Er einhver eyland?

Ari Trausti storklipptAri Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur / pistill |  Í öllu talinu um jákvæðar og neikvæðar hliðar landbúnaðar á Íslandi sést næstum aldrei neitt til einna miklivægasta þáttar allrar stefnumótunnar í greininni: Samhengisins við hlýnun loftslags á heimsvísu og allra breytinganna sem fylgja henni nú þegar, eða eru framundan.

Þá er ekki átt við stöðuna við endurheimt landgæða á eyjunni sjálfri eða afstætt verðlag landbúnaðarafurða heldur atriði eins og þessi: Aukin áhersla á heimafenginn bagga, minni flutningur mili landa og innanlands, breytt framleiðsla í mörgum heimshlutum vegna vatnsskorts (eða hins öfgans – flóða), andóf gegn enn meiri samþjöppun matvælaframleiðslu til æ færri risafyrirtækja, aukin land“taka“ stórþjóða til eigin framleiðslu í frjósömum ríkjum – og loks (og bara til dæmis) sölukerfin í iðnríkjunum sem byggja á keðjufyrirtækjum, stórmörkuðum (sem útheimta endalausan akstur neytenda) og gegndarlausri sóun jafnt ferskra matvæla sem misgóðrar fæðu í endalausum plast- og pappaumbúðum. Það er auðvelt að deila um (eða reikna út) gagnsemi og skipulag landbúnaðar og matvælasölu á Íslandi án þess að taka mál málanna með í reikninginn: Efni loftlagsráðstefnunnar í París nú í haust.

Kemur hún landbúnaði á Íslandi við?  Eða er landbúnaður á Íslandi óháður umheiminum?  Hvernig getur landbúnaður á Íslandi komið til móts við kröfur almennings um hollustu og fjölbreytni um leið og hann byggir á sjálfbærni og umhverfisvinsemd – já, og sinnir þeirri samfélagsskyldu að virka á móti hlýnun loftslags af mannavöldum?  Hvernig kemur hann að minni kolefnislosun, meiri kolefnisbindingu, minni matarsóun, betri matvöru?

Hnignun landbúnaðar (orð Vilhjálms þingmanns Bjarnasonar á Eyjunni/Pressunni) er vissulega finnanleg en hún fer þó fyrst og fremst fram í stjórnmálageiranum vegna þess að stefnumótun og skipulag greinarinnar er úr takti við nútímann. Hún fer miklu síður fram meðal þeirra mörgu sem hugsa faglega og skynsamlega, innan landbúnaðarins jafnt sem utan hans. Þorri íslenskra bænda, auk fjölmargra vísinda- og tæknimanna, hefur sennilega margþættar og góðar hugmyndir til reiðu sem hægt er að búa til viti borna birtingarmynd í stjórnmálum sem lúta að landbúnaði og matvælaöryggi.