Ársfundur Veðurstofu, náttúruatburðir síðasta árs – stórkostlegt myndband úr mæliferðum á jökli

Ársfundur Veðurstofu Íslands var haldinn nú í morgun fimmtudaginn 19. mars en hann fjallaði um náttúruatburði síðasta árs ásamt vöktun og eftirliti.  Meðfylgjandi myndband er með stórkostlegum myndum úr ferðum starfsmanna við að setja upp mælistöðvar á jökli.

Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpaði fundinn og kom fram í ávarpi hennar mikilvægi samþættingar stofnanna við vöktun á náttúrunni. Einnig kom hún inn á að ráðuneytið mun leiða vinnu við nýja skýrslu um líkleg áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi, og mun skýrslan byggja á íslenskum rannsóknum og niðurstöðum vísindanefndar sameinuðuþjóðanna.

Árni Snorrason talaði einnig um samþættingu og kom inn á mikilvægi þess að mismunandi fræðigreinar komi saman á VÍ við vöktun og rannsóknir. Sýndi hann m.a. nýlega afurð sem byggir á nýju spáveðurlíkani, Harmonie og sýnir aftakaleysingu með uppsöfnuðu afrennsli af öllu landinu. Hann kynnti einnig nýtt verkefni sem enn er í umsóknarferli (DAGIO) þar sem skoðuð verða m.a. áhrif loftslagsbreytinga á hafstrauma og þar með lífríki sjávar. Mikil krafa er gerð um samþættingu í þessu verkefni en þarna koma saman vatnsorkugeyrinn, ferðamannaiðnaðurinn, samgöngur og lífríki hafsins.

Jón Kristinn Helgason fjallaði um berghlaupið í Öskju en þetta berghlaup er eitt það stærsta hér á landi á sögulegum tíma.

Krístín Jónsdóttir fagstjóri jarðskjálftavár fjallaði um eftirlit með umbrotum í Bárðarbungu. Þar komu saman margar íslenskar stofnanir en einnig kom verkefnið FutureVolc mikið við sögu þar sem erlendir aðilar komu að vinnuni.

Elín Björk Jónasdóttir og Gerður Stefánsdóttir fjölluðu um Gosmökk. Þar kom fram að ekki hafði verið búið að vinna að undirbúningi á nákvæmum mælingum á gasi áður en byrjaði að gjósa í Holuhrauni. Því varð að vinna hratt til að koma upp kerfi sem gæti varað við mengun.

Síðastur talaði Bergur H. Bergsson um mælitæki við erfiðar aðstæður og sýndi m.a. myndir af uppsetningu á mælistöðvum á Vatnajökli og myndbandið sem fylgir með fréttinni.