Hormónaraskandi efni eru allt í kringum okkur

Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, líf-, umhverfis- og auðlindafræðingur / pistill | Nýleg rannsókn hefur sýnt fram á að efni sem raska hormónastarfsemi líkamans kosta heilbrigðiskerfi Evrópusambandsins a.m.k. 173 milljarða bandaríkjadollara á ári vegna heilsubrests sem hægt er að rekja til efnanna. Efnin eru talin valda m.a. krabbameini, sykursýki og ófrjósemi. Rannsóknin sem er sú fyrsta til að meta slíkan kostnað,  var stýrt af Dr. Leonardo Trasande aðstoðar prófessor við New York University School of Medicine.

Efnin sem um ræðir, er að finna í okkar daglegu neysluvörum. Efni sem raska hormónastarfsemi eru t.d. Bisphenol A (BPA) sem finnast m.a. innan í niðursuðudósum, á búðarkassakvittunum, í pelum, snuðum og málningarvörum. Efnið er flokkað sem ertandi og ofnæmisvaldandi og getur haft áhrif á frjósemi. Efnið getur raskað hormónajafnvægi og hefur skaðleg áhrif á lífríki vatns.

Þalöt finnast í PVC plasti, matarpakkningum, snyrtivörum, málningu, skóm og ýmsum fatnaði og leikföngum. Efnin geta haft skaðleg áhrif á frjósemi og skaðað fóstur. Áhrif efnanna á frjósemi hafa verið kunn um áratugaskeið og eru fóstur og nýfædd börn viðkvæmust fyrir efnunum.

Brómeruð eldvarnarefni finnast víða t.d. í húsgögnum, vefnaðarvörum og rafbúnaði. Einföld brómeruð eldvarnarefni eru mjög eitruð lífverum í vatni og mörg þessara efna brotna lítið niður í náttúrunni. Þau safnast fyrir í lífríkinu bæði í mönnum og dýrum og valda skaða. Sum þeirra geta valdið lifrarskaða og önnur raskað hormónajafnvægi, minnkað frjósemi, skaðað fóstur og valdið skemmdum á taugakerfinu.

Á vef Umhverfisstofnunar er að finna ýmsan fróðleik hér um efni í hlutum og rétt neytandans hér til að fá upplýsingar um hættuleg efni í vörum.

Fara á Ewg.org hér