Drög að frumvarpi til laga um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum

SinaUmhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur lagt fram til kynningar drög að frumvarpi til laga um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.  Frumvarpið fjallar um sinubrennur og bálkesti og um meðferð elds utan dyra, þ.á m.  ýmsar varúðarráðstafanir vegna hættu á gróðureldum. Stuðst er við gildandi löggjöf en lagt til að heimild til sinubrennu verði þrengd og að ákvæði um sinubrennur og meðferð elds utan dyra verði strangari og markvissari.  Í frumvarpinu er m.a. fjallað um skyldu hvers og eins til að gæta ýtrustu varkárni í meðferð elds.  Sérstaklega er fjallað um sinubrennu og tiltekið að hún sé eingöngu heimil á lögbýlum þar sem stundaður er landbúnaður og einungis í rökstuddum tilgangi í jarðrækt eða búfjárrækt. Þá eru þar ákvæði um leyfisveitingar og skilyrði.

Heimild sveitarstjórnar til að afmarka svæði í brunarvarnaáætlun er nýmæli í frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að óheimilt verði að brenna sinu á þeim svæðum vegna þeirrar hættu sem af því getur stafað fyrir umhverfið, nálæg mannvirki eða starfsemi á svæðinu.  Í frumvarpinu eru ákvæði um leyfisveitingu vegna sinubruna, framkvæmd sinubrenna og meðferð elds á víðavangi.

Athugasemdir og ábendingar um frumvarpið skulu sendar á netfangið postur@uar.is eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, eigi síðar en 10. nóvember nk.

Fara á vef ráðuneytis hér
Fara í drög að frumvarpi hér