Umsjónarsamningar með náttúruvættum í Reykjavík undirritaðir

Háubakkar í Reykjavík - setlög í Fossvogsbökkum

Háubakkar í Reykjavík – setlög í Fossvogsbökkum

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur staðfest umsjónarsamninga þriggja náttúruvætta innan marka Reykjavíkur. Um er að ræða friðlýstu svæðin Fossvogsbakka, Háubakka og Laugarás en með samningunum felur Umhverfisstofnun Reykjavíkurborg að hafa með höndum umsjón og rekstur svæðanna.

Fossvogsbakkar eru við norðanverðan Fossvog í Reykjavík og er setið í bökkunum talið vera um 11.000 ára gamalt eða frá lokum síðustu ísaldar. Þar á meðal eru sjávarsetlög þar sem er að finna mikið af steingervingum. Úr setlögunum má lesa ýmislegt um sjávarstöðu og veðurfar fyrr á tímum. Einstakt er að svo merkar jarðminjar séu staðsettar í miðri borg og er rannsókna- og fræðslugildi þeirra hátt. Hafa vísindamenn, íslenskir og erlendir, stundað rannsóknir á svæðinu. Fjölbreyttur gróður er á Fossvogsbökkum og hýsir gróðurlendið á svæðinu fjölbreytilegt smádýralíf og fuglalíf, einkum í fjörunni. Þá er að finna minjar frá tímum síðari heimstyrjaldar við Fossvogsbakka en þær tilheyrðu herbúð, Camp Mable Leaf, sem staðsett var vestarlega á Fossvogsbakkasvæðinu. Austan við leifar herbúðarinnar er að finna tóftir sem byggðar voru árið 1944 og eru vel greinanlegar.

Háubakkar eru innst í Elliðaárvogi að vestan og liggja að Súðarvogi í vestri. Setlögin í Háubökkum tilheyra svokölluðum Elliðavogslögum og mynduðust að öllum líkindum á löngu tímabili sem hófst fyrir meira en 300 þúsund árum og varði í a.m.k. 100 þúsund ár. Í setlögunum er bæði að finna steingervinga og surtarbrand þar sem ýmsar plöntuleifar er að finna. Svæðið liggur að fjörum þar sem er nokkuð um strandgróður og töluvert fuglalíf, einkum vaðfugla.

Náttúruvættið Laugarás er staðsett efst á Laugarásholti í Langholtshverfi í Reykjavík. Þar er að finna grágrýtisstórgrýti, ávalar klappir og hnullunga sem talin eru vera um 200 þúsund ára. Jöklar ísaldar mótuðu grágrýtið og má sjá jökulrákir á stærri hnullungunum. Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð og var Laugarás einn af fáum stöðum sem var ekki neðansjávar þegar sjávarstaðan var sem hæst og má sjá ummerki um það á svæðinu. Jarðminjar svæðisins veita mikilvæga sýn í jarðsögu Reykjavíkur. Þær eru víða þaktar mosa og hrúðurfléttum. Áður fyrr var holtagróður ríkjandi á svæðinu, en nú er birki algengasta trjátegundin. Ýmsir fuglar halda til á svæðinu, s.s. stari, svartþröstur og auðnutittlingur. Laugarás hefur mikið gildi sem útivistarsvæði enda liggur svæðið hátt og er útsýni gott til allra átta, yfir borgarlandið, sundin og til fjalla.

Samhliða umsjónarsamningnum undirrituðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, verndar- og stjórnunaráætlun fyrir náttúruvættin þrjú.

Fara á vef Umhverfisráðuneytis hér