Jöklar við Norður-Atlantshaf rýrna hratt

NAtlantshafJoklarÁ vef Veðurstofu Íslands skrifar Tómas Jóhannesson um skýrslu sem út er komin á vegum norræns rannsóknarverkefnis (SVALI, Stability and variations of Arctic Land Ice) skýrsla um breytingar á jöklum við Norður-Atlantshaf * og mælingar sem stundaðar eru á jöklunum til þess að fylgjast með þessum breytingum.

Samkvæmt skýrslunni hafa jöklar við Norður-Atlantshaf hopað og þynnst hratt síðustu árin eins og raunin er með jökla víðast hvar á jörðinni.  Grænlandsjökull ber höfuð og herðar yfir aðra jökla sem um er fjallað og minnkaði á árunum 2003-2011 sem nemur um 230 km³ vatns á ári að meðaltali og hækkaði sjávarborð heimshafanna um u.þ.b. 0,65 mm á ári af þeim sökum.

Til samanburðar geyma íslenskir jöklar um 3600 km³ af ís sem jafngildir yfir 3200 km³ vatns. Íslensku jöklarnir þynnast nú um u.þ.b. 1 m á ári að meðaltali. Það jafngildir 9,5 km³ vatns á ári og leggja þeir um 0,03 mm árlega til heimshafanna (sjá kort af Norður-Atlantshafssvæðinu). Jöklar á Svalbarða rýrna um 4,3 km³ vatns á ári og jöklar í Skandinavíu um u.þ.b. 2 km³ á ári og þeir leggja sem því nemur minna til heimshafanna. Sjávarborð hafanna hækkar nú um u.þ.b. 3,2 mm árlega að meðaltali og er talið að rýrnun jökla valdi meira en helmingi þessarar hækkunar.

Island joklarÍ skýrslunni er fjallað sérstaklega um jöklakortlagningu með leysimælingum úr flugvél (LiDAR) og stöðu hennar fyrir jökla á Norðurlöndum en leysimæling er nákvæmasta og áreiðanlegasta aðferð til mælinga á jöklum sem völ er á. Hér á landi hafa allir jöklar stærri en 10 km² verði mældir með þessari aðferð í rannsóknarverkefni sem staðið hefur síðan 2008 (sjá Íslandskort).

Við Norður-Atlantshaf og á Norðurskautssvæðinu er umtalsverður hluti jökla á jörðinni og frá þeim falla mörg vatnsföll til Norður-Atlantshafsins og Norðuríshafsins. Í rannsóknarverkefninu SVALA hefur verið skipulagður norrænn samstarfsvettvangur fyrir jöklafræðinga við sautján rannsóknar-stofnanir og háskóla þar sem fengist er við greiningu jöklamælinga og líkanreikninga á veðurfari, afkomu jökla og ísflæði. Unnið er að endurbótum á reiknilíkönum sem notuð eru til þess að segja fyrir um áhrif loftslagsbreytinga á jökla og ritaðar yfirlitsskýrslur um breytingar á jöklum á Norður-Atlantshafssvæðinu og öðrum norðurslóðum.

Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun taka þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd.

Fara í skýrsluna hér
Fara á vef Veðurstofu Íslands hér