Frammi fyrir komandi kynslóðum

Ari Trausti storAri Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur / pistill |

Af náttúrunni lært

Fjölskylda mín stundaði skógrækt á nokkurra hektara landsvæði, hluta úr gamla Miðdalslandinu í Mosfellssveit eins og hreppurinn hét lengst af. Flest trjánna eru birki og reynir en töluvert af sitkagreni og rauðgreni, nokkrar furur, lerki og blæaspir. Fyrir var landið vel gróið að hluta en víða bæði melar og móar með rofabörðum. Hluta landsins næst tveimur sumarbústöðum var breytt í grasflatir, landmótaða stalla, blómabeð og matjurtagarða, m.a. undir kartöflur og jarðarber. Trjáplöntur eða fræ fengust hjá Skógræktinni, í Múlakoti, í Öræfasveit, Vaglaskógi og hjá Martinusi Simson á Ísafirði svo dæmi séu nefnd.

Reynslan af því að alast upp við þessar aðstæður öll sumur, með fasta búsetu, fram til tvítugs, mótaði afstöðu mína til skógræktar, garðyrkju og raunar allrar náttúru sem finna má í jaðri Mosfellsheiðarinnar; fugla, refa, veiðivatna, nytjajurta, berjatínslu, jarðvegs og hvaðeina. Sennilega urðu þarna til hugmyndir sem hafa fylgt mér æ síðan um styrk og veikleika íslensks og innflutts gróðurs, jafnvægi milli náttúrunytja og náttúrverndar og um hlut mannsins í að móta umhverfi sitt

Rányrkja fyrri tíðar… og nú?

Mér hefur oft verið hugsað til þess tíma þegar þær tugþúsundir sem hingað fluttu nýttu landið án vitneskju um afleiðingarnar. Velta má vöngum yfir tilganginum og framvindunni. Hagsæld var takmarkið og sú hugsun nálæg að landið væri stórt og náttúrunni tækist að halda í horfinu; bithagar myndu endurnýjast, skógar þola rýmingu, beit, eldviðartöku og kolagerð og fiskimiðin allt dorgið. Varnaðarorð kunna að hafa komið fram en verið hunsuð og loks þegar vítahringur loftslagsbreytinga, jarðvegseyðingar og vistkerfisbreytinga virkaði fyrir alvöru féllust mönnum hendur frammi fyrir skaðanum og afleiðingum hans. Ekki voru heldur til „meðul og leiðir“ svo hægt væri að snúa þróuninni.

Tekið hefur langan tíma að horfast í augu við mistök fyrri tíðar og skilja að útlit landsins neðan við 500-600 metra hæðarlínu er mjög víða úr samræmi við náttúrufarið. Alvarlegast er að örfoka eða illa farið land verður ekki með eðlilegri áferð að nýju nema á afar löngum tíma, miklum mun lengri en tók að valda gríðarlegum landspjöllum. Jarðvegur sem hefur horfið var afurð þúsunda ára. Svo er hitt til viðbótar að það er ekki fyrr en nú að segja má að takist að halda í horfinu, þ.e. að vega upp á móti jarðvegs- og gróðureyðingu með sjálfsuppgræðslu, verndaraðgerðum og nýgræðingi.

Nú geta flestir samþykkt dóm sögunnar án þess að búa til blóraböggla, enda til lítils.  Þá verður að spyrja: – Getum við lært eitthvað annað af henni en um nauðsyn þess að halda áfram að endurheimta landgæði? Ég tel svo vera. Við getum horft til fortíðar og speglað söguna yfir á allt aðrar auðlindir í nútímanum. Meðferð forvera okkar á landinu, hagsældarsóknin án getu eða vilja til að skeyta um afleiðingarnar endurspeglast nefnilega nú í hugmyndum manna um olíu- og gasvinnslu í norðrinu. Margir vilja ná þar upp verðmætum í nafni aukinnar hagsældar og valda því beinlínis um leið að enn hækka hitatölur og líkur á því að ævintýralegt tjón verði á verðmætum; allt frá mannvirkjum, vegna illviðra og ágangs sjávar, til auðlinda á borð við lífríkið í hafi og jökulþekju landsins. Hugmyndafræðin er svipuð og var, nema hvað núna vita menn mest allt um beinar afleiðingar gerða sinna – og það ekki aðeins heima fyrir heldur einnig á veraldarvísu. Endalaus sókn í jarðefnaeldsneyti er einfaldlega rányrkja sem hefur fyrir löngu sannað skaðsemi sína og henni verður að ljúka. Við mígum ekki tvisvar í skóna til að halda á okkur hita.

