Eru loftslagsmálin tuð vinstrisinnaðra vísindamanna?

Vilborg storVilborg G Hansen, landfræðingur / pistill | Loftslagsmálin eru og verða áfram í brennidepli umhverfisumræðunnar þrátt fyrir það að einhverjir hangi ennþá á þeirri skoðun sinni að þau séu ekki til.  Þrátt fyrir þá staðreynd að sumir telji manninn ekki eiga neinn þátt í þeirri þróun.  Sumir ganga svo langt að tala um að hnattræn hlýnun hafi stöðvast en á sama tíma horfum við upp á fiskistofna og tegundir færa sig norðar vegna hlýrri sjávar.  Sjórinn hlýnar, sjávaryfirborð hækkar og ógnar þannig heimilum fólks á sumum svæðum.  Sagt var frá því í júní hér á Umhverfisfréttum að eyjarnar í Micronesíu séu hreinlega að sökkva vegna hækkunar sjávarborðs.   Öfga veðurfyrirbæri sjáum við út um allan heim með hræðilegum afleiðingum fyrir milljónir manna.  Auðvitað eru bæði náttúrulegar og eðlilegar skýringar á þessum breytingum en maðurinn á líka sinn þátt, því verður vart neitað og við getum gert betur.  Við verðum að gera betur í að aðlaga okkur.  Auðvitað eru líka náttúrulegar skýringar og þannig hefur það alltaf verið.  En sjónarmiðin sem slík skipta engu máli, loftslagsbreytingarnar eru og verða áfram og við þurfum að finna leið til þess að þróast með og takast á við framtíðina eins og hún verður, ekki eins og hún var og er.  Nærtækasta dæmi okkar Íslendinga er makríllinn sem nú lifir í meira mæli hér í lögsögu Íslands en á sama tíma missa Bretar og Evrópuþjóðir spón úr aski sínum.  Á móti fá þeir aðrar tegundir stofna sem þeir þurfa að laga sig að.  Ef við aðlögum okkur ekki þá töpum við heilsu og miklum fjármunum.  Við þurfum að skilja að það felst gríðarlegur sparnaður í að hugsa um umhverfið og stýra neyslu okkar og þar með heilsu.

Umhverfismál eru alltaf = heilbrigðismál og efnahagsmál í samhengi.  Það sem illa fer í mengunarmálum lendir á endanum á heilbrigðiskerfinu í formi kostnaðar vegna sjúkdóma tengdum mengun og þar með ríkiskassanum og okkur sjálfum.

Þeir sem neita því að loftslagsbreytingar eigi sér stað verða að eiga þá skoðun við sjálfan sig enda eru þeir í miklum minnihluta þegar kemur að þessum málum, svona svipað og síðustu móhíkanarnir!  Það er líka ennþá til fullt af fólki sem heldur því fram að samkynhneygð sé sjúkdómur og loftslagsumræðan sé eingöngu áróður sérvirtra vinstrisinnaðra vísindamanna!  Nú eru til að mynda dæmi þess að stærstu auglýsingafyrirtæki heims ætli að hætta að þjónusta viðskiptavini sem neita að horfast í augu við loftslagsbreytingar og þá sem vilja koma í veg fyrir að settar séu hertari reglur um útblástur kolefnis (sjá frétt í The Guardin hér).  Einnig kom fram í frétt hér á Umhverfisfréttum að nú er rætt um það að mun meiri áhætta sé í því að fjárfesta í olíufyrirtækjum en áður og fjármálamarkaðir þess vegna í hættu.  Beinlínis bent á að lífeyrissjóðir ættu ekki að taka slíka áhættu með opinbert fé.

Það er ekki lengur „inn“ að neita loftslagsbreytingum heldur finna lausnir til framtíðar og huga að umhverfisstjórnun.   Að hugsa um umhverfi sitt og heilsu er “inn” í dag.  Þetta vita flest stærstu fyrirtæki landsins sem státa sig af því að vera búin að innleiða vottuð umhverfisstjónunarkerfi í rekstri sínum enda gríðarlegur sparnaður sem felst í slíku.  Það vilja allir reka fyrirtæki með hagkvæmum hætti.   Fólk er í meira mæli farið að haga neysluvenjum sínum þegar kemur að vali á vörum og fyrirtækjum eftir umhverfismerkingum og vottun og þessi markhópur stækkar ört og er eftir miklu að sækja.  Það er eflaust sjónarhorn að hafa merkingu fyrir umhverfissóðaskap líka svo jafnræðis sé gætt, það er ennþá markaður fyrir slík fyrirtæki þó hann fari minnkandi.

Mengun og umhverfissóðaskapur er háttur fortíðar og gamaldags hugunarháttur.  Já hagnaður fyrirtækja mun breytast þ.e. önnur fyrirtæki en áður munu hagnast.  Fyrirtæki fortíðar sem neita að breytast munu missa spón úr aski sínum ef þau þróast ekki til nýrra tíma og viðhorfa.  Þau verða minna áhugaverð fyrir fjárfesta eftir því sem umhverfisvitund þeirra eykst.

Loftslagsbreytingar gerast sama hver er sökudólgurinn og allt karp á milli vinstri og hægri aðeins seinkar aðlögun þegar aðgerða er þörf.  Það er ekkert hægri vinstri hvort við notum rafbíl. Það er heldur ekki vinstri hægri hvort við hreinsum skólp við ströndina eða hvetjum til þess að nota umhverfisvæn efni.  Það hefur hins vegar allt með heilsu okkar og efnahag ríkisins og sveitarfélaga að gera og þá sem mögulega tapa á sölu jarðefnaeldsneytis og þá sem hagnast á orkusölu.  Orkusölu frá fyrirtækjum sem reyndar við sjálf erum helstu eigendur að.  Einbeitum okkur miklu frekar að þeim ávinningi sem í slíkri aðlögun felst því hann er sameiginlegur og nýtist okkur öllum sem samfélagi í heild.

Loftslagsmál eru ekki eingöngu tuð vinstrisinnaðra vísindamanna, þau eru tuð líðandi stundar og framtíðarinnar!