Drög að tillögu að matsáætlun fyrir Sprengisandslínu, opið fyrir athugasemdir frá 20.okt – 20.nóv 2014

SprengisandurDrög að tillögu að matsáætlun var birt nú í lok.október fyrir Sprengisandslínu 220 kV.  Landsnet vinnur að undirbúningi að umhverfismati fyrir háspennulínu frá Þjórsár/Tungnaársvæðinu, um Sprengisand norður í Bárðardal.  Í matsáætlun er gert ráð fyrir hvernig staðið verður að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, hverjir séu áhrifaþættir og hvaða umhverfisþættir kunni að verða fyrir áhrifum.  Gert er ráð fyrir að fjórir valkostir verði bornir saman við núllkost þar sem einn valkosturinn verður með hluta leiðar í jarðstreng.  Skoðuð verða áhrif valkosta á landslag, náttúrufar, minjar og samfélag.  Samhliða mun Vegagerðin skoða kosti fyrir endurgerð Sprengisandsleiðar og mun umhverfismatið taka tillit til þess að því leyti sem gert verður ráð fyrir að væntanleg háspennulína verði sem minnst sýnileg frá Sprengisandsvegi.

Í drögum að matsáætluninni segir að tilgangurinn sé að bæta raforkukerfi landsins, tryggja stöðugleika þess og auka öryggi raforkuafhendingar og gæði raforku.  Í kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2014-2023 eru settir fram þrír valkostir varðandi tengingu frá Suðurlandi til Norðausturlands.  Í tveimur valkostum af þremur er Sprengisandslína mikilvægur hlekkur.  Tenging frá raforkuvinnslukjarnanum á Suðurlandi við norðurhluta landsins er talin áhrifaríkasta styrking raforkukerfisins í samanburði við aðrar lausnir.   Framkvæmdin felur í sér byggingu nýrrar 220 kV háspennulínu frá fyrirhuguðu tengivirki við Langöldu á Landmannaafrétti að fyrirhuguðu tengivirki við Eyjardalsá vestan Bárðardals.  Háspennulínur á þessu spennustigi eru matsskyldar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, 22.tl. 1.viðauka.

Í frummatsskýrslu verður lagt mat á áhrif framkvæmdar á eftirfarandi þætti: Gróður, fuglalíf, jarðmyndanir, fornleyfar, svæði á náttúrumynjaskrá og náttúruverndaráætlun, víðerni, neysluvatn og vatnsvernd.  Þá verða einnig metin áhrif á landslag og ásýnd, félagslega og hagræna þætti þ.m.t. samfélag, ferðamennsku, náttúruvá og öryggismál.

Drög að tillögu um matsáætlun eru nú birt til kynningar um þriggja vikna skeið frá 30.október til 20.nóvember 2014 hér á vef Landsnets.  Á þessu tímabili gefst umsagnaraðilum og almenningi tækifæri til að koma með athugasemdir við tillöguna.  Að kynningartíma loknum verða drögin, ásamt athugasemdnum send Skipulagsstofnun til umfjöllunar.  Senda skal athugasemdir til Gísla Gíslasonar hjá Steinsholti sf, Suðurlandsvegi 1-3, 850 Hellu eða á netfangið gisli@steinsholtsf.is  Merkja skal athugasemdir:  „Sprengisandslína, mat á umhverfisáhrifum“.

Fara í drög hér
Fara á heimasíðu Landsnets hér
Fara á vef Steinholt sf hér