Eigum við að hlaða rafbíl heimilisins í gegnum eldhúsgluggann?

Vilborg storVilborg G Hansen, landfræðingur / pistill | Þegar rætt er um sporvagna, lestir og almennt um almenningssamgöngur þá benda sumir á að slíkt skili ekki nægum hagnaði þ.e. fjárhagslegum hagnaði í sjálfum rekstrinum.  Það er ekkert skrítið ef slík fyrirtæki eiga að vera einkarekin!  Einkarekin fyrirtæki eiga að mynda hagnað fyrir eigendur sína.  Spurningin í þessu er hins vegar hvort það er eðlilegt að samgöngufyrirtæki séu í einkarekstri eins og sporvagnar og lestir því mesti ávinningurinn af slíkum rekstri er í gegnum sparnað í viðhaldi gatnakerfis og sparnað í heilbrigðiskerfinu vegna minni mengunar (krabbamein, hjartasjúkdómar, lungnasjúkdómar o.s.frv.). Gleymum ekki gjaldeyrissparnaðinum.  Það er því í raun það opinbera sem hefur mestan hag af því að samgöngur séu umhverfisvænar og notast sé við innlenda orku. Hið opinbera hefur mestan hag af því að rafbílavæða bílaflotann en ekki díselvæða.

Í Reykjavík er frítt fyrir litla díselbíla sem sagðir eru menga lítið, að leggja í miðbænum af því þeir eru umhverfisvænir!  Staðreyndin er sú að einmitt nú er Evrópusambandið í málaferlum við Breta vegna slakra loftgæða og vegna þess að þeir ná ekki að minnka loftmengun hjá sér sem að mestu er tilkomin vegna mengunar frá DÍSELBÍLUM, sjá hér.

Úblástur frá díselbílum er mun hættulegri loftmengun en bensín þar sem agnir frá díselbílum eru mun stærri.  Loftmengun sem þessi er beintengd við dýra sjúkdóma heilbrigðiskerfinsins sjá hér.  Það má því segja að kostnaðurinn sé færður á milli staða í kerfinu þ.e. minni gjaldeyrisnotkun vegna innkaupa á dísel sem síðar kemur fram í meiri kostnaði vegna sjúkdóma.

Þetta er ekki framtíðarhugsun og þetta er ekki sparnaðarhugsun.  Stærsti sparnaðurinn felst í að nota innlendar auðlindir í sem mestum mæli, sem ekki þarf að flytja inn eins og orkuna sem við eigum nóg af.  Spurning stjórnvalda (ríkis og sveitarfélaga) ætti að vera, hve fljótt getum við rafbílavætt Ísland og hvað getum við gert til þess að flýta fyrir.  Það er stjórnvalda að byggja upp innviði og skapa umhverfið fyrir samfélagið til þess að breytast og þróast.

Ég keyrði fram hjá húsi um daginn þar sem rafbíll (Nissan Leaf) var lagt upp við glugga og verið var að hlaða bílinn inn um eldhúsgluggann!

Er ekki kominn tími til að sveitarfélög og orkufyrirtæki fari að sjá til þess að lagðir séu kaplar þannig að fólk geti hlaðið bílana sína heimafyrir án þess að þurfa að tengja í gegnum eldhúsgluggann?  Nógu fljótt og nauðsynlegt þótti að að grafa fyrir ljósleiðara og tengja inn í hvert hús!

Við þurfum líka að skilja að þó við breytum hérlendis um eldsneytisnotkun þ.e. hættum notkun jarðefnaeldsneytis og tökum upp notkun innlendrar orku þá er það ekki slæmt.  Það er það besta sem við getum gert fyrir efnahaginn.  Markmiðið með því að hvetja til kaupa díselbíla var einmitt að spara gjaldeyri og vera “umhverfisvæn”.  Með rafbílavæðingu þurfum við ekki að eyða þessum gjaldeyri, en olíufélögin missa spón úr aski sínum eins og þau munu gera í framtíðinni út um allan heim.