Umhverfisstofnun fellst ekki á sex mánaðafrest til Sameinaðs Silikons hf

Ekki verður fallist á það af hálfu Umhverfisstofnunar að Sameinað Silikon hf (United Silicon) fái sex mánaðafrest til þess að bæta úr frávikum vegna mengunar frá verksmiðjunni.  Telur stofnunin að í varúðarskyni verði að stíga markviss skref til þess að ná tökum á rekstri verskmiðjunnar þegar kemur að mengunarvörnum.

Sameinað Silikon hf hafði áformað að það skyldi fara fram úttekt í kjölfar ítrekaðra frávika varðandi reykhreinsun og ólykt þar sem um 300 kvartanir hafa borist frá íbúum á þeim aðeins fjórum mánuðum sem verksmiðjan hefur starfað.   Telur Sameinað Silikon hf kröfur Umhverfisstofnunar um að fá óháða verkfræðiúttekt og takmörkun á starfsemi verksmiðjunnar vera íþyngjandi.  Umhverfisstofnun bendir hins vegar á að vegna umfangsmikilla og endurtekinna rekstrarvandamála sé umfang eftirlits með verksmiðjunni fordæmalaust en reksturinn hefur sérstöðu þegar kemur að eðli, umfangi framleiðslu og nálægð við íbúabyggð.  Umhverfisstofnun telur jákvætt að unnið sé að því að greina vandamál í rekstrinum og settar verði fram úrbótatillögur bæði með samstarfi við framleiðanda mengunarvarnarbúnaðar sem og öðrum utanaðkomandi sérfræðingum.

Stofnunin hefur óskað eftir að fá allar upplýsingar úr þeirri greiningarvinnu um leið og þær liggja fyrir.  Umhverfisstofnun telur þó ekki nægilegar upplýsingar komnar fram til að falla frá kröfum sínum.  Stofnunin mun því á næstu vikum leita eftir tilboðum í verkfræðilega úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar og verður rekstraraðili upplýstur um umfang hennar áður en af verður.   Þar til slík úttekt liggur fyrir verður því rekstur fyrirtækisins takmarkaður  við rekstur eins ljósbogaofns sbr. 3.tl. l. mgr. 26. gr.laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.   Kostnaður við úttektina verður síðan innheimtur hjá rekstraraðila í samræmi við 27.gr. sömu laga.