Náttúruhamfarir og kostnaður þeim samfara.

OLYMPUS DIGITAL CAMERAHjalti J. Guðmundsson, landfræðingur / pistill | Loftslagsbreytingar af mannavöldum er staðreynd. Undanfarin ár hafa komið fram gríðarlegt magn rannsókna og umfjöllunar um þetta viðfangsefni og hefur umræðan um loftslagsbreytingar að mestu leyti fjallað um framkomin gögn, réttmæti þeirra, túlkun niðustaðna og leiðir til að koma í veg fyrir eða milda áhrifin af þeirra völdum. Umræða um loftslagsbreytingar er auðvitað mjög mikilvæg, bæði í vísindasamfélaginu og með miðlun upplýsinga til almennings. Hér á landi hefur lítið verið fjallað um þann kostnað á heimsvísu sem hlotist hefur af veðurtengdum náttúruhamförum síðustu áratugi. Með því að setja loftslagsbreytingar í samhengi við efnahagsstærðir má betur gera grein fyrir því umfangi sem loftslagsbreytingar gætu haft, og hafa haft, ef lítið eða ekkert verður gert til að sporna við þeim. Almennt er viðurkennt að við hitun lofthjúpsins verði veðurfar óstöðugra en birtingamynd slíkra breytinga er t.d. aukin storma- og flóðatíðni með tilheyrandi fjárhagslegu tjóni og dauðsföllum á þéttbýlum svæðum.

Hugtakið hamfarir (e: catastrophe; samheiti disaster) er almennt skilgreint sem náttúruleg eða manngerð alvarleg stórslys. Í tryggingaiðnaðinum er slíkur hamfaraatburður yfirleitt álitinn verða til þegar kröfur á tjón nema ákveðinni upphæð, sem nú er t.d. 25 milljónir dollara í Bandaríkjunum. Í slíku mati er einnig tekið tillit til fjölda tryggingaþega og tryggingafélaga sem verða fyrir áhrifum af viðkomandi hamförum[1]. Tjón sem tryggingafélög bæta eru yfirleitt á strandsvæðum og líklegt er að þeim fari fjölgandi á næstu árum, sérstaklega vegna þess að framkvæmdir á þessum svæðum munu aukast. Sett hafa verið fram líkön sem spá því að hamfaratjónum muni sem næst tvöfaldast á hverjum áratug í framtíðinni, aðallega vegna þéttingu byggðar á strandsvæðum ásamt því að byggingar verða líklega dýrari í framtíðinni.

Alþjóða veðurfræðistofnunin (World Meteorological Organisation) í samvinnu við Rannsóknamiðstöð um faraldsfræði hamfaraatburða (Centre for Research on Epidemology of Disasters) gáfu út skýrslu árið 2014 um tölfræði hamfara á jörðinni á tímabilinu 1970 til 2012[2]. Niðurstöður skýrslunnar eru skýrar; tjón og faraldrar vegna veðurfars og vatnafræðilegra atburða hafa aukist gríðarlega á athugunartímabilinu. Þar kemur fram að á rannsóknartímabilinu hafa orðið 8835 stórslysaatburðir (disaster/catastrophe) á jörðinni sem hægt er að rekja til veðurs, loftslags eða vatns. Í þessum atburðum létust 1,94 milljónir manna og ollu fjárhagstjóni sem nam 2,4 trilljón bandaríkjadala. Tíu verstu atburðirnir, ef litið er til manntjóns, gerðust aðeins í 0,1% af heildarfjölda atburða en ollu hins vegar 69% heildar dauðsfalla (1,34 milljónir). Tíu dýrustu atburðirnir eru ábyrgir fyrir 19% (443,6 billjón dalir) af heildarkostnaði. Stormar, þurrkar og flóð, ásamt hitabylgjum, er orsakavaldar á báðum þessum listum yfir verstu tjónin. Ef litið er nánar á tölfræðina kemur í ljós að stormar og flóð eru ábyrg fyrir 79% heildarfjölda atburða vegna veðurs, vatns eða annarra loftslagfrávika og orsökuðu 74% af heildarkostnaðinum. Þurrkar ollu hins vegar 35% af mannfalli, aðallega vegna alvarlegra þurrka í Afríku árin 1975, 1983 og 1984. Það er líka forvitnilegt að skoða hvaða svæði eru að fara verst út úr stórum veðuratburðum. Þá kemur í ljós að tíu stærstu veðurfarsaburðirnir, sem kostuðu flest mannslíf, urðu aðallega í þróunarríkjum en stærsta fjárhagstjónið varð í þróaðri ríkjum.

