Mengun frá Holuhrauni, mengunartoppar og brennisteinssýra í andrúmslofti

Gos í HoluhrauniHið íslenska náttúrufræðifélag hélt fræðsluerindi í Háskóla Íslands á mánudaginn s.l. um mengun vegna eldsumbrotanna í Holuhrauni.  Frummælandi var Þorsteinn Jóhannsson teymisstjóri loftmengunarteymis hjá Umhverfisstofnun.

Eldsumbrotin í Holuhrauni sem kallaðir eru oft Nornaeldar á meðal vísindamanna vegna nornaháranna sem frá þeim fjúka eftir sandinum hafa nú staðið síðan 29.ágúst.  Frá þeim kemur mikill mökkur og mikið magn koldíoxíð en ekki síst brennisteinsdíoxíð eða á bilinu 20.000 – 60.000 tonn á dag.  Í samhengi við þetta magn má nefna að álverið í Reyðarfirði losar um 16 tonn á dag og Hellisheiðarvirkjun um 33 tonn af brennisteinsvetni á dag sem jafngildir 63 tonnum af brennisteinsdíoxíði.  Heildarlosun ESB er til að mynda um 14.000 tonn á dag.  Telur Þorsteinn að mögulega sé þetta gasríkasta gos síðan 1783 en til dæmis er talið að Skaftáreldar sem voru 10 sinnum stærri hafi losað um 500.000 tonn á dag.  Oft sjást mjög háir mengunartoppar en fyrst komu þeir fram niður á fjörðum austanlands, en síðan tók útbreiðslan breytingum þannig að móða lá yfir öllu.

Dreifing mengunar er mismunandi eftir eðli gosa en gosið nú í Holuhrauni og forðum í Laka eru á gossprungu.  Eyjafjallajökulsgosið og gosið í Grímsvötunum voru sprengigos undir jökli með háum gosmekki og því barst gasmengun hátt upp en dreifðist lítið sem ekki neitt við yfirborð.  Jarðvísindamenn sem vinna við gosstöðvarnar fá mikið af gasmengun á sig og er gasgríma og mælir staðalbúnaður við störf þeirra.  Mælar eru víða um land og eru þeir reknir af nokkrum mismunandi aðilum. Þeir sem eiga og reka mæla eru t.d. Umhverfisstofnun, sveitarfélög, stóriðjufyrirtæki og orkufyrirtæki.  Hægt er að sjá mælingar á netinu t.d. á lofgæði.is.  Umhverfisstofnun keypti 27 handmæla sem eru tiltölulega ódýrir eða um 70.000 kr stykkið.  Stærri og nákvæmari mælar kosta rúmlega þrjár milljónir uppkomnir en stofnunin hefur glímt við fjárskort undanfarin ár.  Kom fram hjá Þorsteini að vegna þess að ekki er hægt að vera með þéttara net mæla. Þá er æskilegt að fólk meti mengun sjálft út frá almennri skynsemi þ.e. hvað það finnur og sér í umhverfi sínu.  Einnig þarf fólk að passa upp á dýrin en þau verða fyrir sömu mengun og mannfólkið.

Þorsteinn JohannssonUm helgina síðustu mældist hæsti toppur sem mælst hefur í byggð á Höfn og þar í kring um 21.000 µg/m3 sem er umfram þann skala sem gefinn er upp á töflu Umhverfistofunar um viðbrögð.  Þorsteinn upplýsti að taflan væri komin frá Hawai þar sem reynsla af slíkri mengun væri meiri en hér vegna goss sem staðið hefur þar í áratugi.  Hins vegar bjóst enginn við svo háum toppum í byggð.  Mengun mælist víða í Evrópu vegna gossins í Holuhrauni og hafa komið toppar sem er um 250µg/m3 í Noregi og Austurríki.

Ekki er talið gott að flytja fólk af svæðum þar sem mengun er mikil þar sem um tímabundið ástand og breytilegt er að ræða.  Þorsteinn sagði að hús vernduðu fólk allt að 90% en síðan hefði stofnunin bent á að gott er að bleyta klút í matarsóda og vatni og stilla upp við ofn eða viftu en slíkt hreinsar ágætlega loftið innandyra.  Einnig var íbúum á Höfn bent á að skrúfa frá kalda vatninu í sturtunni en slíkt er þó ekki algott því ef stór hluti íbúa lætur renna stöðugt úr sturtunni er hætta á vatnsskorti sem getur skapað vandamál ef kemur brunaútkall hjá slökkviliði á sama tíma.

Íslensk mengunarmörk þ.e. viðvörunarmörk á loftmengun miðast við 500 µg/m3 samfellt í 3 tíma.  Hægt er að fylgjast með gasdreifingu á vef Veðurstofunnar bæði gasspá hér og gasdreifingu hér.

Hæsti toppur fyrir gosið í Holuhrauni var um 200 µg/m3 við Grundartanga.  Í flugvél við mökkinn mældist gasmengunin 90.000 µg/m3 og vísindamaður á svæðinu mældi með mæli sínum 130.000 µg/m3.  Kom fram hjá Þorsteini að búast má við hærri mengunartoppum yfir veturinn í byggð en verið hefur ef gosið heldur áfram. Fram kom hjá Þorsteini að ef gosið heldur áfram með sama krafti fram á vetur megi búast við enn hærri mengunartoppum vegna breyttra veðuraðstæðna eins og t.d. í  froststillum. Einnig er hugsanlegt að grófuurskemmdir geti komið fram ef gosið dregst fram á sumar.  Astmaveikir og fólk með hjartasjúkdóma er viðkvæmara fyrir þessari mengun og þetta fólk þarf gæta þess að hafa sín hefðbundnu lyf tiltæk. Samkvæmt könnun sem gerð var af Dr. Hrund Andradóttur virðist sem konur og fólk á bilinu 50-59 ára finni mest fyrir menguninni en þær niðurstöður eru nokkuð samkvæmt bókinni þar sem vitað var að eldra fólk mundi finna frekar fyrir menguninni.  Komið hefur áður fram í könnun sem Stöð 2 gerði að um 30% aukning varð í sölu astmalyfja á austurlandi í ágúst.

Í umræðum eftir erindi Þorsteins var spurt nokkuð um brennisteinssýru en hún er mönnum og dýrum óæskileg.  Var upplýst að í fyrsta mengunartoppinum sem varð í Reykjavík þann 20.september gæti allt að 50% brennisteinsdíoxíðsins hafa breyst í brennisteinssýru. Það háa hlutfall stafar af þeirri löngu leið sem mökkurinn hafði farið en sá loftmassi sem var yfir höfuðborgarsvæðinu þann dag hafði fyrst borist til vestur undir Grænland en tekið þar U beygju og barst inn á landið úr vestri.  Hafði fólk eðlilega áhyggjur af þessu og spurt var hvort ekki væri hægt að mæla slíkt.  Upplýsti þá Þorsteinn að stofnunin væri ekki í stakk búin fjárhagslega til þess að kaupa slíka mæla en stofnunin þurfti að segja upp 6 starfsmönnum á síðasta ári.  Nettengdir mælar sem mæla brennisteinssýru í andrúmslofti kosta um 10 milljónir hver.

Fara á heimasíðu Hins íslenska náttúrufræðifélags hér