Hver er raunverulegur kostnaður af ferðamennsku á Íslandi

Höfundur: Vilborg G Hansen, landfræðingur

Eftir því sem ferðamönnum fjölgar á Íslandi, átta menn sig betur og betur á áhrifum þeirra, ekki bara á efnahaginn sem hefur verið mjög jákvæður, heldur ekki síst innviði samfélagsins í heild sinni sem og náttúru og mannlíf.  Lengi hefur verið rætt um hvaða leiðir ætti að fara til þess að ná inn fjármunum í ríkissjóð af þessum stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar en hingað til lítið orðið af framkvæmdum í þeim efnum svo vel sé við unað.  Gert er ráð fyrir að þjónustu og skatttekjur af ferðaþjónustunni í heild fari úr 70 milljörðum árið 2016 í 90 milljarða árið 2017.  Ef við vitum svona nokkurn vegin tekjurnar af ferðmennsku þ.e. ávinninginn í tölum, þá er komið að mikilvægri spurningu sem hefur með allt hitt að gera.  Hver er raunverulegur kostnaður vegna viðbótarálags á innviði samfélagsins?  Hefur verið gert heildar kostnaðar-ávinnigs greining (CBA – cost-benefit analysis) á ferðamennskunni í heild sinni og hve mikið ríkið þarf raunverulega að ná inn í tekjur vegna aukaálags á innviði, samfélag og náttúru?  Ef ekki er búið að gera slíkt mat þá er mjög mikilvægt að það sé gert.   Það er í mörg horn að líta þegar kemur að því að meta áhrif á innviði og er listinn hér að neðan alls ekki tæmandi.

Áhrif á dæmigerða innviði

Gatnakerfi (fjöldi bílaleigubíla, hópferðabílar, flutningar vegna aðfanga)

Loftmengun vegna aukins fjölda bifreiða, hópferðabíla

Heilbrigðiskerfi, bráðadeild, spítali

Innflutning á eldsneyti (mun meira flutt inn) -ástæða til að rafbílavæða bílaflotann og nota innlenda orku

Húsnæðismarkað (Airbnb íbúðir sem annars væru fyrir íbúa) á sama tíma og skortur er á lóðum og húsnæði fyrir íbúa

Bílastæði í borginni þegar bílastæðum fer fækkandi, götur þrengdar en fleiri bifreiðar á ferð og hópferðabílar að hluta til vegna ferðamanna

Björgunarsveitir sem starfa í sjálfboðavinnu

Náttúra og umhverfi, aukið álag á vatnsból, úrgang, landnotkun vegna ruslahauga o.s.frv.

Ferðamönnum fjölgar sem aldrei fyrr

Mynd: Vilborg G Hansen- Nauthúsagil

Samkvæmt Ferðamálastofu var heildarfjöldi erlendra ferðamanna hérlendis um 1.8 milljón á síðasta ári 2016 og þá var 39% aukning frá árinu 2015.  Samkvæmt frétt RÚV og greiningu Íslandsbanka, þá er gert ráð fyrir 2.2 milljónum ferðamanna til landsins nú árið 2017 sem er 30% fjölgun frá fyrra ári.  Bílaleigur keyptu til að mynda um 9.000 bíla til landsins sem þýðir mikið viðbótarálag á samgöngukerfið.

Aðeins í febrúar einum nú árið 2017 fóru 148.000 ferðamenn frá landinu samkvæmt tölum Ferðamálastofu.  Gagnrýna má þó þessar tölur þar sem þær eru tölur frá landinu sem geta líka átt við þá sem fara beint í gegn án þess að stoppa raunverulega á landinu.  Mikilvægt er þó ekki sé nema að fá raunverulegar tölur ferðamanna sem ferðast um landið.  Íslendingar einir og sér eru nú í kringum 340 þúsund.  Ef við hugsum okkur að íbúafjöldinn í landinu aukist í einum mánuði  um 148 þúsund, hvaða áhrif hefur það á kostnað við innviðina?  Hvað þarf að gera og græja til þess að innviðirnir þoli slíkt álag.  Þetta er tæplega helmingsfjölgun íbúa landsins, skyndilega í febrúar!