Bandarísk stofnun um upplýsingar í tryggingaiðnaðinum (Insurance Information Institute) hefur tekið saman upplýsingar um tjón vegna hamfara yfir tímabilið 1993 till 2012 í Bandaríkjunum[3]. Þar kemur fram að tjón vegna fellibylja og hitabeltisstorma nema 40,4% af heildinni; en þar á eftir koma tjón vegna skýstróka (36%), vetrarstorma (7,1%), hryðjuverka (6,3%), jarðskjálfta og annarra jarðfræðilegra atburða (4,7%), vinds/hagéla/flóða (3,8%) og eldsvoða (1,7%). Tjón vegna borgaralega óhlýðni, vatnsskemmda og röskun á þjónustu fyrirtækja nema samanlagt minna en 1%. Þess má geta að um 6% fasteignaeigenda sækja um bætur vegna tjóna. Ofangreint sýnir að tjón vegna ýmissa náttúruhamfara er yfir 90% af heildarútgjöldum tryggingafélaga þegar kemur að tjónabótum vegna hamfaraatburða í Bandaríkjunum. Þar af er tjón vegna veðurtengdra atburða tæplega 90% af heildinni.

En hvernig er þessum málum háttað á Íslandi? Fyrst skal nefna tjón sem Viðlagatryggingar Íslands hafa bætt. Hlutverk Viðlagatrygginga Íslands, samkvæmt lögum, er að bæta bein tjón af völdum jarðskjálfta, eldgosa, snjóflóða, skriðufalla og vatnsflóða. Stofnunin vátryggir ekki gegn tjóni af völdum óveðra eða annarra náttúruhamfara en sem að ofan greinir. Skylt er að vátryggja allar húseignir og lausafé sem hafa brunatryggingu. Þetta gildir einnig um hitaveitur, vatnsveitur og fráveitur í eigu sveitarfélaga eða ríkissjóðs, hafnarmannvirki, brýr lengri en 50m, raforkuvirki, síma og fjarskiptamannvirki og skíðalyftur. Tjón sem bætt hafa verið gegnum Viðlagatryggingar Íslands eru alls um 11,4 ma kr. milli áranna 2004 og 2014 mest vegna jarðskjálfta eða um 90% af heildarupphæðinni. Stærsta einstaka tjónið varð í svonefndum Suðurlandsskjálfta í maí 2008. Tjón vegna gjóskufalls er 4% og aur- og snjóflóð 4%[4]. Af þessum tölum að dæma hafa ekki orðið veruleg eignatjón, sem Viðlagatryggingar bæta, vegna vatnsflóða sem væru væntanlega innifalin í aur- og snjóflóðum.

Annað eignatjón einstaklinga eða fyrirtækja eru tryggð hjá almennum tryggingafélögum. Forvitnilegt er að líta á gögn sem til eru hjá tryggingafélögum er varða tjón vegna náttúruhamfara undanfarin ár. Sjóvá hefur gert tilraun til að rýna eigin rekstur sökum storma og óveðurs síðan 1990. Þar kemur fram að undanfarin ár hafa þessi tjón verið að aukast eins og sést á mynd 1[5]. Athyglisvert er að skoða árið 2015. Ljósbláa súlan sýnir 14. mars 2015 og búturinn ofan á henni sýnir restina af 1 ársfjórðungi 2015. Á myndinni sést að í fjölda tjóna og tjónabótum tengd þeim árið 2015 er þegar komið langt framúr flestum árum á undan utan 1991 en veður eins og 14. mars og 3. febrúar 1991 eru líkleg á einhverra áratuga fresti eða 4 – 6 á öld og því ekki talin fylgja hefðbundnu mynstri. Samkvæmt mynd 1 hefur Sjóvá greitt milljarða til tjónþola frá árinu 1990 og ekki er vafi að önnur tryggingafélög hafa gert hið sama en ekki fengust upplýsingar frá þeim varðandi málið. Síðan mætti minnast á að Bjargráðasjóður hefur bætt tjón vegna kals og óvenjulegrar veðráttu, vegna lengri gjaftíma, t.d. eftir veturinn 2012/2013 þegar mikið tjón varð vegna kals í túnum. Ekki er því ólíklegt að tjón vegna storma og óveðurs hér á landi hafi verið að aukast undanfarin ár en frekari rannsóknir vantar til að taka af allan vafa.

