Punktar frá Ara Trausta vegna eldgossins og fleira.

Ari Trausti storAri Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur / pistill | Nýja hraunið norðan Dyngjujökuls er orðið það stærsta sem sést hefur hér á landi, miðað við myndunartíma, síðan í Skaftáreldum. Gígurinn stóri, sem gæti orðið að hraunkatli í dyngjueldfjalli ef gosið verður langt, gefur frá sér um 35 þúsund tonn af  brennisteinsgasi á sólahring. Eldfjallið skelfur og hlutar þess virðast ýmist síga eða rísa og stór ísdæld hefur myndast yfir öskjunni ásamt minni ískötlum. Um miðjan þennan mánuð hafa umbrotin staðið í þrjá mánuði og við jarðvísindamenn ekki allir sammála um hver atburðarásin er og hverjar eru skýringarnar á einu og öðru sem fólk hefur fylgst með í miðlunum.

Atburðirnir eru einstæðir, um það eru allir jarvísindamenn sammála. Þeir eru til dæmis frábrugðnir Kröflueldum vegna þess að þar reis og hneig eldfjallið lítillega í takt við yfir 20 mælanleg kvikuhlaup í sprungum, frekar stutt út frá því, og þar af leiddu innskotin í jarðskorpuna níu sinnum til stuttra eldgosa.  Núna sjáum við miklu tröllslegri kvikufyllta meginsprungu til hliðar við megineldstöðina.   Líka mælast margir stórir skjálftar og miklar tilfærslur jarðskorpunnar bæði í Bárðarbungu sjálfri og eldstöðvakerfinu, meira að segja í nágrannakerfunum.

Annað merkilegt er að þetta er í fyrsta sinn sem jarðvísindamenn geta fylgst með umbrotum í stærsta og einu öflugasta eldstöðaverfi landsins.   Síðast voru þar eldgos á 18. og 19. öld, en af öllu að dæma ekki í Bárðarbungu sjálfri. Nú hafa nýjar rannsóknir leitt fram að það hefur gosið um 350 sinnum í kerfinu á umliðnum 7600 árum, þar af mörgum sinnum í stóra eldfjallinu en líka í Dyngjujökli og utan jökuls.   Askjan er stór, um 70 ferkílómetrar, og mjög djúp, með bognum jaðarsprungum, kallaðar hringsprungur, upp við nokkuð þverhnípta barma, þar sem jarðskorpan hefur látið undan í mörg þúsund ár.

Ein helsta skýring á atburðarásinni sem hefur verið sett fram, til dæmis af vísindaráði Almannavarna, er svona í allra stystu máli: Kvika streymdi að neðan inn í kvikuhólf undir Bárðarbungueldfjallinu.   Hólfið spannar óvenju mikið dýpi, frá 5 til 10 km undir yfirborði, ef ekki enn dýpra. Á fyrstu dögum umbrotanna braust kvika til suðausturs í nýrri sprungu og náði þar inn í sprungurein sem annað hvort tilheyrir Bárðarbungukerfinu eða Öskjukerfinu.   Þar breytti kvikan, og þar með sprungumyndunin, skyndilega um stefnu til austnorðausturs.   Stór gangur, kvikufyllt sprunga, tók að myndast á að minnsta kosti 5-10 km dýpi. Hann sniglaðist áfram, í allt yfir 45 km leið, en beygði eftir dálítið hik til norðausturs á miðri leiðinni.   Hann braust á þremur stöðum til yfirborðs með tilheyrandi eldgosum og stendur það þriðja enn.   Kvikan sem þar kemur upp, streymir úr kvikuhólfinu eftir ganginum.   Efni kemur inn í hann næst eldfjallinu og gengur út úr honum í gossprungunni.   Einhvern tíma snemma í umbrotunum byrjaði botn öskjunnar að síga, ýmist allur eða hluti hans.   Hann sígur nokkurn veginn í takt við flæði kviku um ganginn og upp í Holuhauni.   Hætti þetta sig í Bárðarbungu eða hætti gangurinn að taka við kviku úr hólfinu, hljóðnar gosið og skjálftar í Bárðarbungu hjaðna.   Sigið bendir til þess að ekki komi lengur kvika inn í hólfið að neðan.   En ekkert útilokar þó að jarðeldur geti komið uppi í eldfjallinu meðan á öllu þessu stendur, samkvæmt sviðsmyndum sem lagðar eru fram.   Það er stóri óvissuþátturinn í bili og veldur eðlilega áhyggjum.

Ég hef ekki hugmynd um hve margir sérfræðingar taka undir þessa skýringu í heild en þeir eru eflaust allmargir.   Sjálfur er ég á annarri skoðun.   Þar er ég alls ekki einn heldur hafa vísindamenn eins og Ágúst Guðmundsson og Þorvaldur Þórðarson lagt fram aðrar vinnukenningar eða líkan.   Ágúst og samstarfsfólk hans setja fram rökstuddar skoðanir og líka grein í eldfjallatímaritinu Bulletin of Volcanology.   Hér heima hafa heyrst fleiri svipaðar raddir eða að minnsta kosti efasemdir um að fyrrnefnda líkanið sé rétt.   Og svo hafa komið fram mæligögn sem samræmast því illa og útheimta mun flóknari skýringar á atburðarásinni. Það er ekki rúm til að rekja þau hér en kannski mikilvægt að minna á að í jarðvísindum, ekki hvað síst í eldfjallafræði sem fjallar um margt undir yfirborði jarðar, er eðlilegt að vísindamenn séu ekki alltaf sammála.   Hlutlægar umræður, úrvinnsla mæligagna og samtúlkun á þeim eru auðvitað á dagskrá.   Það er forvitnilegt fyrir leikmenn og líka vísindamenn utan fagsins að fylgjast með hvernig menn ná loks að sem réttastri mynd af því sem er að gerast, eins þótt það taki tíma og alls konar umræður, jafnvel deilur í bróðerni.