Raunyrkja, sem andstaða við rányrkju, er vissulega vandrötuð leið en knýjandi nauðsyn þegar mannkyn er orðið margra milljarða manna samfélag. Gleymum því ekki heldur að við höfum heimaeyjuna að láni, í eitt hlýskeið sem stendur í mörg þúsund ár. Þá geri ég ráð fyrir að nýtt jökulskeið hefjist í fjarlægri framtíð og allt okkar streð komi fyrir lítið. Á meðan lífríkið gjörbreytist og öllum jarðvegi, gróðri og mannvirkjum á Íslandi verður rutt til sjávar fær mannkynið, í sinni þáverandi mynd, að glíma við að sitja saman á sátts höfði, á miklu minna landi en nú gefst.

Maður og náttúra

Ég hef stundum rakið tvær andstæðar hliðar náttúrunytja á Íslandi sem blasa við ef litið er yfir söguna. Jákvæða hliðin sýnir okkur þrautseigju og landnytjar í landbúnaði sem gerði fólki kleift að halda velli í erfiðu veðurfari Litlu ísaldar og standast afleiðingar náttúruhamfara, einkum stórra eldgosa. Síðar komu til efnisnámur vegna mikillar og nauðsynlegrar mannvirkjagerðar á vélaöld og nýting vatnsafls að marki og hitaveitu upp úr 1930. Fiskveiðar voru hin undirstaða samfélagsins. Þær héldu lengi velli án véla en fyrst eftir að vélknúin fiskiskip komu til og fram til 1960 bárust ótrúlega mikil verðmæti í land. Þau áttu sinn þátt í að snarefla og nútímavæða samfélagið.

Neikvæða hliðin afhjúpar lista af rányrkju og mistökum. Að slepptum meginhluta gróður- og jarðvegseyðingarinnar gerðist mest af því neikvæða á 20. öld: Mjög óhófleg og óþörf þurrkun votlendis, gerð yfir 3.200 efnisnáma, stjórnlítil vega- og slóðalagning utan þéttbýlis og heimajarða, hugsunarlaus förgun úrgangs í soprhauga, rányrkja innlendra og erlendra útgerða á grunnslóð og djúpslóð, áframhaldandi beit á illa förnu landi og orkuöflun án samræmds landsskipulags (rammaáætlunar). Undanfarna 2-3 áratugi hafa orðið miklar framfarir í andsvörum við þessum tiltækjum. Sum má kalla mistök en annað fyrirhyggjulitlar nytjar í hagnaðarskyni. Hugmyndafræðin botnaði sennilega í setningum eins og:  – Við erum fá og landið og hafsvæðið stór, eða: – Maðurinn skal gera náttúruna sér undirgefna.

Bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar náttúrunytja minna á að maðurinn er háður því að nýta náttúruna hóflega og rétt, enda sjálfur hluti hennar. Íslendingar ráða yfir gjöfulli náttúru en auðlindir eru engu að síður fáar miðað við mörg önnur lönd. Mikilvægt er að skipuleggja margþætt atvinnulíf og sem fjölbreyttastar náttúrunytjar; ekki bera öll eggin í einni körfu, ekki einhenda sér á landbúnað og fiskveiðar eða raforkuframleiðslu fyrir álver heldur hafa uppi raunyrkju á mörgum sviðum ásamt nýsköpunariðju og hátækniþróun.

Náttúrnytjar á Íslandi byggja á: Húsdýrarækt, ylrækt, köldu neysluvatni, skógrækt, timburiðnaði til innlendra nota, fiskirækt, jurtanytjum á landi og í sjó, fiskveiðum, fiskiðju, efnaframleiðslu úr sjávarlífverum, dýraveiðum á landi, fjölbreyttri raforkuframleiðslu (vatn, jarðhiti, vindur, sólarorka, sjávarorka), nýtingu heits vatns og gufu, efnaframleiðslu úr jarðhitavökva og jarðhitagasi, jarðefnanámi til bygginga og handverks, notkun súrrar gjósku í iðnaði og bergs til basalttrefja, orkusölu til gagnavera eða iðnaðar sem þarf 5-20 MW hvert fyrirtæki, ferðaþjónustu, nýtingu lands til framleiðslu hugverka, t.d. kvikmynda og nýtingu náttúrunnar til fræðslu og kennslu. Listinn gæti verið lengri en sýnir að tími fábreytni og tveggja eða þriggja höfuðatvinnuvega, er liðinn. Það kallar á fyrirhyggju, sjálfbærni og heildræna sýn á náttúrunytjarnar.