Það þarf ekki að fjölyrða hér um allt sem útaf stendur þegar kemur að rekstri og viðhaldi samgöngukerfis og heilbrigðiskerfis.  Ef ekki hefur farið fram sérstakt CBA á því hver raunkostnaður er af ferðamennsku þá verður að fara í þá vinnu.  Maður verður að gera ráð fyrir því að stjórnvöld hafi gert slíkt mat hið minnsta út frá íbúafjölda og metið kostnað við rekstur innviða og viðhalds út frá einhverjum fjöldatölum eða hvað?

Ef stjórnvöld ætla að taka góðar ákvarðanir þá verða þær aldrei betri en þau gögn sem liggja að baki ákvörðunum.  Við eigum fjöldann allann af færum vísindamönnum og öðrum sérfræðingum þegar kemur að því að rannsaka og reikna.  Sumt er augljóst en þó er betra að hafa haldbærar tölur og rannsóknir.  Lengi hefur verið bent á að lítið sem ekkert skipulag og eða stefnumótun hafi farið fram hjá stjórnvöldum hvort sem er hjá ríki eða borg/bæjarfélögum, þegar kemur að ferðamennsku.  Sú staðreynd birtist í öllum þeim vandamálum sem við nú stöndum frammi fyrir í dag.  Sveitarfélög virðast ekki fá til sín fé þrátt fyrir að verða fyrir mjög miklum kostnaði og ágangi og enn er karpað um hverjir skuli setja upp salernisaðstöðu svo eitthvað sé nefnt sem þjónustar eina af okkar frumþörfum og ætti ekki að þurfa að ræða frekar.  Í þessu samhengi þá fréttist af heilum rútum sem stoppa og sést á eftir hópum fólks hlaupa upp í brekkur jafnvel til að gera þarfir sínar þar, á vegi við bæi, í rjóðrum og öðrum þeim stöðum sem mögulegt er.  Ferðamenn tjalda á umferðareyjum, sofa á bílastæðum og fleiri álíka stöðum þrátt fyrir að stutt sé í tjaldsvæði.  Er ekki allt í lagi að segja bara við viljum ekki ferðamenn sem vilja ekki borga fyrir sig og ganga um landið okkar eins og þeir komu að því.  Bera virðingu fyrir land og þjóð.  Hin hliðin er að sjálfsögðu okkar þegar fólk hreinlega finnur ekki aðstöðu til að gera þarfir sínar.

Það er alls ekki i lagi að sleppa heilu Kötluflóði yfir landið, þó einhverjir geti grætt heilan helling, án þess að vita hvernig og hvort innviðir þola flóðið og hvaða áhrif það hefur á íbúa. Við gerum áætlanir þegar kemur að náttúruhamförum og reiknum út kostnaðinn sem þær geta valdið.  við gerum umhverfismat þegar við byggjum álver, leggjum raflínur, leggjum nýja vegi o.s.frv.  Það þarf líka að gera áætlanir og greiningar um fjölgun ferðamanna og reikna út kostnaðinn við þá fjölgun og láta fara saman fjölgun og fjármagn og þá er ég ekki bara að tala um krúttlega göngustíga og brýr.   Það gekk fljótt fyrir sig í sjómannaverkfallinu nú fyrir skömmu þegar innt var eftir því að reikna út kostnaðinn sem verkfallið olli ríkissjóði.  Það ætti því ekki að vera svo erfitt að fara í þessa útreikninga af heilum hug.

Það er ekki endilega slæmt að fá færri ferðamenn sem innviðir landsins ráða við, því þá að minnsta kosti getum við þá tekið vel á móti þeim sem hingað koma og unað vel við þótt einhverjir græði aðeins minna!

Það er alveg ljóst að 2.2 miljónir ferðamanna hafa áhrif á ferðalög landsmanna innanlands.  Það að landsmenn geti notið náttúrunnar og heimsótt helstu náttúruperlur í fámenni er ekki hægt lengur eins og áður við þurfum að deila þeim með fjöldanum.

Það er allt breytt hvort sem okkur líkar það betur eða verr!