Helstu valkostir í flutningslínum til norðurs og austur. Athugasemdafrestur rennur út 1.sept n.k.

RaflínurÁ morgunfundi Landnets í morgun  á Hótel Natura var farið yfir helstu valkosti í flutningslínum til norðurs og austurs.  Telur Landsnet að besti valkosturinn til að byggja upp meginflutningskerfi raforku á Íslandi til framtíðar með stöðugleika að leiðarljósi, sé yfir hálendið.  Athuga að frestur til að gera athugasemdir við áætlunina og umhverfismatsskýrslu hennar er til 1.september næstkomandi.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets vék að þeim breytingum sem Alþingi gerði í vor á raforkulögum og festu í sessi lagagrundvöll kerfisáætlunarinnar og lögðu Landsneti og Orkustofnun auknar skyldur á herðar við gerð hennar.  Hann minnti einnig á samþykki Alþingis á stefnu um lagningu flutningslína í jörð sem gæfi Landsneti rýmri heimildir en áður til að nýta jarðstrengi og tækju drög nýrrar kerfisáætlunar mið af því.  Áætlunin sem uppfærð er árlega er annars vegar langtímaáætlun til 10 ára um framtíðaruppbyggingu raforku og hins vegar framkvæmdaráætlun fyrirtækisins til næstu þriggja ára.

Helstu áherslur í nýju kerfisáætluninni

Unnið er áfram með valkostagreiningu sem kynnt var í síðustu kerfisáætlun en þeir lagðir fram með breyttu sniði.  Í stað þriggja meginvalkosta eru settir fram tveir meginvalkostir sem fela í sér annars vegar tengingu yfir miðhálendið en hins vegar aðgerðir við núverandi byggðarlínu.  Út frá þessum tveimur aðalvalkostum eru síðan lagðar níu mismunandi útfræslur með blöndu af nýjum línum og spennuhækkun á eldri línum, þar sem nýjar línur geta ýmist verið loftlínur eða jarðstrengir

Þegar litið er til umhverfisáhrifa, stöðugleika flutningskerfisins, flutningsaukningu, rekstraröryggis og árhrifa á gjaldskrá telur Landsnet að Valkostur A1 sem í felst nýjar 220 kílóvolta (kV) línur á milli Blöndu og Fljótsdals og yfir hálendið (loftlínur og jarðstrengir) komi best út.  Einnig bendir Landsnet á að Valkostur B1 sem í felst endurnýjun byggðarlínuhringsins með 220 kV línum væri kerfislega betri kostur en A1.  Hins vegar fylgi kosti B1 meiri umhverfisáhrif og hærri framkvæmdarkostnaður en þá er langur uppbyggingartími einnig galli á kosti B1.  Telur Landsnet því að tenging yfir hálendið bjóði upp á fljótfengnustu tenginguna á milli norðurs og suðurs.

Í Valkosti A1 er gert ráð fyrir því að stóru virkjanirnar fyrir norðan og austan sem nú eru aðeins tengdar byggðarlínunni verði tengdar saman með öflugum línum.  Síðan yrðu þær tengdar við stærasta framleiðslukjarnann á Suðurlandi með línu yfir hálendið þar sem mögulega verði lagður 50 km kafli í jörðu til að draga úr sjónrænum áhrifum.

Helstu framkvæmdir Landsnets á næstu árum, en þær eru auk tengingar kísilvers í Helguvík, jarðstrengslagna á Suðurlandi og byggingar Suðurnesjalínu 2, að ráðist verður í byggingu nýs tengivirkis í Grundarfirði sem og styrking Hrauneyjafosslínu og spennuhækkun til Vestmannaeyja.  Á næsta ári verður m.a. tekinn í gagnið nýr spennir í Mjólkárvirkjun, unnið við afhendingarstað á Bakka, tengingu Þeistareykja og Húsavíkur, Kröflulínu 2, Grundarfjarðarlínu og byggt nýtt tengivirki í Ólafsík.  Á árinu 2017 er gert ráð fyrir byggingu tengivirkis á Sandskeiði og Sandskeiðslínu 1 samkvæmt nýlegu samkomulagi við Hafnarfjarðarbæ og íbúa þar.  Einnig er á döfinni bygging nýs tengivirkis á Hvolsvelli og lagning Fitjalínu 3.  Árið 2018 eru áætlaðar framkvæmdir við Blöndulínu 3, ný tenging fyrir Sauðárkrók og stækkun Búrfellsvirkjunar.

Allir kostirnir níu sem eru til skoðunar í kerfisáætluninni munu samkvæmt umhverfismati áætlana valda neikvæðum og/eða verulegum neikvæðum áhrifum á einhvern þeirra umhverfisþátta sem voru til skoðunar.  Meginmunur á áhrifum liggur í því hvort flutningsleið fari um hálendið eða meðfram núverandi byggðarlínu.

Helstu umhverfisáhrif hálendislínu felast í framkvæmdum á hálendinu og breytingum á ásýnd.  Helstu umhverfisáhrif byggðarlínu felast í því að mun meira land fer undir flutningsmannvirki, hún fer um mörg náttúruverndarsvæði og hefur áhrif á fleiri umhverfisþætti en hálendiskostirnir.  Niðurstaða umhverfismatsins gerir einnig ráð fyrir að jarðstrengur á Sprengisandi muni draga úr umfangi neikvæðra áhrifa á landslag og ásýnd.  Einnig er gert ráð fyrir að tillögur að mótvægisaðgerðum muni geta dregið úr eða komið í veg fyrir neikvæð áhrif á umhverfisþætti eins og landslag, ásýnd, lífríki og jarðmyndanir.

Athygli er vakin á því fyrir þá sem vilja senda inn athugasemdir að fresturinn er til 1.september n.k.  Athugasemdum skal komið til Landsnets á netfangið landsnet@landsnet.is eða sent á Gylfaflöt 9, 112 Reykjavík, merkt “athugasemdir við kerfisáætlun 2015-2014

Fara á vef Landsnets hér