Jurtaríki landsins

Skógur, hvort sem er kjarr eða hávaxin tré, er ein mikilvægasta náttúruauðlind heims. Tré binda meiri koltvísýring, stærðar vegna, en aðrar jurtir og framleiða um leið súrefni í miklum mæli. Tré binda jarðveg af miklum móð, veita skjól og leiða til þess að mólendisgróður festir rætur og heldur velli milli skóglenda og ofan við trjámörk. Við skuldum heimsbyggðinni þá eðlilegu trjáþekju sem hér getur dafnað.

Þegar nokkur vistkerfi þrífast saman á stóru landsvæði (hæðar og veðurlags vegna), t.d. kerfi með mosum og ýmsum stönguljurtum, samhliða kerfi með dæmigerðum heiðagróðri og enn öðru með skóglendi, verður hratt rof í heildarsamvirkninni ef eitt kerfana hrynur. Þetta skýrir sumt af eyðingarsögu gróðurlendis á Íslandi. Skóglendi minnkaði hratt úr svæði, sem nam tugþúsundum ferkílómetra í marga skógarbletti. Þeir voru innan við tíundi hluti þess flatarmáls sem fyrir var. Skjól af hávöxnum gróðri, hagstæð jarðvatnsdreifing og öflug jarðvegsbinding hvarf af hverju landsvæðinu eftir annað. Þegar vatns- og vindrof hafði skorið fyrrum skógarbotn illa og lengi, hófst langvinnur vítahringur. Að nokkuð löngum tíma liðnum lágu berir melar og jökulurð eftir eins og fjölmörg dæmi vitna um, t.d. landsvæðið við Kjalveg, frá Gullfossi að Bláfelli.

Gróðursagan bendir til þess að gróðurlendi á Íslandi er harðgert, en ekki eins viðkvæmt, almennt séð, eins og oft er gefið í skyn. Til eru viðkvæm vistkerfi, t.d. mosavaxið land, en það mega teljast undantekningar. Birkiskógar og undirgróður þeirra eru harðgerð gróðurlendi, mólendisgróður þolir mikið álag, hraun eru fljót að taka á sig grænan slikju, melar eru undrafljótir að gróa upp neðan 400-500 metranna, jafnvel í foksandi þrífast jurtir, og votlendisgróður er seigari en flest annað. Í raun á styrkur og aðlögunarhæfni íslensks gróðurs að hleypa okkur kapp í kinn. Einnig ættum við að hætta að láta eins og flest gróðurlendi hérlendis þoli hvorki beit né umtalsverða umferð gangandi fólks eða hesta. Þolmörk eru sannarlega til og kalla á stígagerð eða vegi en það er önnur saga.

Þegar öllu er á botninn hvolft er það auðvitað svo að vistkerfin hefðu breyst hvort sem land var numið eða ekki, einfaldlega vegna veðurfarsbreytinga frá 9. öld til 21. aldar – rétt eins og víða í mógröfum þar sem sjást tvö birkilurkalög frá þeim tíma er mýrar voru mólendi fyrir þúsundum ára. Sennilega hefði þó stærstur hluti hins forna skóglendis, án íhlutunar manna, haldið velli ofan við 400 m hæðarlínu.

Erlendar jurtir

Sennilega skipta aðfluttar jurtategundir á landinu mörgum hundruðum. Áður og fyrr fluttust nytjajurtir eins og þreskjanlegt korn, lín og lækningajurtir til landsins en síðar bættust við erlendar trjátegundir, nokkrar nytjagrastegundir og ótal garða- og grænmetisjurtir. Erlendar blómjurtir úti í mólendi í Grafarvogi, komnar þangað úr nálægum húsagörðum, minna á þessa sögu í hnotskurn.

