Gjaldtaka og náttúrusýn

Höfundur: Edward H. Huijbens, landfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri

Enn koma upp tilvik þar sem einstaka landeigendur telja sig geta rukkað ferðafólk sem á leið hjá eða um land þeirra, án þess að þeir veiti þeim neina þjónustu. Burtséð frá lagalegum álitamálum sem kunna að vera um þessa iðju, þá vil ég í þessum greinarstúf velta upp hvaða hugmyndir þessir landeigendur gera sér um ferðafólk, ferðaþjónustu og náttúru landsins.

Hvað varðar ferðafólkið, þá vil ég meina að þeim sé sýnt viðringarleysi með þessari iðju. Það var siður sk. „þjóðvegabaróna“ á miðöldum að rukka ferðafólk á leið um Evrópu fyrir það eitt að fara hjá. Borið var við vernd, það er að sömu barónar leggðust ekki á vegfarendur. Okkar þekktasti slíkur var Axlar-Björn á sunnarverðu Snæsfellsnesi. Barónar þessir nýttu sér aðstöðu sína gagnvart fólki fjarri heimahögum og skeyttu engu um tilgang, þarfir og mikilvægi ferðar fyrir þessu fólki. Plagsiður Axlar-Bjarnar og sama virðingarleysi fyrir gestum virðist vera að taka sig upp í íslenska ferðaþjónustu hagkerfinu og nú borið við því sem talið er efst í huga ferðafólks, það er öryggi og náttúruvernd.

Hvað varðar ferðaþjónustuna, þá vil ég meina að landeigendur átti sig ekki á um hvað hún snýst. Þeir landeigendur sem vilja taka upp gjaldtöku fyrir aðgengi bera því iðulega við að þeir ætli að nýta féð sem þannig aflast til að byggja upp aðstöðu og innviði, sem munu þá gagnast ferðafólkinu og vernda náttúru landsins. Með öðrum orðum þá ætla þessir landeigendur sér að stunda ferðaþjónustu. En það að ætla að rukka fólk fyrirfram um framtíðarþjónustu er grundvallar misskilningur á eðli ferðaþjónustu. Virði hennar birtist í því augnabliki sem hennar er neytt. Ef enginn er þjónustan er ekkert virði og þar með ætti vart að eiga sér stað nein verðmyndun. Með öðrum orðum, þá kæmust aðrir  frumkvöðlar í landinu vart upp með að rukka fyrir eitthvað sem ekki er í boði. Ég gæti vart selt óveitta máltíð á veitingastað sem ég ætla mér að opna á næsta ári? Eða þá sæti í ferð sem farin verður þegar ég hef safnað nægu fé fyrir rútu. Virði ferðaþjónustu birtist í því augnabliki sem hennar er neytt. Ef enginn er þjónustan er fólki ekki stætt á að rukka.

Eðlilegra væri ef landeigendur, líkt og aðrir sem hyggja á rekstur í landinu, safni sér hlutafé, fái lán eða nýti eigið fé til uppbyggingar. Þegar innviði og þjónusta eru komin þá er hægt að rukka og þannig skapa tekjur sem greiða niður kostnað við fjárfestingu og/eða skila arði til hluthafa. Bygging stíga, stæða fyrir bíla, salerna og svo framvegis er allt þjónusta sem sjálfsagt er að rukka fyrir, enda eru þessi innviði til þess fallin að auðvelda upplifun af okkar náttúruperlum og leyfa þeim að njóta sín fyrir það sem þær eru, ef vel er staðið að hönnun innviðanna. Þannig myndast hið eiginlega virði þjónustuinnviðanna. Það er gegnum hve mögnuð sú upplifun er sem þau veita aðgengi að og þjónustu við. Ef landeigendur hafa trú að að upplifun af náttúruundrum á þeirra landi sé einhvers virði ættu þeir ekki að vera smeykir við að ná sér í fé til að standa að vandaðri uppbyggingu.

Þá er komið að þessu með náttúru landsins og undur hennar sem helst laða hér að ferðafólkið. Kjarni málsins er að það á enginn náttúru Íslands. Hugmyndir um að rukka fyrir það eitt að mega fara um landið, eru ekki aðeins lagalega vafasamar, heldur siðferðilega vafasamar. Fallegir sögulegir staðir sem myndast hafa við samspil elds og ísa í allt að 10.000 ár á enginn í sjálfu sér. Náttúran er uppspretta gilda í okkar samfélagi langt umfram það sem hægt er að gera skil í ársreikningum eða uppgjörum fyrirtækja. Máli verður aldrei slegið á þessi gildi og enginn getur haldið fram eignarhaldi á uppsprettu þeirra. Þannig virðist ríkja einhver grundvallar misskilingur hjá sumum landeigendum. Þeir virðast telja að þeir geti rukkað fyrir skynjun, upplifun, örvun og sýn sem ferðaðfólk öðlast við að komast í tæri við undur náttúru. Það væri sannarlega illa fyrir okkur farið sem manneskjum ef við teljum okkur geta sett peningavirði á slíkt. Einnig er það reginskissa að halda að þó maður beri titilinn „landeigandi“, þá geti maður átt náttúru sem á landinu er.

Með virðingu fyrir ferðafólki og skilning á þessu eðli náttúru ætti fólki að reynast siðferðilega ómögulegt að rukka fyrir ekkert. Annað er svo að rukka fyrir þjónustu sem er sannarlega veitt.