Ríkisstjórnin breytir lögum um almannavarnir vegna mögulegra náttúruhamfara

Gos í HoluhrauniÍ gærmorgun samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum lagafrumvarp um breytingar á almannavarnalögum í því skyni að mæla skýrar fyrir um skyldur ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja sem sjá um rekstur mikilvægra samfélagslegra innviða, svo sem á sviði fjarskipta og raforku ef til neyðarástands kemur. Frumvarpið verður nú sent þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna til afgreiðslu.

Komið hefur fram hjá vísindamönnum almannavarna að fyrstu niðurstöður frá nýjum jarðskjálftamæli sem settur var upp á Bárðarbungu þann 11. nóvember s.l. sýnir að sigskjálftarnir í Bárðarbungu verða í efstu þremur kílómetrum jarðskorpunnar. Þetta bendir til þess að grynnra sé niður á kviku en áður var talið.

Í frumvarpinu er sérstaklega kveðið á um valdheimildir stjórnvalda sem verða virkar þegar neyðarstigi almannavarna hefur verið lýst yfir.  Lagaheimildir verða með frumvarpinu skýrari en í því er fjallað sérstaklega um takmarkanir á bótaskyldu ríkisins og samhliða eru einnig lagðar til breytingar á lögum um Viðlagatryggingu Íslands til þess að tryggja rétt aðila til bóta vegna hugsanlegas tjóns þrátt fyrir inngrip með neyðarráðstöfunum.

Í breytingunum flest að til þess að bregðast við ef neyðarástand skapast getur ráðherra tryggt mikilvæga samfélagslega starfsemi, almannaheill og lágmarkað samfélagslegan skaða, svo sem á sviði orkumála, veitumála, fjarskiptamála, samgöngumála, fjármálaþjónustu, heilbrigðismála og umhverfismála. Neyðarráðstafanir ráðherra, skv. 1. mgr., geta m.a. falist í því að gefa stofnunum, fyrirtækjum og eigendum mannvirkja fyrirmæli um framkvæmd ráðstafana svo sem að reisa varnargarða, rjúfa stíflur og vegi eða aðrar verklegar framkvæmdir, um að skammta, rjúfa eða forgangsraða afhendingu rafmagns, takmarka fjarskipti sem truflað geta neyðar- og öryggisfjarskipti o.s.frv. Einnig getur hann gefið fyrirtækjum, stofnunum og eigendum mannvirkja fyrirmæli um ráðstafanir til þess að tryggja órofinn rekstur þeirra, tiltekinna kerfa eða hluta þeirra. Séu aðstæður knýjandi og stjórnendur hlíta ekki fyrirmælum skv. 2. mgr. geta neyðarráðstafanir ráðherra falist í því að taka tímabundið, eða eins lengi og nauðsyn krefur, yfir stjórn fyrirtækis eða stofnunar í þeim tilgangi að hrinda neyðarráðstöfunum í framkvæmd.  Lesa má drögin að frumvarpinu hér

Ríkisstjórnin hefur fylgst grannt með stöðu og þróun mála frá upphafi jarðhræringanna í Bárðarbungu og eldgossins í Holuhrauni sem nú hafa staðið yfir í á þriðja mánuð. Á fundi sínum þann 7. október sl. samþykkti ríkisstjórnin tillögu forsætisráðherra og dómsmálaráðherra, að óska eftir endurskoðun á  gildandi lögum með það að markmiði að styrkja löggjöf á sviði almannavarna og  fjarskipta og orkumála. Í samræmi við það hafa forsætisráðuneytið, innanríkisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið með þátttöku embættis ríkislögreglustjóra og ríkislögmanns unnið að gerð frumvarps sem felur í sér endurskoðun á lögum um almannavarnir nr. 82/2008, lögum um fjarskipti nr. 81/2003, raforkulögum nr. 65/2003 og lögum um Viðlagatryggingu Íslands nr. 55/1992.  Við smíði frumvarpsins var m.a. byggt á fyrirliggjandi mati samráðshóps almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Viðlagatryggingar um mögulegar afleiðingar eldsumbrota í Holuhrauni og jarðhræringa í Bárðarbungu.

Valdheimildir styrktar

Markmið  frumvarpsins er að treysta lagaumgjörð almannavarna annars vegar með því að mæla skýrar fyrir um skyldur ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja sem sjá um rekstur mikilvægra samfélagslegra innviða, s.s. á sviði fjarskipta og raforku, til að grípa til fyrirbyggjandi öryggisráðstafana og útbúa viðbragðsáætlanir og hins vegar að styrkja valdheimildir æðstu stjórnar almannavarna gagnvart þessum aðilum ef sérstakar neyðaraðstæður skapast. Mikilvægir samfélagslegir innviðir teljast samkvæmt frumvarpinu mannvirki eða kerfi eða hlutar þess sem er þannig háttað að eyðing þeirra, skemmdir eða skert starfsemi myndi stefna í hættu nauðsynlegri samfélagslegri starfsemi, heilbrigði, öryggi, umhverfi, efnahagslegri eða félagslegri velferð borgaranna.

Jafnframt er sérstaklega kveðið á um valdheimildir stjórnvalda hafi verið lýst yfir neyðarstigi almannavarna. Lagt er til að ráðherra sem fer með málefni almannavarna geti, með samþykki ríkisstjórnar og að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra, gripið til tilgreindra neyðarráðstafana til að tryggja mikilvæga samfélagslega starfsemi, almannaheill og lágmarka hugsanlegan samfélagslegan skaða. Mikilvægt er að lagalegar heimildir stjórnvalda séu skýrar og óumdeildar ef á reynir. Rétt er þó að árétta að samkvæmt frumvarpinu verða sérstakar valdheimildir stjórnvalda ekki virkar nema lýst hafi verið yfir neyðarstigi almannavarna. Þar sem um veigamiklar ákvarðanir getur verið að ræða sem geta varðað málefnasvið margra ráðherra og ráðuneyta tryggir áskilnaður um samþykki ríkisstjórnar víðtækt faglegt samráð ráðherra og ráðuneyta sem og stofnana sem undir þau heyra. Í frumvarpinu er einnig fjallað sérstaklega um takmarkanir á bótaskyldu ríkisins, stofnana þess og starfsmanna vegna slíkra ráðstafana samhliða því að lagðar eru til breytingar á lögum um Viðlagatryggingu Íslands í því skyni að tryggja rétt aðila til bóta úr viðlagatryggingu vegna hugsanlegs tjóns þrátt fyrir inngrip stjórnvalda með neyðarráðstöfunum.

RÚV fjallaði þann 8.nóvember s.l. um viðbrögð við stórflóði niður Þjórsá og Tungnaá sem má sjá hér

Fara á vef ráðuneytis hér
Fara í drög að frumvarpi hér