Sums staðar skarta stór landsvæði tilteknu gróðurfari sem kann að vera nokkuð ólíkt því sem var fyrir nokkrum öldum. Annars staðar er land sama sem örfoka og enn annars staðar hafa menn gróðursett og sáð plöntum sem eru ýmist erlendar eða innlendar en ekki í samræmi við næsta umhverfi. Af þessu leiðir að mjög erfitt er að finna þá lýsingu sem fellur að fullyrðingum um upprunalega ásýnd landsins. Þó má giska á hana, finna henni stað á tilteknum svæðum og deila svo um hvort þau skuli hafa eða halda ákveðnu yfirbragði eða ekki. Og einnig hvar eðlilegt megi teljast að horfa yfir heimskautaeyðimerkur eða samfellda skóga og hvar ekki. Enginn er Hæstiréttur í umræðunum og í þeim ætti að gilda sæmileg hófsemi.

Tilhneiging er til að gagnrýna notkun lúpínu og útbreiðslu hennar, útbreiðslu skógarkerfils. Vissulega hefur farið svo að lúpína vex þar sem hún ætti ekki að vera og útrýming skógarkerfils er úr sögunni vegna kostnaðar og of mikillar útbreiðslu nú þegar. Við verðum að gangast við mistökum ef svo ber undir. Hitt er augljóst að þarna er um ólíkar jurtir að ræða þó að báðar megi merkja sem ágengar, teljist það til einhvers gagns.

Skógarkerfillinn er einfaldlega orðinn hluti flórunnar og við hann verður að eiga með viðnámi þar sem það þarf en sums staðar verður hann látinn afskiptalaus.

Lúpínan aftur á móti heldur sig fyrst og fremst við ógróið eða rofdílótt land og nær ekki samfelldri útbreiðslu þar sem gróðurþekja er þétt og stór. Þar ná fræ hennar ekki að spíra og rætur ekki að styðja ungjurtir. Vegferð plöntunnar er sannanlega þannig að hún leggur undir sig beran jarðveg, myndar þétta þekju með sínum köfnunarefnismyndandi rótum og mikla stönglaefni í ein 30-40 ár. Þar á eftir gisnar lúpínubreiðan smám saman, uns hún hvefur. Plöntur ná ekki að sá sér, þær eldast og deyja en aðrar jurtir komast á legg í nýjum, moldríkum jarðvegi, einkum grös, blómjurtir, lyng, víðir og birki, allt eftir staðsetningu svæðisins. Fyrir þessu hef ég eigin reynslu, bæði úr sumarbústaðalandi fjölskyldunnar þar sem lúpínan kom til sögu 1958, í fjallshlíðum fyrir ofan Siglufjörð og af myndum og orðum Húsvíkinga sem hófu uppgræðslu innan og ofan bæjarins. Að sönnu er lúpínan óþörf og annarleg á sumum stöðum, jafnvel svo að rétt er að uppræta hana. Hitt er svo jafn algengt að menn amist við henni að óþörfu. Stafar það gjarnan af því hve lengi hún er að ljúka ferli sínum og hverfa. Líkt og skógarkerfill er lúpína komin til að vera og réttast að reyna að nýta hana í baráttu við allt of mikla jarðvegseyðingu sem enn fer fram.

Landið við sumarbústað fjölskyldunnar tók stakkarskiptum á viðkvæmum stöðum og er nú ýmist skóglendi eða með venjulegum íslenskum móagróðri. Lítið er eftir af lúpínu utan þessara staða í landinu, og þá aðeins í rofnum jarðvegi. Hún er sem sagt enn að umbreyta stöðum sem ekki eru grónir en í litlum mæli. Sennilega verður lúpína horfin með öllu innan gömlu girðingarinnar eftir fáeina áratugi.

Ólík skógrækt – og skotgrafir

Þá að trjágróðrinum og erlendum trjátegundum. Stundum er um okkur sagt að við vinnum ekki eftir áætlunum, þrífumst best í kaótísku umhverfi þar sem hver maður er sinn smiður og lítum sjaldan heildrænt á verkefni. Þetta gæti átt við um mikið af ræktun á Íslandi. Einhver flytur inn ný afbrigði kartöflu og hefur ræktun þeirra, grasræktun fer fram meða happa- og glappaaðferð í fyrstu, einhver kemur með lúpínufræ að utan, enn annar með lerkiplötnur eða fræ og þannig hefst viðspyrna við einhæfni gamla tímans og landeyðinguna, en án skipulags. Þarna er skógræktin kapítuli út af fyrir sig. Hún hefst með tilraunum og hugsjónastarfi einstaklinga en færist smám saman í átt að ríkisátaki og verður svo hluti landbúnaðarstefnu á meðan heildrænt skipulag skógræktar og regluverk skortir lengst af. Landgræðslan og Skógræktin eru frá upphafi aðskildar stofnanir þrátt fyrir að starfsemin skarist á mörgum sviðum. Og þegar náttúruvernd verður til sem aðhaldsstefna myndast fljótlega núningsfletir milli talsmanna skógræktar og margra innan geira náttúru- og landverndar.

