Örráðstefna. Álag ferðamennsku á náttúru Íslands

P1040485Fimmtudaginn þann 30. október kl. 17.00-18.00 verður haldin örráðstefna undir heitinu „Álag ferðamennsku á náttúru Íslands“ í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. (við hlið Norræna hússins) – aðalsalur (stofa 132)

Ráðstefnan er öllum opin og ALLIR VELKOMNIR

Með vaxandi fjölda gesta til landsins hafa áhyggjur fólks af álagi á land og þjóð farið vaxandi. Sumarið 2014 var umræða um sýnilegt álag á helstu náttúruperlur landsins vegna fjölda gesta mikil. Myndir af skemmdum vegna utanvegaaksturs voru áberandi og fjölmiðlar ræddu um viðhorf gesta til og umgengni þeirra um landið. Á þessari fjórðu örráðstefnu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála verður farið yfir stöðu þekkingar á álagi á náttúru landsins af völdum ferðafólks og hvernig hægt er að bregðast við því.

Ráðstefnan er haldinn viku eftir dagslöngu þingi Landgræðslu ríkisins og Umhverfisstofnunar um áhrif ferðamanna á náttúru Íslands og mun áherslan vera á að draga saman lærdóm þess þings. Hún hefst á örfáum aðfararorðum um tilefni og tilurð þessarar örráðstefnu. Þar á eftir munu frummælendur stíga á stokk og í stuttum 5 mínútna glærulausum erindum lýsa þekkingu sinni á álagi vegna ferðamanna á náttúru Íslands. Að því loknu verður opnað fyrir umræður og spurningar og eru aðilar úr greininni sem og fjölmiðlafólk sérstaklega hvatt til að mæta í þágu hreinskiptinnar og opinnar umræðu.

Frummælendur á örráðstefnu eru:
Dr. Andrés Arnalds Landgræðsla ríkisins
Dr. Rannveig Ólafsdóttir Háskóli Íslands
Ingibjörg Eiríksdóttir Umhverfisstofnun
Friðrik Dagur Arnarson Kennari og landvörður
Guðmundur Ingi Guðbrandsson Framkvæmdastjóri Landverndar

Ef einhverjar spurningar vakna hafið samband við Edward H. Huijbens, Rannsóknamiðstöð ferðamála, edward@unak.is.