Úttekt OECD – margt gott í umhverfismálum, en iðnaður einsleitur og hætta á ágreiningi vegna ólíkra hagsmuna

SigurdurIngiHeildarúttekt OECE á umhverfismálum Íslendinga var kynnt í gær en Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði fundinn.  Þetta er í þriðja sinn sem OECD gerir slíka úttekt á umhverfismálum hér á landi en að jafnaði er um áratugur milli umhverfisúttekta stofnunarinnar á aðildarríkjum sínum.  Það voru Simon Upton, yfirmaður umhverfissviðs OECD (Environment Directorate) og Brendan Gillespie, forstöðumaður umhverfisúttekta (Environmental Performance and Information Division) sem afhentu skýrsluna formlega á kynningarfundi á Hótel Natura í gær.

Íslensk náttúra hefur gegnt lykilhlutverki í efnahagsbata landsins, bæði vegna orkuauðlinda hennar sem og aðdráttarafls fyrir erlenda ferðamenn. Íslendingar njóta mikilla lífsgæða og hreins umhverfis sem býður upp á framúrskarandi vatnsgæði, litla loftmengun og mikið aðgengi að óspilltri náttúru. Þetta er meðal meginniðurstaðna heildarúttektar Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) á umhverfismálum á Íslandi árin 2001 – 2013.

Í skýrslunni er bent á styrkleika og áskoranir í umhverfismálum Íslendinga. Meðal annars er það talið landinu til tekna að mótuð hafi verið skýr stefna varðandi stjórnun umhverfismála og sjálfbæra þróun. Íslendingar hafi nálgast umhverfisstjórnun með nýstárlegum hætti, svo sem í fiskveiðistjórnun og nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda. Gildi fyrir vatns- og loftmengun séu í sögulegu lágmarki og Ísland sé með hæsta hlutfall endurnýjanlegrar orku af öllum þjóðum OECD.  Þá hafi landið að geyma einstaka náttúru með óspillt víðerni, hveri, hraunbreiður og jökla sem margir óska eftir því að sjá og upplifa.

Helstu áskoranir landsins eru m.a. taldar felast í veikri efnahagsstöðu smærri sveitarfélaga sem aftri þeim frá því að fylgja eftir öflugri umhverfisstefnu.  Þá sé iðnaður í landinu einsleitur og reiði sig verulega á ódýra, hreina orku vegna þess hversu orkufrekur hann er.  Landeyðing sé vandi, m.a. vegna ofbeitar, sem styrkjakerfi í landbúnaði ýti undir og einnig auki sívaxandi ferðamannastraumur álag á viðkvæma náttúru til muna.  Þá sé hætta sé á að ágreiningur verði um landnýtingu vegna ólíkra hagsmuna þeirra sem vilja annars vegar nýta náttúruna til orkuframleiðslu og hins vegar þeirra sem vilja auka náttúrutengda ferðaþjónustu.

Í skýrslunni er sjónum sérstaklega beint að annars vegar,  náttúru og ferðaþjónustu og hins vegar náttúru og orku- eða virkjanamálum.  Er á sama hátt farið yfir tækifæri og áskoranir sem þessir málaflokkar fela í sér og lagðar fram tillögur að næstu skrefum hvað þessi málefni varðar.

Bent er á í niðurstöðu skýrslunnar að framleiðsla orku hefur tvöfaldast síðan árið 2000 og framleitt er nærri fimm sinnum meira en landsmenn þurfi miðað við höfðatölu.   Aðallega sé framleidd orka fyrir erlend álfyrirtæki.  Ferðamenn hafa einnig meira en tvöfaldast á þessu tímabili og eru nú um 700.000 á ári.  Báðar þessar atvinnugreinar setji mikið álag á náttúruna.  Samþætting þessara tveggja atvinnugreina gefur Íslendingum tækifæri á því að leiða grænu byltinguna í heiminum sagði framkvæmdarstjóri OECD Simon Upton.  En það verður að stjórna vel og ná sátt á milli aðila.

OECD mælir með því að innleiða vísindalegar og hagfræðilegar rannsóknir í næsta þrepi og endurmeta það verð sem landið selur orkuna á út frá umhverfislegum kostnaði.  Mælt er með því að þróa sjálfbæran ferðaiðnað og innviði til þess að það sé öruggt að ferðamenn leggi til uppbyggingar og friðunar.

Fara í heildarskýrslu á úttekt OECD á frammistöðu Íslands í umhverfismálum hér
Fara í úrdrátt með yfirliti yfir helstu atriði og niðurstöður hér