Orkustofnun leitar eftir athugasemdum við drög að reglum um niðurdælingu vökva í jörð

Hellisheidi_mengunOrkustofnun óskar eftir athugasemdum um drög að reglum um viðbúnað og viðbrögð vegna losunar á vökva í jörð eða það sem í daglegu tali er kallað niðurdæling.  Flestir höfuðborgarbúar og íbúar á Reykjanesi kannast við skjálfta vegna niðurdælingar og reglulega koma viðvaranir frá virkjununum vegna þeirra.

Jarðskjálftar í tengslum við losun vökva í jörðu um borholur geta haft áhrif á fjölmarga aðila og hagsmuni þeirra auk þess sem þeir hafa verið nokkuð í umræðunni undanfarin ár. Orkustofnun hefur því ákveðið að leita út í þjóðfélagið að athugasemdum við drögin og auglýsir þau hér með opinberlega auk þess sem þau hafa verið send stjórnsýsluaðilum og hagsmunaaðilum til umsagnar.

Þeir sem hafa athugasemdir við drögin eru beðnir um að senda stofnuninni athugasemdir sínar til Orkustofnunar fyrir 20. nóvember 2015 á netfangið os@os.is.

Orkustofnun mun svara öllum þeim sem gefa umsagnir með afstöðu stofnunarinnar við athugasemdum þeirra ef netfang eða heimilisfang viðkomandi kemur fram í póstinum. Í því skyni að upplýsa frekar um málið og auðvelda skilning á þeirri hugsun sem býr á bakvið reglurnar birtir Orkustofnun jafnframt á heimasíðu sinni ítarefni og margvíslegar upplýsingar um losun vökva í jörðu og áhrif losunar á jarðskjálftavirkni, um aðdraganda þess að ráðist var í gerð reglnanna og um stjórnsýslu vegna nýtingar jarðhita.

Setning reglnanna hefur þrjú meginmarkmið.

Í fyrsta lagi að nýtingaraðilar jarðhita sem hyggjast losa vökva aftur djúpt í jörðu um borholur leggi mat á jarðskjálftahættu vegna losunar á vökva í jörðu áður en ráðist er í framkvæmdir,

í öðru lagi að í því ferli hugi þeir að því hvernig best sé að draga úr líkum á aukningu á jarðskjálftavirkni vegna losunarinnar.

Í þriðja lagi að þeir komi sér upp viðbragðsáætlun sem hægt verði að grípa til ef jarðskjálftar verða við eða vegna losunarinnar.

Í því skyni að skýra nánar einstök efnisatriði í regludrögunum og gefa dæmi um atriði sem rekstraraðilar jarðhitanýtingar geta haft í huga við undirbúning og framkvæmd losunar vökva í jörðu um borholur hefur Orkustofnun jafnframt unnið leiðbeiningar fyrir reglurnar. Ekki ber þó að skilja sem svo að leiðbeiningarnar setji kvaðir á leyfishafa eða aðra þá sem fylgja reglunum.

Miðað er við að reglurnar marki kröfur um undirbúning og framkvæmd losunar í jörðu, áhættumat og viðbragðsáætlun ef losun leiðir af sér örvaða jarðskjálftavirkni, og um samskipti við stjórnvöld, hagsmunaaðila og almenning. Markmið reglnanna er ekki að setja á laggirnar viðbótareftirlit heldur að tryggja að orkufyrirtæki vandi undirbúning að losun í jörðu og skipuleggi viðbúnað og viðbrögð ef losun leiðir til, eða er líkleg til að leiða til, örvunar á skjálftavirkni. Orkustofnun leggur áherslu á að orkufyrirtækin bera ábyrgð á starfsemi sinni og áhrifum hennar á umhverfi sitt og samfélag.

Í samræmi við ákvæði laga og hefðbundin viðmið stjórnsýslu munu reglur þessar ekki leiða til breytinga á lögbundnum kröfum gildandi virkjana- og nýtingarleyfa eða sambærilegra heimilda sem aðilar hafa til nýtingar á jarðhita, heldur skilgreina þær kröfur sem settar verða við útgáfu nýtingar- og virkjanaleyfa vegna jarðhita frá gildistöku. Orkustofnun mun þó hvetja handhafa gildandi leyfa til að styðjast við reglurnar við undirbúning og framkvæmd losunar á vökva í jörðu um borholur.

Losun jarðhitavökva í jörðu er mikilvægur þáttur við nýtingu jarðhita, annars vegar til förgunar vökva og hins vegar til að sporna við þrýstingslækkun í jarðhitakerfum. Í sumum tilfellum er losun skylda samkvæmt nýtingarleyfi, virkjunarleyfi og/eða starfsleyfi og stunduð frá upphafi reksturs. Í öðrum tilfellum hefur verið gripið til hennar eftir að rekstur hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Víða er jarðhiti þó unninn án losunar í jörðu. Rannsóknir á losun vökva í jörðu á jarðhitasvæðum hafa sýnt að á virkum jarðskjálftasvæðum á Íslandi örvar hún nokkra smáskjálftavirkni sem finnst yfirleitt lítið á yfirborði. Í einstökum tilvikum eru talsverðar líkur á að aukinn vökvaþrýstingur vegna losunar hafi hleypt af stað stærri skjálftum.

Fara á vefsíðu Orkustofnunar hér