Dagur umhverfisins í dag

Dagur umhverfissins er í dag 25.apríl en hann er haldinn hátíðlegur árhvert og tileinkaður Sveini Pálssyni, náttúrufræðingi með meiru, sem talinn er að hafi verið meðal fyrstu Íslendinga sem töldu það mikilvægt að vernda náttúruna og ganga ekki um of á gæði hennar.

Sveinn Pálsson (1762-1840) fæddist þann 25.apríl 1762 og árið 1998 valdi ríkisstjórn Íslands fæðingardag hans sem Dag umhverfisins.  Sveinn var fræðimaður, rithöfundur, læknir og ferðamaður mikill og frumkvöðull þegar kom að rannsóknum á náttúru Íslands sér í lagi jöklum landsins.  Þess vegna hefur hann oft verið nefndur fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn.  Sveinn fæddist og ólst upp að Steinsstöðum í Skagafirði og var elstur sex systkyna sinna.   Í gegnum læknanám sitt í Kaupmannahöfn fékk hann áhuga á náttúruvísindum einkum grasa- og steinafræði.  Hann lauk síðar námi í þeim fræðum frá Hafnarháskóla, fyrstur manna í Danmörku.  Hann lét ekkert færi ónotað til náttúruskoðunar en sinnti einnig lækningum.  Sumrin 1791-94 ferðaðist hann mikið um landið allt frá Mýrum, suður og austur um Djúpavog, Fljótsdal og Mývatnssveit til Skagafjarðar og þaðan um fjallvegi suður, Vestfirði og Húnavatnssýslu.  Árlega gerði hann skýrslur um ferðir sínar til Náttúrufræðifélagsins og voru tvær þeirra fyrstu prentaðar í skýrslu félagsins en ekki meir eftir það.  Ferðirnar urðu Sveini sífellt erfiðari þar sem Náttúrufræðifélagið danska vanefndi styrki til hans og ekki bætti úr að ýmsir Íslendingar á þessum tíma öfunduðust út í hann og báru rógmæli um Svein til Náttúrufræðifélagsins.  Er talið að Ferðabók Sveins, hefði hún komið út á sínum tíma hefði ekki orðið minni en Ferðabók Eggerts og Bjarna sem kom út aldarfjórðungi fyrr.  Sveinn kvæntist síðar Þórunni dóttir Bjarna Pálssonar landlæknis og dótturdóttur Skúla fógeta og bjuggu þau í 12 ár að Kotmúla í Fljótshlíð en síðar í Vík í Mýrdal.  Sveinn og Þórunn eignuðust 15 börn en aðeins 7 komust til ára.

Sveinn varð síðar vinsæll læknir og mikið hraustmenni.  Hann var afkastamikill rithöfundur og voru prentaðar ýmsar greinar eftir hann um læknisfræði og náttúrufræði í ritum Lærdómslistafélagsins í Höfn og í Klausturspósti og fleiri ritum sem Magnús Stephensen gaf út.  Einnig kom út höfuðrit Sveins þ.e. Ferðabókin ásamt fylgiritgerðum, Jöklariti og Eldriti, loks út árið 1945 og þýdd á íslensku af Jónasi Hallgrímssyni.  Þrátt fyrir þetta lá handritið gleymt allt fram yfir árið 1880 en þá tók Þorvaldur Thoroddsen það að sér og ritaði um það og Svein í Landfræðiögu sinni.  Sveinn gekk á helstu hæstu fjöll landsins eins og Eyjafjallajökul 1793, Heklu sama ár og árið 1794 á Öræfajökul fyrstu manna.   Sveinn dó árið 1840 og var grafinn í Reyniskirkju í Mýrdal.

Deginum í dag er fagnað með ýmsum hætti í á opinberum stofununum, í skólum og hjá félagasamtökum.