Eldstöðin Katla

Mynd: Kjartan Guðmundsson, Vík 1918 – Kötlugos

Höfundur: Vilborg G Hansen, landfræðingur

Katla er sú eldstöð sem hefur verið í gjörgæslu frá 1999 þegar kvikuinnskot fóru að kræla á sér undir Eyjafjallajökli en skjálftar hafa verið allnokkrir í Mýrdalsjökli undanfarin misseri.  Meðaltalshlé á milli Kötlugosa er um 50 ár og síðast var búist við gosi í kringum 1960.  Katla gaus síðast árið 1918 og er goshlé því orðið 99 ár.  Það má því búast við að uppsöfnun kviku sé orðin allnokkur.  Katla er eitt af þekktari eldfjöllum landsins, en hún er virk megineldstöð.
Löng goshlé eins og nú geta boðað stærri gos en áður hafa orðið.  Eldstöðin er hluti af mun stærra eldstöðvakerfi sem er um 80 km langt og um 30 km breitt.  Breiðast nær það frá Mýrdalsjökli í suðri, norður fyrir Eldgjá í norðri.  Gosin í Kötlu eru öflug þeytigos með gjóskufalli, jökulhlaupum, eldingum og jarðskjálftum.  Lengd gosanna hafa verið frá 2 vikum upp í 5 mánuði og geta þau legið niðri um tíma og byrjað aftur af miklum krafti.  Hraun hafa ekki myndast í Kötlugosum á síðustu 1000 árum en gosin hafa oft valdið þungum búsifjum vegna mikils gjóskufalls og jökuhlaupa og er hún sannkölluð vá á hamfara- og áhrifasvæði sínu.  Byggð hefur lagst af t.d. innst í Skaftártungum, einir 50 bæir eftir gosið 1918.
Gjóskufallið er oftast mest fyrstu dagana en getur orðið hvenær sem er á gostímanum.  Gjóskufallið getur varað svo klukkutímum skiptir og á meðan getur orðið algert myrkur.  Í gosunum 1823 og 1860 var gjóskufallið lítið, en stærst á sögulegum tíma úr gosinu 1755.  Gjóskumökkurinn getur borist með meira en 60 km hraða á klst og dæmi eru um 10 cm þykkt lag í 15 km fjarlægð.  Í gosinu 1755 varð þykkt gjóskulags í Skaftártungum í 20-25 km fjarlægð um 30 cm.     Í sterkum vindum getur gjóska borist út um allt land og dæmi eru um talsvert af  gjóskufalli t.d. í Árnessýslu, Borgarfirði, við Faxaflóa og á Djúpavogi. En einnig eru til heimildir um að gjóska hafi borist til Færeyja, Noregs og Hjaltlands.
Eldingar hafa fylgt öllum Kötlugosum og það eina á síðari öldum sem hefur orðið fólki að bana.  Þær eru algengar í gosmekkinum þar sem vatn og kvika ná saman.  Þær fylgja gosmekkinum og gjóskufallinu undan vindi, jafnvel tugi kílómetra og er aðalhættan undir mekkinum.  Ein af þeim hættum sem fylgja eldgosum eru eiturgufur sem berast með gosefnum, en áhrifin eru yfirleitt mest í nánasta nágrenni gosstöðvanna.  Þó geta vindar borið þær langar leiðir.  Þetta eru flúorsýra, koldíoxíð og brennisteinsoxíð.
Fyrirboði Kötlugoss eru yfirleitt jarðskjálftar sem finnast í Vík og nágrenni.  Þessir skjálftar hafa fylgt öllum Kötlugosum sem vitað er um.  Þessir fyrirboðar hafa oftast orðið 1-8 klst áður en sjálft gosið hefst og eru af stærðinni 5 eða stærri.
Vísbendingar eru um þetta frá fyrstu gosum sem menn sáu snemma á 10. öld.  Þrjú gos, eitt samfara miklu eldgosi á auðu landi þar sem nú er Eldgjá. Fram til upphafs 16. aldar kemur eldur upp 7-8 sinnum en um þau gos er fremur lítið vitað.  Kötlugosin raða sér þannig: 1580, 1612, 1625, 1660, 1721, 1755, 1823, 1860 og 1918.   Stærsta gosið sem vitað er um eftir 11. öldina kemur upp árið 1755. Þá spúði eldfjallið a.m.k. 1,5 rúmkílómetrum af gjósku, en það rúmmál er 50% meira en kom upp úr Heklu 1947, þar sem kom að miklum hluta hraun og meira en tvöfalt því magni sem upp kom í Kötlugosinu 1918.
Yfirleitt hefst Kötlugos eftir harða skjálftahrinu eins og áður sagði, oftast samdægurs eða daginn áður en gosið sést og tekur meðalgos um hálfan til einn sólarhring að komast upp úr jöklinum sem víða er 300-600 m þykkur og jafnvel þykkari á sumum stöðum.  Lítil gos ná því yfirleitt ekki upp eða þurfa nokkra daga til þess að bræða sig í gegnum íshettuna.  Kötlugos eru yfirleitt öflugust fyrst þar sem rís gjóskublandinn gosmökkur að miklu leiti vatnsgufa eins og sást í gosinu í Eyjafjallajökli 2010.  Gösmökkurinn fer í a.m.k. 10-15 km hæð og gjóskufallið er verulegt og ræðst af vindhraða og vindátt.  Gjóskan getur valdið verulegu tjóni á gróðurlendi og hættu vegna efnamengunar.  Oft er mikið um eldingar í mekkinum og má líkja sjónarspilinu við gosið í Vatnajökli 1996 og 1998 í Gjálp og Grímsvötnum.
Vatnssöfnun hefst áður en Kötlugos koma fram.  Gosefnin bræða mikinn ís eins og menn uppgötvuðu í Gjálpargosinu 1996, en þar streymdu 5.000 tonn af vatni á sekúndu frá eldstöðinni.  Flóðin ryðjast af stað skömmu eftir að gosið sést, hugsanlega nokkrum klukkustundum eða innan við sólarhring og brýtur mikinn ís úr jarðri jöklulsins.  Vatnið er uppfullt af gjósku og nánast því að vera eðjuhlaup sem skríður fram á miklum hraða eða a.m.k. 20-30 km á klst. Þegar líður á hlaupið verður það vantskenndara og líkara Skeiðarárhlaupi eins og við þekkjum þau, en rennslið mun meira.  Yfirleitt gengur meginhlaupið yfir á ca. 10-20 klst og að magni til á bilinu 100.000 – 200.000 rúmmetrar á sek ca. 2-4 sinnum rennslið í hlaupinu eftir Gjálpargosið.  Minni hlaupgusur geta svo fylgt síðar.
Með meginhlaupinu til sjávar berst mikið magn af seti sem getur verið margra metra þykkt og því færist ströndin fram svo kílómetrum skiptir.  En váin er líka sú að þegar meginhlaupið skellur í sjó fram geta orðið flóðbylgjur.  Árið 1721 varð eitt mesta gjóskugos Kötlu með gífurlega stóru jökulhlaupi sem kom af stað mikilli sjávarbylgju. Sú sjávarbylgja olli tjóni í Vestamannaeyjum og tók einnig með sér bæ við Hjörleifshöfða og eyddi gróðurlendi þar.

