Batagaika gígurinn stækkar ört og kolefni streymir út í andrúmsloftið

Í Síberíu er að myndast gígur sem stækkar svo ört að hann stefnir í að valda hættulegum áhrifum.  Á svæðinu nálægt Yana árfarveginum er undirlendi þar sem sífreri þiðnar óðum.  Þar hefur myndast gríðarlega stór hola eða gígur í jörðinni sem kallast Batagaika gígurinn.  Þessi gígur er einn stærsti í heimi eða um 1 km langur og 86 metra djúpur og stækkar ört.  Gígar sem þessir eru á fleiri stöðum og eru kallaðir „megaslump“.  Íbúar í nágrenni slíkra gíga er almennt hrætt við þetta fyrirbæri en vísindamenn telja þetta mjög áhugavert í alla staði.  Slíkir gígar geta nefnilega gefið vísbendingar um það hvernig loftslag var áður í heiminum.  Á sama tíma gefur stækkunin á gígum sem þessum innsýn inn í áhrifin af loftslagsbreytingum í heiminum og hversu viðkvæm svæði eins og sífrerar eru í raun, en með hækkandi hitastigi, bráðna sífrerar eins og þessi í Síberíu.

Það eru til tvær tegundir af svæðum þar sem sífreri er almennt í jörðu.  Í fyrsta lagi svæði sem áður voru undir íshellu og eru leifar frá síðustu ísöld.  Í öðru lagi eru þetta svæði eins og við Batagaika gíginn þar sem jörð hefur verið frosin og þá ísinn í raun fastur undir mörgum jarðlögum.  Batagaika gígurinn opnar því upp svæði og jarðlög sem áður voru frosin og hafa myndast fyrir þúsundum ára.  Líta verður til að á síðustu 200.000 árum hefur loftslag á jörðu tekið miklum breytingum.

Fyrstu ummerki um að Batagaika gígurinn taki að myndast er í kringum 6. áratuginn og þá með mikilli skógareyðingu á svæðinu og þar með hættu trén að skýla svæðinu á hlýjum sumarmánuðum.  Með sólarljósinu hlýnar landsvæðið upp í stað þess að kuldinn í jörðinni haldist í skjóli skógarins.  Í framhaldinu fer jörð að þiðna á svæðinu, við hlýnun yfirborðsins samkvæmt Julian Murton frá Háskólanum í Sussex í Bretlandi.  Efri lög jarðvegsins þiðna og síðan neðri lögin þar sem sífrerinn sjálfur hefur verið fastur.  Um leið og ísinn er berskjaldaður heitara loftslagi, þiðnar hann.  Lögin sem koma svo í ljós eru vitnisburður um loftslag fyrri tíðar.  Vísindamenn vakta nú svæðið og gíginn og var ein rannsókn birt um þetta í The journal Quaternary Research nú í febrúar 2017.  (sjá hér)., en þar var komist að þeirri niðurstöðu að með því að rannsaka þau jarðlög sem nú koma í ljós á svæðinu vegna þiðnunar muni það gefa upplýsingar um loftslag fyrir allt að 200.000 árum síðan.  Á þessum tíma hefur loftslag á jörðinni sífellt breyst og ýmist verið hlý tímabil þar sem jöklar hopa og köld tímabil þar sem jöklar stækka og breiða sig yfir landsvæði.  Á Batagaika svæðinu ættu því að finnast upplýsingar um mjög fáheyrða jarðfræðisögu ásamt upplýsingum um þróun umhverfis á löngum tíma, sér í lagi á svæðinu í norður Síberíu sem lítið hefur verið rannsakað.  Næsta verkefni segir Murton því vera að safna gögnum úr jarðlögum og bora til þess að sjá samfellda sögu jarðlaga og fá þar með ártöl og tímabil rétt.  Síðan má bera þau gögn saman við önnur til dæmis þau gögn sem safnast hafa saman við ísboranir.  Takmarkið er að sjá hvernig loftslagið hefur breyst frá síðustu ísöld, í Síberíu og hvernig það var á þeim tíma.  Sjá hlýju tímabilin og kuldatímabilin og hvernig þróunin var í raun þarna í norðri.  Þetta er mjög mikilvægt þar sem loftslagssaga í norður Síberíu er mjög lítið rannsökuð með tilliti til breytinga á umhverfi, en með því væri hægt að spá fyrir um svipaðar breytingar í framtíðinni.

Það má nefna að fyrir 125.000 árum síðan var hlýnandi loftslag og hitastigið þá var nokkrum gráðum hlýrra en það er nú.  Ef hægt er að skilja hvernig vistkerfin voru á þeim tíma þá gæfi það vísbendingar um hvað er í vændum nú þegar loftslag fer aftur hlýnandi.  Ef ferlið verður svipað nú á svæðum eins og þessum þá má búast við miklu fleiri slíkum gígum og að ný vatnasvæði myndist víða.   Jafnvel ný landsvæði koma í ljós og nýtt landslag segir Murton.  Það verður að hafa í huga að það er ekki langt í að áhrif þessa komi í ljós enda er þróunin hröð og mun hafa áhrif á loftslag jarðar.

Frank Gunther hjá Alfred Wegener stofnuninni í Potsdam í Þýskalandi og hans félagar hafa fylgst með svæðinu í um áratug og notast við loftmyndir úr gervitunglum til að mæla breytingarnar.  Breytingar þýða að gígurinn verður dýpri með hverju árinu sem líður.  Á þessum áratug hefur gígurinn stækkað um 10 metra á ári.  Þegar ár eru hlýrri en ella þá hafa breytingarnar verið enn hraðar og meiri og allt upp í 30 metra á ári.  Gunther birti upplýsingar á ráðstefnu American Geophysical Union í desember 2016 (sjá hér).  Hann telur ástæðu til að ætla að gígbarmarnir muni ná til næsta dals á svæðinu nú á sumarmánuðum.  Það þýðir aftur enn meiri breytingar og hraðari.

En það er ástæða til að hafa áhyggjur af fleiru þegar kemur að áhrifum þessarar þróunar.  Mikið af þeim jarðlögum sem nú eru að þiðna eru síðan á síðustu ísöld.  Slíkur jarðvegur geymir gríðarlegt magn af lífrænu efni þar með talið kolefni sem hefur verið frosið þar fast og lokað niðri í þúsundir ára.   Áætlað er að kolefni sem geymt er þannig í jörðu á sífrerasvæðum sé jafnmikið og nú í andrúmsloftinu segir Gunther og það er alveg ljóst að það mun ekki hægja á þessari þróun.  Eftir því sem meira að svæði þiðnar, því meira af kolefni fer út í andrúmsloftið.  Agnirnar sem losna upp úr sífreranum innihalda líka metan og kolefnisdíoxíð.  Þessar gróðurhúsalofttegundir sem viðbætast, valda því enn meiri hlýnun loftslags, miðað við það sem nú er.  Þessi þróun ógnar innviðum og það er engin verkfræðileg lausn í sjónmáli til þess að stoppa hana, segir Gunther. Ekkert bendir til þess að hægjast muni á þessari þróun sem verður meiri með hverju ári sem líður.   Þetta þýðir því að framtíð Síberíu er vægast sagt óstöðug.

Sjá grein á BBC hér