Sú mynd sem ég tel vera réttari en hin, og nú ætla ég ekki að tala fyrir munn margra, bara sjálfs mín, er svona í sem stystu máli:

Eftir innstreymi kviku inn í eldstöðvakerfi Bárðarbungu í mörg ár, varð samspil kvikuþrýstingss og plötugliðnunar, það er að segja reks vegna eðlilegra hreyfinga platnanna á þessum stað, til þess að umbrotin hófust.   Kvika safnast nær stöðugt fyrir í kvikuþró undir stórum hluta kerfisins.  Það gerist á 15-25 km dýpi í þessari þró.   Það var bara lítill hluti hennar sem lagði af stað upp á við í jarðskorpunni  í kringum 16. ágúst.   Kvikan boraði sig brátt inn í kvikuhólf Bárðarbungu, sem er sennilega á nokkurra kílómetra dýpi, og líka smávegis inn í norðanvert eldfjallið.   Meira að segja skaust gangur í átt að Kistufelli.   Annar gangur braust til suðausturs og þar kom upp eldgos undir jökli, gosið sem menn fundu ekki strax.

Hann er ekki upphafið að stóra ganginum.

Um svipað leyti og þetta gerist reis kvika úr sömu kvikuþró, sem sagt ekki úr kvikuhólfinu, inn í skorpuna til hliðar við eldfjallið og olli bæði hraðri gliðnun á stóru svæði og aflögun eldfjallsins.   Gangurinn lagði af stað í langferð, ef svo má að orði komast.  Hann færðist sennilega úr sprungrein þétt upp við Bárðarbungu yfir í sprungukerfi Öskju og endaði ekki langt frá henni.   Þessi djúplæga kvika, sem efnafræðin sýnir að er komin þarna að neðan, er afar rík af brennisteini miðað við þróaðri kviku sem kemur oftast úr kvikuhólfi.   Gangurinn er leiðsla ofan í kvikuþróna og getur verið virkur sem gosgangur mjög lengi, jafnvel svo að það komi kvika úr honum víðar en nú.

Þetta líkan af tilvist aflangra kvikuþróa undir flestum eldstöðvakerfum og virkni úr frá þeim þróaðist eftir Kröfluelda en er ekki talið endilega réttmætt af öllum jarðvísindamönnum.   Ég hef aðhyllst það, þar til annað kemur í ljós, og útskýrt í mínum bókum, til dæmis tel ég þetta eiga við Skaftárelda og stóru gosin í Eldgjá og raunar ýmsar aðrar langar gossprungur utan megineldstöðva.

Hvað þá með eldfjallið sjálft og stóru ísdældina? Fyrir mér er alveg ljóst að efnið í ganginum og það sem er komið upp í Holuhrauni er miklu meira en sem svarar rúmmáli áætlað sigs í öskjunni.   Svo vil ég fara varlega að spegla dæld í eftirgefanlegum ís yfir í eitthvað sem gerist undir 7-800 metrum af honum. Sennilega er kvika áfram að ganga upp og inn í kvikuhólf Bárðarbungu og áfram úr því inn í hringsprungur öskjunnar.   Það gæti skýrt ýmislegt.   Fremur lítið skelfur í öskjubotninum og aðalskjálftasvæði eru tvö greinilegust, í norðri, meira að segja úti í norðurhlíðunum, og svo í suðaustri í öskjunni.   Stundum virðast koma fram skammvinn ris, meira að segja í ísdældinni, en auðvitað er sig meira áberandi.   Eldfjallið gliðnar þegar efni berst hátt upp í rætur þess.   Það gengur raunar í bylgjum og þá kemur spennusvið stóra gangsins líka inn í myndina. Lögun stóru ísdældarinnar er þannig að langmest sígur næst norðurskjálftasvæðinu.   Svo eru að koma fram ískatlar sem benda til vaxandi jarðhita og þá einmitt af því að kvika þrengir sér grunnt upp á við.   Þar með má telja auknar líkur á eldgosi, einu eða fleiri, í öskjunni eða, en kannski síður, úti í hlíðum fjallsins, þá jafnvel norðan megin.

Nú er að sjá hvað gerist á næstu vikum og mánuðum.   Við erum rétt að byrja þessa vegferð með jarðeldinum í Bárðarbungukerfinu.   Og ég skal vera einn af þeim fyrstu til að viðurkenna að hafa alveg eða að einhverju leyti rangt fyrir mér, þegar myndin skýrist.   Það er alla vega mikilvægt að vera ekki viss um að þessi eða hin líkanmyndin af heildinni sé áreiðanlega sú rétta og annað komi vart, eða bara alls ekki, til greina.   Og það er spennandi fyrir alla, líka leikmenn, að sjá hvernig raunvísindin vinna.