisins) er hvergi nærri komið til móts við nútímaþarfir þorra íbúa, t.d. lifandi nærumhverfi (annað en elskulega nábúa), nærtæka og persónulega verslun og greiðar samgöngur innanbæjar. Heildarlausnir ættu að fela í sér að mörg hverfi bjóði upp á slíkan lífsstíl en nokkur önnur haldi móa- og svefnhverfastílnum með þjónustukjörnum og tilheyrandi bílastæðum.
Við mat á greiðum innanbæjasamgöngum kemur margt til álita. Stuttur biðtími, tíðar ferðir alla daga og auðveldar tengingar eru mikilvæg atriði. Einnig betri biðskýli og skjólgóðar skiptistöðvar. Slíkt kerfi er rekið með með tapi sem greiðist upp með sparnaði annars staðar og lágu, almennu samgöngugjaldi (eins og vatnsskatti). Almenningssamgöngur varða alla, líka þá sem ekki nota þær. Sókn að einka- og atvinnubílum með þrengingum, hindrunum og t.d. skorti á undirgöngum eða brúm á aðalumferðaræðum (sbr. Miklubraut) er ekki leið til að auka álit fólks á almenningssamgöngum eða hjólreiðum. Nær væri að gera almenningskerfið sem mest aðlaðandi.
Sé svo horft til samgangna inn og út úr Reykjavík kemur til öryggi íbúanna, réttur fólks til skyndiferða til og frá höfuðborginni vegna ótal tilefna, flókin heilbrigðis- og menntamál, brýn atvinnumál og margt fleira. Þá dugar lítt að uppnefna samgöngumiðstöðvar ferlíki, lýti á borginni og trúaratriði eða annað svipað. Umræðan verður að vera lausnarmiðuð í þá átt að greiðar meginleiðir séu inn í og út úr borginni á sjó, landi og í lofti. Hver treystir sér til að rökfæra t.d. fyrir því að flytja rútumiðstöð úr Reykjavík til Mosfellsbæjar eða loka höfnum borgarinnar eða svifta borgina flugþjónustu til allrar framtíðar? Hvernig fara erlendar, miðlægar smáborgir að, sem ekki hafa kost á járnbrautarsamgöngum?
Endurskoðun á útþenslu Reykjavíkur, hverfaskipulagi, samgöngumálum og verslunarháttum eru brýn hagsmuna- og umhverfismál sem verða ekki leyst nema með samvinnu borgarfulltrúa og borgarbúa.