Læra má af sögunni

Ari Trausti storAri Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur / pistill |

Afdrifarík saga
Mér var kennt að búa penna úr álftafjöður og nota hann en nú skrifa ég á tölvu. Þannig er Íslandssagan í hnotskurn. Af henni má draga margan lærdóm, bæði um sögu manns og náttúru.

Meðan þjóðin var lítil og lítt tæknivædd gengu náttúrunytjar sinn vanagang. Maðurinn flutti dýrategundir og plöntur til landsins og raskaði jafnvægi í náttúrunni. Við þetta urðu verulegar breytingar á umhverfinu en þær þóttu sjálfsagðar eða óhjákvæmilegar. Unga þjóðfélagið lenti fljótlega í veðurfarshremmingum.   Svonefnd litla ísöld varð mönnum sérlega þung í skauti, frá 1500 til 1900.  Meðalhiti lækkaði verulega, jöklar stækkuðu og hafískomur urðu erfiðar.

Á 20. öld jukust náttúrunytjar margfalt á við nytjar alla Íslandsöguna fram að því. Erlendir og innlendir togarar plægðu mið upp í landsteina, gríðarlega víðtæk þurrkun mýra gekk yfir og landi var raskað t.d. vegna efnistöku, orkuöflunar og mannvirkja. Nytjar á hálendinu hófust, einkum með vegagerð og orkuvirkjunum. Stofnar húsdýra stækkuðu, beit jókst og veiðiálag á villta dýrastofna sömuleiðis.  Úrgangur margfaldaðist og honum þurfti að farga.  Þrátt fyrir allt varð lítil umræða um þessar nytjar og afleiðingar þeirra fyrr en upp úr 1970.

Náttúran breytist
Áhrif mannsins á náttúruna eru jafnan metin á móti þeim breytingum sem eru innbyggðar í hana. Veðurfar breytist, líf í sjó og á landi er hverfult og landslag þróast. Margar breytinganna eru tengdar og jafnvægi hvers þáttar valt og oft fínlegt. Stórskornustu breytingar undanfarnar fáeinar ármilljónir felast í jökul- og hlýskeiðum ísaldar sem hófst fyrir um 3 milljón árum á Íslandi. Við hámark jöklunar á hverju jökulskeiði voru allt að 90% landsins falin undir ís.  Hlýskeiðin eru miklu styttri en jökulskeið og meðan á þeim stendur sveiflast ársmeðalhiti með ólíkum hætti.  Við lifum á svona hlýskeiði, óvenju jafnhlýju.  Ekki er vitað hvenær því lýkur en líklegt má telja að svo fari og nýtt jökulskeið gangi yfir.  Má ímynda sér hvaða ævintýralegu breytingar það hefði í för með sér.  Ísland yrði ónýtanlegt sem búsvæði og mannkynið yrði að þjappa sér á miðbik jarðar.  Langt og hlýtt tímabil á næstunni mun aftur á móti ýta fólki til norðurs og suðurs og þrengja að mörgum þjóðum. Tæknin hvorki bjargar iðnþjóðum né minna þróaðri ríkjum frá dýrum vandræðum og nærtækum breytingum.

Nýlegar umhverfisbreytingar
Eftir því sem fleiri jökul- og hlýskeið gengu yfir, hurfu barrtré en birki og elri (ölur) urðu að einu útbreiddu trjátegundunum meðan lyng, víðir og grastegundir áttu ávallt endurkomu.  Loks hvarf elrið líka.  Dýr á ísöld, einkum fuglar og spendýr til sjávar og lands náðu ávallt að komast af í ákveðnu jafnvægi, auðvitað með fækkun og fjölgun tegunda eftir tímaskeiðum.

Á jökulskeiðum var gróðurlendi lítið og dýralíf hánorrænt en hvert hlýskeið færði landið í horf sem líkist okkar dögum.  Refir útrýmdu ekki vað- eða mófuglum né átu selir eða hvalir helstu fiskistofna út á gaddinn.  Stærstu eldgos, megnuðu ekki að hamla gróðurfari eða dýralífi nema svæðisbundið og til tiltölulega skamms tíma.

Eftir lok síðasta jökulskeiðs tóku brátt við hlýindi sem líklega eru þau mestu á okkar hlýskeiði, að svo komnu máli.  Þykk lurkalög í mýrum sýna að stór hluti láglendis klæddist birki, víði, lyngi ofl.  Stór hluti birkisvæðanna hvarf svo undir stækkandi mýrar fáeinum árþúsundum síðar en aftur hlýnaði og þá breiddist birki út að nýju en í minna mæli en áður.  Eftir þetta hefur aðallega hallað undan fæti, þrátt fyrir hlýindaskeið, t.d. skömmu eftir landnám, aftur 1920-1965 og nú síðustu tvo áratugi.