Mynd 1. Óveðurs og stormatjón hjá tryggingafélaginu Sjóvá 1990 – 2015. Heimild: Fjárfestakynning Sjóvá fyrsti ársfjórðungur 2015. www.sjova.is.

Mynd 1. Óveðurs og stormatjón hjá tryggingafélaginu Sjóvá 1990 – 2015. Heimild: Fjárfestakynning Sjóvá fyrsti ársfjórðungur 2015. http://www.sjova.is.

Af ofangreindum upplýsingum má draga þá einföldu ályktun að náttúruhamfarir tengdar aukinni stormatíðni hafa valda gríðarlegu tjóni á fólki og eignum á heimsvísu. Segja má að tjónið sem verður, hvort sem litið er til dauðsfalla eða eignaskemmda, gæti verið skilgeint sem hamfaraatburður í hagkerfi heimsins. Það væri í öllu falli forvitnilegt að athuga hvaða beinu áhrif náttúruhamfarir hefðu á hagkerfi heimsins, t.d. hagvöxt milli ára, en höfundur þessarar greinar leitaði ekki eftir rannsóknum eða heimildum þar að lútandi. Hægt væri að álykta sem svo, út frá þeim upphæðum sem um ræðir, að tjón vegna náttúruhamfara og þar með talið loftslagsbreytinga, hafi áhrif á hagvöxt. Einnig er nauðsynlegt að gera ítarlegri rannsóknir á tjónnæmi vegna loftslagsbreytinga t.d. út frá sviðsmyndum IPCC (Intragovernmental Panel on Climate Change). Tjónnæmi er ekki einvörðungu bundið við veðurfarsatburði heldur einnig félags- og efnahagslega þætti. Þess vegna er nauðsynlegt að ríki og ríkjasambönd komi sér saman um stefnu sem hefur sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Stjórnvöld allra ríkja verða að líta raunsætt á ofangreindar staðreyndir og þar með að taka alvarlega þær breytingar sem eru að verða á loftslagi á jörðinni. Áhrifin á hagkerfi heimsins eru nánast augljós enda virðist svo vera að hagvöxtur, og breytingar á honum, vera eini mælikvarðinn sem hægt er að nota til að þrýsta á breytingar. Þetta er örugglega ekki ný staðreynd fyrir stjórnvöld ríkja og ríkjasambanda en eftir þvi sem náttúruhamfarir hafa meiri áhrif á hagvöxt er líklegra að ríki og ríkjasambönd bregðist við með einhverjum hætti. Að ýmsu leiti má halda því fram að fundur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í París í desember næstkomandi (COP21) geti markað úrslitaáhrif á framvindu viðbragða við loftslagsbreytingum næstu áratugina. Það er ennþá tímasvigrúm til aðgerða en ef þjóðir heimsins ná ekki fram langtíma samkomulagi núna er ljóst að viðfangsefnið gæti orðið mjög erfitt úrlausnar, vegna eðli loftslagsbreytinganna, og kostnaður og mannfall muni halda áfram að aukast vegna náttúruhamfara.

[1] http://www.iii.org/issue-update/catastrophes-insurance-issues.

[2] ATLAS OF MORTALITY AND ECONOMIC LOSSES FROM WEATHER, CLIMATE AND WATER EXTREMES  (1970–2012). © World Meteorological Organization, 2014.

[3] http://www.iii.org/issue-update/catastrophes-insurance-issues.

[4] Ársskýrsla Viðlagatryggingar Íslands fyrir árið 2014. Sjá http://www.vidlagatrygging.is.

[5] Fjárfestakynning Sjóvá fyrsti ársfjórðungur 2015. http://www.sjova.is/view.asp?cat=1557