Skógrækt hefur verið stunduð af leikmönnum til að bæta landgæði við býli, heimahús í bæjum eða sumarbústaði, eða mynda útivistarreiti. Hin tegund skógræktar byggir á nytjastefnu með opinberum tilstyrk og hófst hún álíka snemma og landgræðsla. Báðar stefnunar hafa verið umdeildar síðustu árin og verða deilurnar ekki raktar hér. Gagnrýni á skógrækt varðar m.a. skort á reglum og eftirfylgni við þær, skemmd mólendis, niturmengun grunnvans, eyðileggingu á útsýni, skemmdir á mannvirkjum vegna rótarvaxtar og framandleika hávaxinna trjáa, einkum sígrænna, í náttúru landsins.

Í mörgum tilvikum virðist rökhyggja ekki ná yfir andstæður milli fylkinga. Frekar er um að ræða breytilegan smekk fyrir umhverfinu, ólík fegurðarskyn, takmarkaðar upplýsingar, misskilning eða ósveigjanleg og inngróin viðhorf sem koma fólki fyrir í skotgröfum. Ég tel mig standa utan þessara skotgrafa en er hvorki sérfróður um skógrækt né samhengi vistkerfa.

 

Stækkandi skógar

Nú um stundir blasir við að birkiskógar á Íslandi hjarna við sem heild og eru þeir orðnir samtals yfir 1.500 ferkílómetrar að stærð (ferningur 30 x 50 km), deilt á marga staði. Árangurinn hefur náðst með beitarfriðun, sjálfssáningu og plöntun. Hve stórt landsvæði í heild ætti að vera lagt undir slíkt gróðurlendi? 15.000 ferkílómetrar? Tvöföld sú tala? Sennilega næst að tvö- til þrefalda núverandi flatarmál birkiskóga á allmörgum áratugum. Yfir því ættu allir að gleðjast.

Nú er líka unnið að því að stækka hávaxna viðarnytja- og útivistarskóga, ýmist með greni, furu, lerki eða Alaskaösp. Samtals eru þessir skógar örfá hundruð ferkílómetrar að flatarmáli, ef allt er talið innan og utan þéttbýlis, kannski ferningur 15-20 km á hlið. Hve stórt landsvæði leyfum við undir nytjaskóga af þessum gerðum? Eitt prósent af landinu, 1,000 ferkílómetra? Sem sjálfbært skóglendi utan þéttbýlis mundi það víst duga til að sjá okkur fyrir mestu af t.d. smíðavið. Stefnum við á tvöfalt eða margfalt stærra svæði?

Sennilega fer svo að á næstu áratugum náum við að tvö- eða þrefalda hávaxna skóga með erlendum tegundum, innan og utan þéttbýlis. Þá verður enn fjarri lagi að skógar sem slíkir hafi breytt ásýnd Íslands í heild eða skaðað náttúrleg og hraustleg vistkerfi. Þeir munu hafa fremur styrkt og stækkað þau til hliðar við skóglendurnar en augljóslega breyta yfirbragði tiltekinna og valinna landsvæða, svo sem dala eða sléttlendis. Árangur sem þessi réttlætir skógrækt í landi þar sem eyðing gróðurs hefur orðið meiri en í nokkru öðru Evrópulandi og fólki mun fjölga hlutfallslega hraðar en í flestum öðrum löndum álfunnar, vegna frjósemi landans yfir meðallagi Evrópu og aðflutnings fólks utan úr heimi. ours og jarðvegs ghr), um vöruverð og ænda), um verð t within an extended period of unrest.he activity in Bökull outlet glacier.óðurs og jarðvegs hefur náð hærri hæðum en

Meginþungi í endurheimt landgæða felst eftir sem áður í að stöðva jarðvegseyðingu, auðvelda uppgræðslu eða sjálfsuppgræðslu, nýta jurtir á borð við melgresi og birki og koma í veg fyrir umhverfisslys vegna aksturs utan vega, átroðnings fólks á ýmsum landsvæðum og mannvirkjagerðar.