Náttúrunytjar fram á 20. öld
Nær öruggt má telja að fólk hér á landi, milli 50 og 80 þúsund manns, stundaði lengst af ekki rányrkju á fuglastofnum, spendýrum í sjó eða fiskistofnun.  Geirfugl er þar eina undantekningin.  Fólk flutti fjölda dýra til landsins og til urðu stórar hjarðir húsdýra.  Enn fremur var korn- og línrækt hafin.  Rottur og mýs fylgdu manninum, en ekki aðrir nýbúar.  Nokkrar fuglategundir settust að eða hurfu og svo hafa fisktegundir sýnt af sér sömu hegðun.  Hreindýr komu til sögu seint á 18. öld, en minkar á þeirri 20.

Af öllu að dæma fólust afdrifaríkustu náttúrunytjar landsmanna í húsdýrabeit, oft mikilli og mjög staðbundinni, og í skógarnytjum.  Líklega voru 25-30% lands vaxin kjarri eða hávaxnara birki.  Viðarnytjar reyndust margvíslegar, auk þess sem skógar voru ruddir eða brenndir til að ná ræktar- og heimalandi í það horf sem þótti æskilegt. Þessu til viðbótar var skepnum beitt í kjarrlendi, ekki síður en mólendi.  Vísbendingar eru um að mjög víða hafi kjarr- og skóglendi verið nær uppurið á fáeinum öldum. Beitiland gerðist æ lélegra á mörgum stöðum uns það tók að eyðast með öllu. Viðarnytjar héldust fram eftir öldum en smám saman hurfu þær að mestu.  Hluti skýringar á hnignun skóga er ekki fólginn í ofnýtingu heldur mörgu því ill- eða óviðráðanlega sem fylgir snöggu skógrofi, þ.e. hröðu jarðvegsrofi, auknu áfoki og skjólleysi.  Annar hluti felst í versnandi gróðurskilyrðum vegna kólnunar.  Forverar okkar hófu andóf og uppgræðslu upp úr aldamótunum 1900.  Seinna kom til framræsla mýra og verður að telja hana stórfellda breytingu á gróðurlendi rétt eins og rányrkjuna á skóginum.

Skógur og land
Erfitt er að skynja fyrri umhverfisbreytingar þegar horft er yfir ágætlega gróið en skóglaust mó-, mýra- og graslendi eða yfir býsna sjálfsagðar auðnir.  Okkur þykir hvor tveggja landgerðanna eðlileg af því við þekkjum landið þannig.  En landgerðirnar eru það í reynd ekki og enn óeðlilegra er að finna tré á aðeins um 2,5% landsins, að meðtöldum erlendum tegundum.  Allt skóglendið er 50×50 km flötur dreifður á marga tugi meginstaða!  Það er óeðlilegt ástand gróðurlendis, í veðurfari okkar.

Auðvitað er það svo, líti maður til Þórsmerkur, að svipað gróðurfar og þar er gæti verið í endilangri Fljótshlíð.  Stór “Vaglaskógur” gæti vaxið innarlega í Eyjafirði og kjarrlendið við Hvítárvatn ætti líka að þrífast í suðurhlíðum Bláfells ofan Hvítár. Gróna eyjan í Þjórsá, skammt frá Árnesi, er sýnishorn af fyrra gróðurfari í héraðinu. Firðirnir norðanvert í Breiðafirði eru ekki tilviljanakennd sýnishorn af kjarr- og skóglendi.

Nú er varla gerlegt eða æskilegt að sækjast eftir því að færa með handafli gróðurfar til fyrra horfs.  Hitt má vera ljóst að auðnir, illa farið land, kjarr- eða skóglaust land og þurrkaðar mýrar eru ekki óhjákvæmilegar staðreyndir heldur tilefni til landbóta.  Með margvíslegum aðgerðum er unnt að bæta verulega úr og auka náttúrunytjar, stækka frístundalönd, binda meira koldíoxíð til þess að ná markmiðum loftslagsbóta og auka fjölbreytni landslags.  Einfaldasta aðgerðin er beitarfriðun og beitarstýring, líka í skóglendi, enda sést vel, t.d. í landnámi Ingólfs Arnarsonar, hve auðveldlega sjálfsáið birki hefur breiðst út á 1-2 áratugum.  Gróðursetning og sáning kemur til viðbótar

Deilt er um innfluttar trjátegundir sem vaxa á Íslandi.  Tilviljunum væri háð hvort barrtré nái hér fóstfestu, ef slíkar plöntur væru ekki fluttar inn.  Stutt er síðan elri óx á Íslandi og skilyrði fyrir sum barrtré eru ágæt, en þau uxu hér fram eftir ísöldinni. Fuglar eða rekaviður geta borðið trjátegundir til landsins.  Kæmi dvergfura eða elri hingað með þeim hætti yrði ekki gengið að trjánum til útrýmingar.

Langsótt er að halda því fram að barrtré “eigi ekki heima á Íslandi”.  Við höfum flutt lífverur til landsins.  Aðrar lifa við “íslensk skilyrði” í nágrannalöndunum og gætu borist hingað.  Líta ber á innflutning nýrra trjátegunda sem hvern annan landbúnað, byggðan á erlendum lífverum.  Vinnureglur um hvar heppilegt er að hafa erlend tré, í görðum, sumarbústaðalöndum eða til útivistar, eða nytja, verða að vera til.  Ólíklegt að aspar- eða barrskógur þeki 5-10% lands nema stórfelldar loftslagsbreytingar komi til.

