Viðhorf Íslendinga til fjölda og álags vegna ferðamennsku

Höfundur: Vilborg G Hansen, landfræðingur

Fyrir 16 árum síðan útskrifaðist ég sem landfræðingur og þá með skipulag og stefnumótun í ferðamennsku sem aðalfag.  Bs ritgerðin mín fjallaði einmitt um viðhorf heimamanna gagnvart  ferðamönnum þ.e. þolmörk heimamanna gagnvart ferðamönnum.  Þetta var árið 2001og lítið var farið að fjalla um þennan vinkil á áhrifum ferðamennsku enda munurinn á fjölda ferðamanna þá og nú töluverður eins og allir vita.  Þó kom glögglega fram að viðmælendur höfðu þá þegar áhyggjur af því hvað landið okkar væri viðkvæmt á vissum árstímum að það þyldi ekki þann fjölda ferðamanna sem þá var.  Einnig kom fram að almennt töldu svarendur að ferðamenn væru góðir, en vildu ekki of mikið af þeim samt.  Þetta var þá en nú er komið árið 2017.  Ég sá fyrir mér þarna á þessum tímapunkti að það yrði áhugavert að geta horft tilbaka eftir 10-20 ár.

Viðhorf Íslendinga til ferðamanna

Nú fyrir skömmu birti Ferðamálastofa niðurstöður úr könnun sinni um ferðalög Íslendinga en í henni var einnig kannað viðhorf Íslendinga til ferðamanna á árinu 2016.  Niðurstaðan var sú að nú árið 2016 voru 79% svarenda á því að álag ferðamanna á íslenska náttúru væri of mikil.  Hlutfallið var 63% árið 2014 og 66% árið 2015.  Það hækkar því töluvert á milli áranna 2015 og 2016 enda fjölgun ferðamanna verið einkar hröð og mikil undanfarin tvö ár og spár gera ráð fyrir 2.2 milljónum árið 2017.

Ýmislegt fleira kom fram í þessari könnun MMR fyrir Ferðamálastofu eins og að tveir af hverjum þremur töldu að ferðamenn hefðu ekki stuðlað að bættu samgöngukerfi í landinu. Við erum reyndar að súpa seiðið af því nú með hrunið vegakerfi en það virðist hafa gleymst að reikna fjölda ferðamanna inn þegar sett var fé til viðhalds og uppbyggingar  Tæplega helmingur taldi ferðamenn hafa aukið áhuga Íslendinga sjálfra á náttúrunni og ríflega þriðjungur taldi að ferðaþjónustan hefði leitt til fjölbreyttari þjónustu sem þeir sjálfir hefðu nýtt sér.  Hlutfallið hvað varðar notkunina á þeirri þjónustu var þó lægra en í fyrri könnunum.   En tæplega þriðjungur svarenda taldi raunar að ferðamenn hefðu takmarkað aðgengi Íslendinga sjálfra að þjónustunni.

Rúmlega helmingur taldi að ferðaþjónustan hefði skapað eftirsóknarverð störf í heimabyggð en hlutfallið við þeirri spurning hefur þó farið lækkandi síðan árið 2014.  Árið 2014 var það hlutfall 59% en árin 2015 og 2016 lækkaði það í 56%.  Um 40% svarenda töldu síðan að ferðamenn hefðu aukið áhuga Íslendinga á eigin menningu, en það hlutfall er aftur mun lægra nú en í fyrri könnunum.

Í fyrsta sinn nú var spurt að því hvort ferðamenn hafi breytt íslensku samfélagi til hins betra og voru 40% sammála því en 25% ósammála og 25% hlutlausir.

Fjöldi ferðamanna

Þegar kom að fjölda ferðamanna sögðust 71% telja ferðamenn nú, heldur eða allt of marga að sumri til en um þriðjungur taldi að þeir væru of margir að vetrarlagi.

Í árslok 2014 framkvæmdi Félagsvísindastofnun könnun meðal Íslendinga fyrir Ferðamálastofu og þá voru niðurstöðurnar á allt annan veg.  Í þeirri könnun töldu 29% að ferðamenn að sumri til væru of margir, en einungis 3% að vetri.

Þegar þessar niðurstöður eru bornar saman þá er ljóst að Íslendingar telja ferðamenn orðna allt of marga að sumarlagi sem og að vetrarlagi.

Þegar kom að ferðalögum Íslendinga innanlands kom í ljós að 84% ferðuðust innanlands á síðasta ári en það hlutfall fer lækkandi frá síðustu könnunum.

Ýmislegt í þessari könnun nú bendir til þess að viðhorf heimamanna þ.e. okkar Íslendinga sé að breytast gagnvart ferðamönnum og að þolmörkum okkar sé að verða náð.  Það er líka ljóst að viðhorf Íslendinga til ferðamennsku þegar kemur að álagi á náttúru er að verða neikvætt þegar 79% telja álagið of mikið.

Það fer ekki vel ef heimamenn verða neikvæðir gagnvart ferðamönnum sem koma hingað með þær væntingar að Íslendingar séu góðir heim að sækja.  Þessi stærsta atvinnugrein þjóðarinnar þarf að þróast með íbúum landsins en ekki flæða yfir þá þannig að innviðina bresti.  Það er ljóst að verulegt átak þarf þegar kemur að skipulagi og stefnumótun í ferðamennsku á Íslandi.  Sveitarfélög hafa lengi kallað eftir því að fá meira fé frá ríkinu til uppbyggingar og að tekjur af ferðamennskunni renni í meira magni til þeirra þar sem álagið er mest.  Ég tek undir það að það er betra ef sveitarfélögin og heimamenn skipuleggja sitt nánasta umhverfi og stjórni því hvernig þeir vilja að ferðamennskan þar þróist.  Það getur verið mismunandi eftir stemmingu á hverju svæði og náttúrunni þar og heimamenn þekkja sína náttúru best.  Það er hins vegar nauðsynlegt að lög og reglur komi ekki í veg fyrir það og séu skýr um það hver hefur hvaða skyldur og hvert tekjur skulu renna.

Ýmislegt fleira var mælt í þessari nýju könnun en hægt er að lesa hana í heild sinni hér