Áfram margar áskoranir í umhverfismálum í Evrópu

EEA-skyrslaÞótt Evrópustefnur á sviði umhverfis- og loftslagsmála hafi fært Evrópubúum umtalsverðan ávinning stendur álfan frammi fyrir viðvarandi og vaxandi umhverfisvandamálum sem krefjast grundvallarbreytinga á framleiðslukerfum og neysluháttum.  Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu um ástand og horfur í umhverfismálum í Evrópu (The European environment – state and outlook 2015 (SOER 2015)), sem kynnt var í vikunni. Skýrslan nær til umhverfismála í 39 löndum, þ.á.m. Íslands, en stofnunin gefur út slíkar skýrslur á fimm ára fresti.

Meðal þess sem hefur áunnist er að Evrópubúar búa við hreinna loft og vatn en áður, minna hlutfall úrgangs er urðað og er þess í dag endurunninn í auknum mæli.  Hins vegar er langt því frá að framtíðarsýn Evrópu í umhverfismálum til ársins 2050 gangi eftir en hún var sett fram í 7. aðgerðaráætlun ESB. Þó nýting náttúruauðlinda sé betri en áður er enn gengið á lífsnauðsynlegar auðlindir. Þannig stendur ógn af vandamálum á borð við loftslagsbreytingar og því að stöðugt dregur úr líffræðilegri fjölbreytni.

Í skýrslunni er undirstrikuð þörfin á metnaðarfyllri stefnumótun eigi framtíðarsýnin að ganga eftir. Þá er lögð áhersla á að bregðast við því hve mörg umhverfisvandamál eru kerfislæg. Til dæmis getur alþjóðleg meginþróun unnið gegn stefnum og staðbundinni umhverfisstjórnun. Bent er á að mörg umhverfisvandamál eru nátengd framleiðslu- og neyslukerfum sem skapa störf og eru þannig grundvöllur lífsafkomu fjölda manna. Þá skilar aukin skilvirkni oft á tíðum litlu vegna aukinnar neyslu.

Er ein meginniðurstaða skýrslunnar sú að þótt mikilvægt sé að auka skilvirkni og fylgja eftir þeim stefnum sem þegar eru til staðar sé það ekki fullnægjandi heldur sé þörf á metnaðarfyllri stefnumörkun. Auka þurfi þekkingu og fjárfesta í því að breyta helstu kerfum sem lúta að fæðuöflun, orku, húsnæði, flutningum, fjármálum, heilbrigðisþjónustu og menntun. Þá þurfi að vinna gegn tjóni á umhverfi og náttúru, endurheimta vistkerfi, draga úr ójöfnuði og aðlagast hnattrænni þróun, eins og loftslagsbreytingum og ofnýtingu auðlinda.

Fara í íslenska þýðingu skýrslunnar hér
Fara í skýrsluna á ensku hér
Fréttatilkynning Umhverfisstofnunar Evrópu á íslensku hér
Fara á vef ráðuneytis hér