Bangladesh kostar til 130 milljörðum króna á ári vegna loftslagsbreytinga, allt að 780 milljörðum króna árið 2050

Birna_midjaAðalbjörg Birna Guttormsdóttir, líf-, umhverfis- og auðlindafræðingur / pistill | Bangladesh er eitt fjölmennasta ríki heims með 140 milljón íbúa. Landið er einnig eitt af þeim sem verst verður úti vegna loftslagsbreytinga. Fellibylir, flóð og þurrkar hafa lengi verið hluti af sögu  Bangladesh en á seinustu árum hafa mun meiri öfgar einkennt veðurfar í landinu. Bangladesh er nú orðið leiðandi ríki þegar kemur að aðlögun vegna loftslagsbreytinga, en loftslagsbreytingar hafa reynst landinu dýrkeyptar.

Til að finna út nákvæmlega hversu miklu til hefur verið kostað af skattpeningum almennings til að takast á við loftslagsbreytingarnar, hafa stjórnvöld í Bangladesh verið í samstarfi við UNEP (Umhverfisstofnun Sameinuðu Þjóðanna) við að gera fyrsta alhliða loftslagsbreytinga bókhaldskerfið. Niðurstöðurnar eru sláandi svo ekki sé meira sagt en þar kemur m.a. fram að Bangladesh eyðir nú 130 milljörðum króna á ári í aðlögun vegna loftslagsbreytinga eða á milli 6-7% af árlegum útgjöldum landsins.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Loftslagsbreytingar er vaxandi vandamál og Alþjóðabankinn (World Bank) hefur nýlega gefið út skýrslu þar sem dregin er upp enn alvarlegri mynd af gangi mála. Útreikningar Alþjóðabankans gefa til kynna að árið 2050 muni Bangladesh koma til með að þurfa að kosta til allt að 780 milljörðum króna vegna loftslagsbreytinga.

Útreikningar á losun gróðurhúsalofttegunda hafa sýnt að meðal Evrópubúi losar svipað magn af koldíoxíði út í andrúmsloftið á 11 dögum og einn Bangladeshbúi losar á einu ári.  Samt sem áður eru það skattgreiðendur í Bangladesh sem borga brúsann.

Niðurstöður úttektarinnar hafa vakið mikla athygli og leiddu þær m.a. til þess að loftslagsmál í Bangladesh voru tekin út sem einstakur málaflokkur innan umhverfisráðuneytisins þar í landi. Nú er unnið með málaflokkinn þvert á önnur ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög enda hefur mikilvægi málaflokksins nú sannað sig svo um munar. Niðurstaðan hefur því breytt hugsun stjórnvalda í Bangladesh þar sem málaflokkurinn loftslagsbreytingar eru nú orðinn lykilatriði þegar kemur að framtíðarhorfum fyrir landið.

Fara á UNEP hér