Landbúnaður

Skógrækt og aðrar óhefðbundnar landnytjar eru nátengdar landbúnaði.  Skógræktarbændur eru orðnir býsna margir og nú þegar býðst atvinna og framleiðsla innan geirans. Skóglendi verður auk þess æ vinsælla til útivistar.

Ástæða er til að gaumgæfa landbúnað á Íslandi í heild sinni, einkum af því að hann sætir ýmis konar gagnrýni og vegna þess að hann er nátengdur baráttu gegn hraðri hlýnun jarðar. Sumt af gagnrýninni snýst um kostnað við að reka landbúnað í núverandi mynd (sbr. beingreiðslur til bænda) en annað um vöruverð og úrval afurða. Síðastnefnda gagnrýnin stendur og fellur með innflutningi, sjóleiðis og flugleiðis, á ávöxtum, grænmeti, korni, kjöti, pakkavöru og mjólkurafurðum svo það helsta sé nefnt. Þar er ekki allt sem sýnist. Til dæmis má benda á meira en vafasama umhverfishagkvæmni þess að flytja bláber frá Chile til Íslands um hávetur, síld frá Danmörku, tómata frá Hollandi, kjúklingakjöt frá Þýskalandi, epli frá Kína og nautakjöt frá Ástralíu. Vissulega þarf margvíslegan matarinnflutning hingað og engum dettur í hug að banna innflutning sérvöru á borð við ólífuolíu eða nauðsynjavöru eins og brauðkorn.

Í stað óþarfa mengunar og sóunar má engu að síður sýna hófsemd og leyfa íslenskri orku, jarðvegi og hugviti að sjá fyrir sem mestu af fjölbreyttum matvælum. Bönn, ofurtollar og vernd gegn innflutningi duga skammt í nútímanum. Í stað þess á innlendur landbúnaður að sækja fram. Það gerist með öflugri og fjölbreyttri framleiðslu til heimanotkunar og til skynsamlegra samskipta við aðrar þjóðir. Þetta á við hér á landi og raunar í langflestum löndum heims. Mannkynið verður brátt ákaflega fjölmennt og mun ekki geta haldið velli með gamaldags framleiðslu- og verslunarháttum og hrikalega kostnaðarsömum langflutningum matvæla og eldsneytis. Fæðuöryggi minnkar ógnvænlega í heimi þar sem jöklar (uppsprettur áveitna) rýrna, ófriður hindrar landbúnað, erlend uppkaup lands tíðkast til þess að flytja þaðan matvæli og allt of mikil áhersla er á eina eða fáar afurðategundir í mörgum þróunarlandanna.

Vel má vera að það hafi mátt gagnrýna ríkissstyrktan landbúnað víða um heim á hefðbundnum nótum fyrir 20-30 árum. En nú, árið 2015, hefur ný vídd bæst í málefni landbúnaðar og breytt viðmiðum: Fyrrnefnd hlýnun jarðar og of mikill útblástur gróðurhúsalofttegunda. Afleiðingarnar setja vatnsbúskap, fæðuöflun og langflutninga matvæla í nýtt ljós. Margir eru sannfærðir um að tími einræktunar í þróunarlöndum, loftflutninga lúxusmatvöru, grænmetis eða ávaxta milli heimsálfa, tími matvælaförgunar stórmarkaða, gríðarlegrar kjötframleiðslu (með ofnotkun vatns og korns), kjötflutninga á sjó langar leiðir og skeið endalausra  matvælaflutninga með gámabílum þvers og kruss um álfur sé liðinn. Í staðinn verður að koma áhersla á heimafenginn bagga, vistvæna flutningshætti, stuttar flutningsleiðir og árstíða-og staðbundið framboð matvælategunda. Það merkir ekki afturhvarf til fortíðar með orf og ljá, súr- og saltmeti og hestakerrur. Til þess eru tækni, neyslukröfur og neytendavitund of langt komin.

Of mörg orð færu í að útlista hvað þetta merkir í samfélögum með gríðarmiklar stórborgir, sístækkandi einingar í landbúnaði og dreifingu, og með óaðlaðandi verksmiðjubúskap. Fyrir litla Ísland má þó strika upp nokkur atriði þegar horft er til framtíðar.