Vatnasvið Kötlu eru við Markarfljót, Mýrdalssand og Sólheimasand.  Jökulhlaupanna má því vænta undan Kötlujökli og fram úr Krika út á Mýrdalssand, undan Sólheimajökli og út á Sólheima og Skógarsand og undan Entujökli út í farveg Markarfljóts.  Mestar líkur eru á hlaupi niður Mýrdalssand en aðeins hefur fundist merki um eitt hlaup niður Markarfljót fyrir 1600 árum.   Kötluhlaup hafa mótað allan Mýrdalssand í tímans rás.  Hlaupin hafa rofið gróðurlendi, kaffært það, hrakið fólk úr byggðum, étið af landi í Álftaveri og hlaðið upp setbunkum t.d. austan Víkur þ.e. Höfðabrekkujökull 1755.
Eyjafjallajökull er megineldstöð og hefur verið talin áföst við Kötlukerfið.  Fjallið er 1666 m há elkeila sem gaus 1821-1823 og nú síðast 2010. Þegar gosið varð 1821-1823 hófst Kötlugos um leið og eldsumbrotunum sleppti 1823 í Eyjafjallajökli.  Einnig eru vísbendingar um samfallandi gos í þessum eldstöðvum árið 1612.
Á undanförnum árum hafa miklar hræringar verið undir Mýrdalsjökli og jörð þar skolfið.  Búist hefur verið við gosi í Kötlu um nokkurt skeið og eldstöðin vöktuð frá 1999 og nú nýverið sett á viðbúnaðarstig.  Jarðhiti hefur aukist í jöðrum öskjunnar sem sést á fjölda ketilsiga.  Um árabil hefur einnig orðið vart við útstreymi gastegunda í Gígjökli í Eyjafjallajökli.  Engin leið er að spá nákvæmlega fyrir um eldgos hvað þá að tímasetja slíkan atburð.  Atburðarrás getur hafist og jafnvel endað aftur, en þar sem búist hefur verið við Kötlugosi um langa hríð verður að teljast miklar líkur á því að gosið í Eyjafjallajökli 2010 og hræringar undanfarna mánuði geti leitt af sér Kötlugos í náinni framtíð.
Það er kaldhæðisleg staðreynd að þrátt fyrir að byggð hafi dregist saman vegna gosa og hlaupa á þessu svæði erum við háð hlaupunum sem því fylgja.  Það er nokkuð víst að ef ekki kemur gos bráðlega með myndarlegu hlaupi af aur og sandi, mun sjór éta upp standlengjuna og sandana á Suðurlandi.  Vík byggir í raun tilveru sína á framburðarefni úr Kötluhlaupum.  Ef strandlengjan skerðist, skerðist um leið landhelgin okkar.  Kötlugos eru því tvíeggja sverð og hluti af því að við lifum hér á þeirri gjöf sem náttúran gefur okkur og erum henni jafnframt svo háð.  Aðstæður hafa þó breyst nokkuð með tilkomu ferðamennsku og váin frá eldstöðinn því mikil þegar kemur að fólki á ferð um svæðið og nágrenni þess.
Viðbrögð íbúa vegna eldgoss í Mýrdalsjökli og jökulhlaups má sjá hér á vef Almannavarna.

Heimildir:

Almannavarnir

Grein eftir Ara Trausta Guðmundsson

Eftir Helga Björnsson og Finn Pálsson á Jarðvísindastofnun Háskólans

Fyrir áhugasama sem vilja kynna sér nánar íslensk eldfjöll má benda á bókina hans Ara Trausta Eldgos 1913-2011