Ekki þarf að óttast að útsýni á Íslandi eða yfirbragð landsins verði “gjörbreytt, ljótt, yfirþyrmandi, útlenskt og skuggalegt”, svo vitnað sé í lýsingarorð sem heyrst hafa. Heilu héruðin eru og verða að mestu trjálaus. Kollsteypa í veðurfari getur gert Ísland að eins konar Skotlandi í fjarlægri framtíð.  Fari svo, verða menn að sættast við það.

Skógrækt – reynslan og framtíðin
Útreikningar herma að 600 ferkílómetra af stórvöxnum lerki-, furu- eða greniskógi þyrfti til að fullnægja helstu timburþörf landsins; aðeins 20 x 30 ferkílómetrar flötur. Nú eru markmið með skógrækt ólík en einhvers konar landbætur, umhverfishönnun og beinar nytjar eru þau algengustu.  Trjáræktin er vel rúmlega aldar gömul og dylst engum að hún getur gefið vel af sér.  Nú þegar vinna margir við skógrækt, t.d. á Austurlandi; á við hóp í meðalútgerð eða hjá meðal iðnfyrirtæki.  Nokkrir tugir ferkílómetra af nytjaskógi er á við stórt málmiðjuver.

Trjálendi, hvort sem er kjarr og skóglendi með birki, eða þá trjábelti og skógur með erlendum trjám er eftirsóknarverður vegna lífríkisins sem hann myndar, vegna jákvæðra áhrifa sem hann hefur á langflest fólk við útivist, vegna skjóls sem hann myndar og vegna nytja sem af honum má hafa.  Öll tré skyggja á útsýni, líka birki, en það á ekki að vera efni í langar umræður vegna þess að skógur sem slíkur býður upp á innra útsýni: Skóginn sjálfan.

Lengi framan af var skógrækt borin uppi af einstaklingum, stundum í félagi, og tilviljanakennt hvaða trjátegundir voru notaðar á hverjum stað og hvernig þeir staðir voru valdir.  Smám saman hefur festan aukist og fleiri komið að, bæði ríkisstofnanir og starfandi bændur.  Um leið hafa rannsóknir og skipulag skógræktar styrkst. Vissulega hefur vankunátta mjög oft leitt til allt of þéttrar gróðursetningar og mönnum er gjarnt að grisja ekki skógarlundi.

Nokkrar erlendar jurtir eru nátengdar skógrækt og umdeildar.  Lúpínan er ein þeirra og skógarkerfill önnur.  Eins og sumt annað sem hingað barst af mannavöldum eru plönturnar á gráu svæði og við verðum að sætta okkur við tilvist þeirra því útrýming er ófær.

Framtíð skógræktar er ekki hafin yfir umræður.  Um hana eru og verða skiptar skoðanir.  Þess vegna er mikilvægt að áætlanir og viðmið séu skýr, raunhæf og öllum kunn og í samræmi við meginmarkmið náttúruverndar.  Almenn uppgræðsla og gróðurvernd eru eftir sem áður stærstu verkefni okkar.

Sátt við náttúruna
Náttúruvernd, bæði hugmyndafræðin og framkvæmdin, er langt ferli.  Ljóst má vera að koma manna til Íslands breytti lífríkinu endanlega. Öldum saman höfum við orðið að sætta samlíf gamalla og aðkominna lífvera og þannig verður það um ófyrirsjáanlega framtíð.  Náttýrunytjar og náttúruvernd eru óaðskiljanlegar athafnir og mikilvægari Íslendingum en flest annað.

Löngu er kominn tími til að sættast við lífríki landsins og setja reglur um nýliðun og innflutning og hafa eftirlit með því hvað hingað berst, utan náttúrulegra ferla.  Löngu er kominn tími til að menn hætti að setja stimplana “óargadýr” og “meindýr” á fugla eins og hrafn eða spendýr eins og ref og eyða hundruðum milljóna króna í að hefta útbreiðslu þeirra sem er sjálfstýrð að mestu.  Varnir geta verið með öðrum hætti en drápum.

Í skógrækt er einnig nóg tilefni til náttúruverndar.  Það þarf að hressa birkiskóga við, beitarfriða fleiri svæði, auðvelda sjálfsáningu birkis, stýra skógrækt með erlendum tegundum, stunda endurheimt votlendis og opna skóga betur fyrir almenningi svo eitthvað sé nefnt.  Eflaust þarf töluverða fræðslu og umræður til að lina áhyggjur manna af trjám og bæta umgegni við gróður.  Þegar horft er yfir afleiðingar aksturs, nær endalausar slóðalagningar, óásættanlegan frágang við framkvæmdir, slakan viðskilnað við efnisnám og kæruleysisumgengni á gróðursvæðum, er ekki að sjá að náttúran skipi nægan virðingarsess í augum allt of margra landsmanna, en það breytist áreiðanlega til batnaðar. Við erum öll óaðskiljanlegur hluti hennar.