Framtíðarsýn – afmiðjun

Í ljósi umhverfissjónarmiða má halda því fram að öflug og dreifð landsbyggð sé hagfelld. Þannig verða til styttri leiðir en ella á fiskimið og styttri vegalengdir til annarra auðlinda og þar með talið til landbúnaðarsvæða, auk þess sem vegalengdir milli búsvæða verða minni. Nútíma tækni auðveldar fjarvinnu og öll samskipti. Þegar kostir dreifðra byggða og umhverfisávinningar eru vegnir á móti dýrari samgöngum vegna verulegs dreifbýlis og auknum kostnaði vegna smárra atvinnueininga, er sennilegt að síaukin samþjöppun verði dæmd sem röng meginstefna en afmiðjun skynsamlegri.

Nýsköpun og fjölbreytni í landbúnaði eru ekki sjálfkrafa tryggð gæði með sístækkandi vinnueiningum. Óhefðbundinn landbúnaður, svo sem skógrækt, framleiðsla fæðubótarefna og kryddjurta, framleiðsla matvöru með eftirsóttum sérkennum (vara beint frá býli) hefur gengið vel í smáum eða meðalstórum einingum, jafnvel fjölskyldureknum. Það beinir sjónum að ylrækt þar sem jarðhiti, og ekki síður varmadælur, getur minnkað innflutning erlendra vara og aukið framboð matvæla hér heima. Um leið skal viðurkennt að í sumum tilvikum henta stórar framleiðslueiningar, t.d. vélvædd gróðurhús, þegar um er að ræða magnvöru.

Líklega má lækka verð innlendrar matvöru, t.d. úr ylrækt, en það er heldur ekki óeðlilegt að matvara úr íslenkum aðstæðum sé dýrari en margar suðrænar vörur, og þá allt eins ef horft er til hollustu, mikilla gæða og umhverfisverndar. Síðastnefnda atriðið er hægt að meta til fjár og raunar löngu orðið ljóst að einfaldur verðsamanburður á vörum og hefðbundinn hagvöxtur eru ekki algild rök í umræðum um endurskipulagningu matvælaræktunar og -sölu í landinu.

Þannig má líta raunhæft til kornræktar í landinu, virkjunar metans úr lífmassa og ræktunar repju til framleiðslu á lífdísil. Landbúnaður, þar með talin skógrækt, getur orðið sjálfum sér nógur um jafnt skepnufóður, lífrænan áburð sem vistvænt eldsneyti á allar vélar og ökutæki. Vel má vera að ekki sé fyrirfram ljóst hvort þetta hækkar matarverð eða lækkar en víst að mikil umhverfisávinningur og aukin hollusta fylgdi slíkri stöðu. Hinu á ekki að leyna að matvælaverð er almennt of hátt á Íslandi.

Afmiðjun og verulega dreifðri framleiðslu fylgir sjálfkrafa minni akstur og laðar að afurðastöðvar og fullvinnslufyrirtæki sem efla atvinnu í héraði og eru til gagns hvað umhverfisvernd varðar. Slíkt er jafnt mönnum sem dýrum hagstæðara en núverandi ástand. Þetta á jafnt við landbúnað, og þá skógrækt, sem fiskveiðar og -vinnslu. Vel getur verið að slíkt útheimti opinbera styrki og þá verður að hafa það.

Sú sérstæða stefna, sem þróast hefur í stórum milljónaborgum, að leitast við að rækta matvæli innan þeirra, getur átt við í stærstu bæjum landsins er þar hefur skógrækt og blómarækt verið stunduð lengi; því ekki ræktun ætra jurta, líkt og var um tíma?

Að lokum verður að minnast á auðgljóst og krefjandi hlutverk okkar við að vinna gegn núverandi veðurfarsbreytingum. Skógrækt, endurheimt jarðvegs og votlendis er helsta leið landsmanna til að binda kolefni. Það gengur betur í dreifðu samfélagi með auðveldum tengslum fólks við sitt nærsvæði en í landi þar sem byggð er næstum öll í fáeinum kjörnum.  Að orkuvinnslu slepptri er kolefnisspor okkar, á mann, stærra en víðast hvar og það stækkar frekar en minnkar. Það gengur of hægt að hemja og minnka útblástur gróðurhúsagasa á Íslandi. Erum við sátt við það?