Þorskurinn syndir norðar vegna hlýrri sjávar við Bretland – hvað verður um “fish and chips”

Fish and chipsVGH | Sjávarfræðingar segja að fljótlega verði að fara að nota aðrar fisktegundir og stofna eftir því sem sjórinn við strendur hlýnar.  Þorskur með frönskum gæti orðið réttur fortíðarinnar fljótlega vegna þessa.  Sjávarfræðingar hafa varað við því að hlýnun sjávar sé að breyta tegundasamsetningu við strendur þar sem þorskur og ýsa hafa veiðst.  Farið er nú þegar að veiða aðrar tegundir.  Prófessor Richard Lampitt frá National Ocenagraphy Centre í Southampton segir að nú verði breskur almenningur að fara að vera opnari fyrir því að borða aðrar fisktegundir vegna hlýrri sjávar við strendur landsins.  Sú hugmynd að þorskur sé eini fiskurinn sem vert sé að borða er hugsun sem gengur ekki lengur.

Sjávarfræðingar hafa nú fundið út að sjór í kringum Bretland hefur hlýnað um allt að 1.6 C síðan 1980 en það er næstum fjórföld hækkun miðað við heimsmeðaltalið á hlýnun sjávar.  Landfræðileg lega Bretlands virðist gera það að verkum að áhrif loftslagsbreytinga verða þar margföld.  Vegna þessa dregur nú sjórinn í kringum landið til sín óvæntar tegundir eins og t.d. höfrunga og hnúfubaka sem eru sjaldséðir gestir við Bretland.  Aðrar breytingar hafa líka verið undanfarin 35 ár en 15 af þeim 36 tegundum sem rannsakaðar voru í Norðursjó eru nú á öðrum breiddargráðum segir prófessor Callum Roberts við York Háskóla.  Meðaltal fjarlægðarinnar sem tegundirnar virðast færa sig um eru um 300 km norðar.

Fiskur sem vill vera í kaldari sjó hefur fært sig norðar í átt að Íslandi og Færeyjum á meðan fiskur sem vill vera í hlýrri sjó og hefur haldið sig sunnar færir sig nú í auknum mæli norðar og heldur sig við Bretland.  Þorskur finnst orðið vart við Bretland og fiskur sem venjulega lifir við suðurodda landsins hefur nú fært sig í Norðursjó við Skotland.  Vandamálið er að þjóðin er ennþá föst í fimm fisktegundum þegar kemur að fæðu þ.e. þorski, ýsu, túnfisk, rækju og lax sagði professor Stephen Simpson við Exeter Háskóla.  Fáar þessar tegundir finnast lengur við Bretland þannig að þær þarf að flytja inn til landsins annarsstaðar frá.  Þorskur er fluttur inn frá Íslandi, túnfiskur frá hitabeltislöndum eða þeir eru ræktaðir í hvíum eins og laxinn.  Aðeins ýsan lifir ennþá á sumum svæðum í kringum Bretland.

Á sama tíma lifa nú við landið ýmsar aðrar tegundir eins og sardínur, John Dory eða pétursfiskur öðru nafni og ýmsir aðrir stofnar af ýsu og þorsk.  Þessar tegundir sem  lifað hafa sunnar, hafa nú fært sig í sjó við Bretland.  Breskir veiðimenn veiða þennan fisk en eiga í erfiðleikum með að finna markaði fyrir aflann heima fyrir.  Þeir þurfa því að selja aflann til Spánar og annarra Evrópulanda segir Simpson.  Við ættum auðvitað að borða þennan fisk sjálf enda er hann í sjónum í kringum okkur nú í dag.  Ef við borðuðum þessar tegundir í staðinn fyrir tegundir sem lifa ekki lengur í kringum landið þá þyrftum við lítið að flytja inn.  En það gerist ekki fyrr en hugarfar okkar breytist gagnvart fisk í Bretlandi.  Við erum gamaldags í þessu svo einfalt er það, segir hann.

Á næstunni verður ráðstefna í London um sjálfbærar veiðar 2050.  Vísindamenn, sjávarútvegurinn, stórmarkaðir, neytendur og friðunarsinnar munu þar ræða leiðir til þess að markaðssetja nýjar tegundir af fisk og reyna þannig að gera þær vinsælar eins og þorsk og ýsu áður.  Það verður nokkuð flókið en ég er bjartsýnn, sagði Simpson.

Vandamál eru í nánustu framtíð t.d. varðandi makrílinn.  Þar til nýverið var hann talinn ein sjálfbærasta tegundin í Norðursjó og gefinn út kvóti af hálfu Evrópusambandsins og Noreg.  Síðan fór makríllinn að færa sig norðar þegar sjór hlýnaði og nú lifir hann við Ísland og Færeyjar.  Floti þessara landa hóf miklar veiðar á þessum stofni.  Niðurstaðan er mikil minnkun á kvóta Evrópusambandsins og Noregs þannig að nú er hafið nokkurskonar makrílstríð sem enn hefur ekki verið leyst.  Það munu verða fleiri svona tilvik eftir því sem sjórinn hlýnar sagði Roberts.  Áhrif hlýnunar sjávar hefur áhrif á stofna og nú þegar er um ofveiði að ræða.  Í áratugi hafa togarar notað 30 tonna net með stálhurðum og keðjum og dregið þetta yfir meiri partinn af sjávarbotni við strendur Bretlands til þess að ná hverjum þorski og ýsu sem þeir mögulega geta fundið.  Sjávarbotninn á stöðum eins og við Firth of Clyde hefur verið rifinn upp og eyðilagður.  Tegundir sem sækja norðar á þessar eyðilögðu slóðir hafa lítið til að viðhalda sér þar.  Framtíðin í breskum sjó verður því með öðrum tegundum og stofnum en nú er.

Fara á The Guardian hér