Drög að breytingum á lögum um landmælingar og grunnkortagerð til kynningar

islandskortUmhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur fram til kynningar drög að frumvarpi til breytinga á lögum um landmælingar og grunnkortagerð. Breytingarnar eru til komnar vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur við öflun, notkun og miðlun stafrænna landupplýsinga.

Í drögum að frumvarpinu er lagt til að Landmælingar Íslands komi upp, viðhaldi og miðli landupplýsingagrunni í þeirri nákvæmni sem þörf er á hverjum sinni og tækni leyfir. Samkvæmt lögum er hlutverk Landmælinga Íslands m.a. gerð, viðhald og miðlun á landupplýsingagrunni í mælikvarða 1:50.000. Landupplýsingagrunnur í þeim mælikvarða þjónar hins vegar ekki hagsmunum íslenskrar stjórnsýslu sem best enda þurfa stjórnvöld í mörgum tilvikum að vinna með mun nákvæmari gögn, s.s. við skipulagsgerð.

Lagt er til að Landmælingar Íslands komi upp upplýsingagrunnum sem innihaldi landupplýsingar sem stjórnvöld hafa undir höndum á hverjum tíma. Grunnarnir munu þá nýtast við verkefni ríki og sveitarfélaga og verða aðgengilegir stjórnvöldum, hagsmunaaðilum og almenningi. Þannig er aðgengi aukið að landupplýsingum sem stjórnvöld búa yfir.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að gjaldtökuheimild Landmælinga Íslands verði felld á brott. Gögn Landmælinga Íslands hafa verið gjaldfrjáls frá 23. janúar 2013 sem hefur leitt til stóraukinnar notkunar á þeim. Gögnin sem um er að ræða eru notuð við ýmis verkefni á vegum stofnana ríkisins og sveitarfélaga auk þess sem þau eru notuð af fyrirtækjum og einstaklingum í ýmsum tilgangi. Markmiðið með því að gera stafræn kort og landupplýsingar Landmælinga Íslands gjaldfrjáls er að almenningi og opinberum aðilum á Íslandi yrði tryggður greiður aðgangur að upplýsingum um  umhverfi og náttúru landsins. Einnig að hvetja til aukinnar notkunar, úrvinnslu og miðlunar þessara gagna t.d. á sviði ferðaþjónustu, opinberrar stjórnsýslu og í menntakerfinu.

Athugasemdir og ábendingar um frumvarpið skulu sendar á netfangið postur@uar.is eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, eigi síðar en 7. nóvember nk.

Fara í drög að frumhvarpi hér
Fara á vef ráðuneytis hér