Vantar ekki eitthvað?

Ari Trausti storAri Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur / pistill | Tryggingarfélög hafa uppgötvað, samkvæmt fréttum, mikilvægasta viðfangsefni sitt á komandi árum: Bætur fyrir þau áhrif sem hlýnandi og öfgafullt veðurfar orsakar. Smám saman fléttast umhverfismál og andóf gegn hlýnuninni, ásamt leiðum til að vinna úr stöðunni hverju sinni, inn alla helstu stefnumótun í efnahags- og samgöngumálum. Olíuvinnsla við Ísland eða ekki, rafbílar, eldsneyti framleitt sjálfbært í stórum stíl, breytingar á fiskgengd í sjó, aukinn eða minni afli og súrnun sjávar; allt eru þetta efnisatriði sem ber hátt. En hvað með landbúnaðinn? Hvar eru snertifletir hlýnunarinnar og íslensks landbúnaðar? Ýmislegt má þar finna, svo sem vonir um bætt vaxtarskilyrði á ökrum, túnum og afréttum, bindingu kolefnis með uppgræðslu innan verkefna eins og Bændur græða landið á vegum Landgræðslunar, jarðhitaræktun, bætta beitarstjórnun, aukna ræktun innlends skepnufóðurs og jafnvel metanframleiðslu heima á bæ til eldsneytisgerðar. En eitt allra mikilvægasta atriðið gleymist.

Því er svo farið að innlendur landbúnaður, af býsna háum gæðum yfir heildina, er verndaður fyrir miklum innflutningi og fær stuðning frá samfélaginu. Ýmis rök hafa heyrst fyrir því fyrirkomulagi, til dæmis viðhald byggða í landinu, umrædd gæði út næstum lífrænum landbúnaði, fæðuöryggi á viðsjárverðum tímum og fleira. Önnur og oft andstæð rök hljóða til dæmis upp á lægra verð innfluttra vara og meira úrval ef tollfrjáls innflutningur væri leyfður. Sennilega má fara bil beggja í verndun landbúnaðar og lítt heftum innflutningi búvara en þá blasir einmitt gleymda atriðið við. Mælingar, veðurfarslíkön og vísindaleg rök benda ótvírætt til þess að vegna gríðarlega hraðrar hlýnunar á áratuga grunni, og afar kostnaðarsamra mótaðgerða, verður að takmarka vöruflutninga um allan heim þar til menn ná tökum á umverfisvænum orkukostum og kunna að spara hráefni. Þetta gæti meðal annars átt við blóm í flugi þúsundir kílómetra, fiskisérvöru til Japans, eggjahvítu á plastbrúsum frá Danmörk og ævintýralega land- og vatnsnotkun við kjötframleiðslu til stórútflutnings. Með öðrum orðum: Núverandi neyslu-, ræktunar- og flutningamynstur (milli landa) með bílum, skipum, dísillestum og flugvélum breytist hratt fram eftir öldinni. Heimafenginn baggi verður á endanum ódýrari en hinn ef horft er heildrænt en ekki bara á þrönga efnahagsreikinga. Ræktun eykst bæði innan borga og bæja og úti á landi, flutningsleiðir styttast, afurðastöðvum fjölgar, orkufrekur verksmiðjubúskapur minnkar, verslun sem byggir á pakkaðri ferskvörðu og stórmörkuðum minnkar. Fólk lætur sér þá líka nægja að hafa árstíðabundnar afurðir í matinn í stað þess að kaupa bláber sem flutt eru 10.000 km leið til Íslands í flugi um miðjan vetur.

Ef þessi umhverfisvídd, til skemmri eða lengri tíma, bætist ekki í umræðuna um landbúnað og innflutning á Íslandi virkar ofuráhrersla á gagnrýni á verð og úrval sem skammsýni. Auðvitað verður margvíslegur matarinnflutningur haldinn í heiðri, bæði grunnvara og sérvara, en það er hófsemdin og skynsemin sem verður þá að ráða mestu. Ekki bara buddan þessa vikuna eða neytendaósk um bláber í febrúar, jafnvel þótt einhver hagnist á sölunni.