Yfir 60% styðja stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu

HálendiðÁ vefsíðu Landverndar er kynnt ný könnun um þjóðgarð á miðhálendinu.  Stuðningur við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands er 61,4% samkvæmt nýrri könnun sem Gallup vann fyrir Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands. Stuðningurinn hefur aukist um 5 prósentustig frá sambærilegri könnun í október 2011. Þá hefur þeim fækkað sem eru andvígir stofnun þjóðgarðs en þau eru einungis 12,4% aðspurðra.

Stuðningur við stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er þvert á stjórnmálaflokka. Á meðal stuðningsmanna allra stjórnamálaflokka eru mun fleiri aðspurðra fylgjandi stofnun þjóðgarðs en andvíg. 51% af þeim er styðja ríkisstjórnina styðja stofnun þjóðgarðs en einunigs 19% eru andvíg. Stuðningur þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina er 72% og 9% eru andvíg þjóðgarði.

Ljóst má vera af þessum niðurstöðum að baráttan fyrir vernd hálendis Íslands nýtur mikils stuðnings á meðal þjóðarinnar en Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands vinna nú að sameiginlegu verkefni um varanlega vernd hálendisins.

Stærð úrtaks var 1418 manns og þátttökuhlutfall 61,8%.

Fara á vefsíðu Landverndar hér