Landgræðsla og endurheimt lands lykill að mörgum heimsmarkmiðanna

BaskıFulltrúar Íslands sitja nú 12. aðildarríkjaþing samnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun, UNCCD COP12, sem fram fer í Ankara í Tyrklandi dagana 12. – 24. október.

Þetta þing er fyrsti stóri fundurinn á vegum samningsins eftir að heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun voru samþykkt í New York. Ljóst er að aðgerðir gegn hnignun lands og eyðimerkurmyndun tengjast mörgum heimsmarkmiðanna t.d. hvað varðar jafnrétti, fæðuöryggi, fátækt, vatn, líffræðilega fjölbreytni og loftslagsbreytingar. Eins eru veruleg tengsl milli flóttamannavanda samtímans og hnignunar lands. Það er að verða æ fleirum ljóst hversu margþætt virði heilbrigðra vistkerfa er. Meðal þeirra mála sem fá mikla umfjöllun á þinginu er heimsmarkmið nr. 15.3 um að ekki tapist meira land en það sem er endurheimt (land degradation neutrality) fyrir árið 2030 og hvernig megi innleiða slíkt markmið. Eins er rætt um viðfangsefni samningsins en hann er afmarkaður við þurrustu svæði jarðarinnar. Samlegð samninga Sameinuðu þjóðanna er einnig mikið rædd og hvernig vinna megi nánar að stöðvun landhnignunar og endurheimt landgæða í þágu loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni.

Búist er við því að um 100 ráðherrar og þjóðarleiðtogar sæki þingið næstu vikurnar og mun Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra verða meðal þeirra. Hann mun ávarpa þingið og taka þátt í hringborðsumræðum.

Fara á vef ráðuneytis hér