Það sem hafa ber í huga við uppbyggingu ferðamannastaða

Eddi_klipptEdward H. Huibjens, prófessor við HA og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála / pistill  |  Ekki þarf að fjölyrða um vöxt ferðaþjónustu og fjölgun gesta hingað til lands á undanförnum misserum. Hinsvegar virðast fyrst nú raddir verða almennt háværar sem spyrja um áhrif þessa vaxtar á land og þjóð. Ljóst er að margir náttúrustaðir eru farnir að láta á sjá vegna álags og pirrings er farið að gæta hjá sumu fólki sem býr við mikinn gestafjölda sífellt lengri tíma ársins. Svarið við álagi á land og þjóð er uppbygging aðstöðu fyrir ferðafólk. Aðstaða sem gefur færi á að hafa móttöku með þeim hætti að ekki hljótist skaði af komu gestanna. Hvað varðar náttúrustaði snýst það um að byggja stíga, útsýnispalla, þjónustuaðstöðu, salerni og bílastæði til dæmis. Þegar kemur að heimafólki verður að tryggja að þjónusta fari ekki að miðast að ferðafólki eingöngu og að framboð sé nóg fyrir báða aðila og mæti þörfum beggja. Við fyrstu sýn virðist þetta einfalt en hér þarf að staldra við.

Uppbygging á náttúrustöðum breytir ásýnd og yfirbragði þeirra. Fólk kemur á einhvern náttúrustað með væntingar um tiltekna upplifun og ef þeim væntingum er ekki mætt verða vonbrigði. Væntingar snúast í tilfelli ferðaþjónustu um upplifun og reynslu. Jákvæð upplifun gesta er undirstaða ferðaþjónustu sem blómlegs atvinnuvegar. Það sem þarf því að hafa í huga er með hvaða hætti landið og náttúruperlur þess eru kynntar út á við. Ef byggt er upp á tilteknum stöðum til að mæta álagi þarf að tryggja að sú kynning staðarins kallist á við þá uppbyggingu og geri ráð fyrir henni. Á móti kemur að huga þarf vandlega að hönnun þessarar uppbyggingar. Næmni fyrir staðaranda og upplifunargildi staðarins verður að þýða inn í hönnunina til að uppbygging efli jafnvel og dýpki upplifun af staðnum.  Vanhugsuð eða hreinlega óhugsuð hönnun og uppbygging getur eyðilagt upplifun af staðnum, eða gert hann eftirsóknarverðan fyrir hópa sem bera litla sem enga virðinga fyrir staðnum og gildi hans. Í ljósi þess að „vara“ ferðaþjónustu er upplifun hlýtur skilningur á eðli vörunnar að vera það sem þarf að hafa í huga þegar byggt er upp í þágu ferðaþjónustu. Gæða- og hönnunarstaðlar hljóta að taka mið af því.

Uppbygging þjónustu fyrir ferðafólk í byggð lítur að einhverju leyti sömu lögmálum. Varðveisla staðaranda og þeirra byggðar og sögu sem heimafólk er stolt af eflir samfélagið og styrkir. Hinsvegar hlýtur fjöldi gesta að þurfa að einhverju marki að vera í takti við fjölda heimafólks. Annars er hætta á því að gestirnir búi í heimi sem er aðskilin  heimi gestgjafanna og að til verði sérstakt hagkerfi/samfélag ferðaþjónustu. Þá er hætta á að gestir verði „hinir“ og „þeir“ og þá er grunnur lagður að pirring og mögulega óvild. Þannig þarf að hafa í huga að uppbygging ferðamannastaða í byggð sé á forsendum og/eða með samþykki heimafólks og víðtækri sátt um hvert stefna skal þegar kemur að greininni.