Blámóða yfir höfuðborginni í gær – brennisteinsdíoxíð hvað er nú það?

photo 4 (1)Í gær lá mistur/móða  yfir höfuðborgarsvæðinu vegna gossins í Holuhrauni.  Í blámóðunni svokallaðri frá eldstöðinni er brennisteinsdíoxíð (SO2, sulfur dioxide) sem getur verið mönnum og dýrum hættulegt í of miklu magni.  Í minna magni finna helst þeir sem veikir eru fyrir t.d. í lungum og hjarta fyrir einkennum.  Hér efst á síðunni má finna hlekk á töflu frá Umhverfisstofnun þar sem listuð eru upp helstu einkenni og viðbröð sem ber að grípa til út frá mismiklum styrk.

Brennisteinsdíoxíð
Uppruni SO2 getur verið eldsneyti aðallega kol og olía en einnig málmbræðsla og ýmis iðnaðarframleiðsla. Uppruninn getur einnig verið náttúrulegur eins og nú gerist frá eldgosinu í Holuhrauni.  Helstu umhverfisáhrif brennisteinsdioxíð eru súrt regn, súr jarðvegur, súr vötn og lækir.  Brennisteinsdioxíð er ein helsta uppspretta fínna agna af sóti sem hefur bein áhrif á heilsu fólks og dýra.  Mikið magn af brennisteinsdioxíð getur orsakað öndunarerfiðleika t.d. hjá börnum og fullorðnum með astma sérstaklega ef fólk er að erfiða utandyra.  Ekki er æskilegt að fólk og dýr erfiði utandyra þegar mikillar mengunar gætir.  Þrátt fyrir að þessi tegund loftmengunar gæti aðeins í stuttan tíma hefur hún verið tengd við mæði, verki í brjósti og erfiðleika við öndun.  Ef um langtímaáhrif er að ræða og mikla innöndun, getur brennisteinsdioxíð orsakað veikindi í ristli, breytingar í lungum og hjartasjúkdóma.

Brennisteinsdioxíð eða brennisteinstvígildi er litlaus lofttegund sem flestir finna lykt af ef styrkurinn nær upp í 1000 µg/m3.  Þessi gastegund gengur auðveldlega í efnasambönd við aðrar tegundir og býr þannig til hættuleg efni til innöndunar eins og brennisteinssýru og brennisteinsagnir.  Þegar brennisteinsdíoxíð hvarfast við OH radikala (radical) í andrúmsloftinu myndast breinnisteinssýra (SO3) sem síðan hvarfast aftur við vatn og myndar brennisteinssýruagnir. Þetta getur gerst þegar mikil mengun brennisteinsoxíð gætir í vætutíð.  Efnið loðir oft líka við yfirborð fastra efna og veldur tæringu.  Gróður getur tekið upp brennisteinsdioxíð og getur breytt því í súlfat (SO4).  Ef of mikið af efninu er til staðar þá koma fram gróðurskemmdir.  Þegar brennisteinsoxíð hvarfast við súrefni og myndar brennisteinssýru getur það fallið sem súrt regn sem hefur víðtækar afleiðingar.  Súrt regn veldur t.d. skemmdum á gróðri, eyðingu skóga sem og stuðlar að skemmdum á byggingum og mannvirkjum almennt. Brennisteinssýra er mjög slæm heilsu fólks og dýra.

Á Íslandi losna þúsundir tonna af brennisteinsvetni (H2S) á ári þegar jarðhiti er unninn úr jörðu og hluti brennisteinsvetnis oxast yfir í brennisteinsdioxíð.  Hér á Íslandi við lágan hita og litla sól virðist þetta hvarf frá H2S yfir í SO2 ganga mjög hægt, tekur viku jafnvel meira og þá er það komið langt út á Atlantshaf.  Íslenskur iðnaður, álver og fiskimjölsverksmiðjur losa þó nokkuð af brennisteinsdioxíði ásamt bíla- og skipaflota landsins.

Framhaldið
Brennisteinsdioxíð frá eldsumbrotum er af náttúrulegum toga og eru móðuharðindin í Skaftáreldum dæmi um afleiðingar af miklu magni.  Eldgosið í Holuhrauni er lítið í samanburði við stórgos fyrri tíma og mengunin frá gosinu einnig.  Ekki er þó hægt að segja til um hvert framhaldið verður en hæstu gildi hafa þegar farið upp í 4000 µg/m3.  Varað hefur verið við því að mengun gæti aukist og fólk skuli ekki láta slíkt koma sér á óvart.  Æskilegt er að fólk fylgist með framvindu og hvar mengunin leggst yfir hverju sinni.  Hægt er að fylgjast með á vef Verðurstofu Íslands hér sem og loftgæðum á vef Umhverfisstofnunar hér.  Ef fólk finnur fyrir einkennum er best að halda sig innandyra, loka gluggum og kynda vel því það varnar gasinu að komast inn í híbýli fólks.  Mikilvægt er að lofta svo út þegar mengunin er gengin yfir.  Hægt er að tilkynna einkenni á vef Veðusstofunnar. Eins og áður hefur komið fram hafa Almannavarnir og Umhverfisstofnun pantað 40 nýja mæla til notkunar fyrir viðbragðsaðila en einnig til þess að setja upp þétt net mælinga um land allt.  Munu mælingar standa yfir svo lengi sem gosið heldur áfram.

Undanfarna daga hefur verið varað við því að stórt sprengigos gæti brotist út í Bárðarbungu með miklum afleiðingum í formi flóða og öskufalls.  Öskufall berst með vindátt og áhrifa getur gætt hvar sem er á landinu sem og í nágrannalöndum.  Búist er við að stórflóð muni fara norður Jökulsá á Fjöllum og jafnvel muni brýr, raflínur og vegir gefa sig á þeim slóðum.  Vísindamenn geta ekki útilokað flóð til vesturs niður Þjórsá þar sem helstu virkjanir landsmanna eru né til suðurs niður Skeiðarársand.  Landsvirkjun hefur þegar undirbúið sig ef slíkt flóð fer yfir virkjanasvæðin.  Ef flóð rennur niður Þjórsá má búast við að rafmagn fari af.  Fólk er því hvatt til þess að huga að því að eiga á heimilum sínum útvarp með langbylgju (LW) og að það gangi fyrir batterí.  Langbylgjan er eina leið Almannavarna til þess að koma upplýsingum til almennings í slíkum aðstæðum.  Upplýsingar um langbylgju má nálgast hér.  Fólk er hvatt til þess að vera viðbúið en auðvitað vona allir að verstu aðstæður skapist ekki.

Veðrið var fallegt á höfuðborgarsvæðinu í gær en hér að neðan eru nokkrar myndir sem teknar af móðunni sem lá yfir um hádegisbilið í gær.  Loftgæðin fóru þó ekki yfir heilsuverndarmörk en margir kvörtuðu yfir einkennum.

photo 4 (1)

photo 4 (2)

photo 2

photo 2 (1)

photo 1 (3)

photo 2 (3)

photo 3 (3)

photo 3 (2)

photo 4 (3)

photo 4

photo 5

photo 5 (3)