Nýtt umhverfismat á Blöndulínu 3

Mynd: Raflínumastur – Vilborg G Hansen

Landnet hefur ákveðið að Blöndulína 3 skuli sett aftur í umhverfismat og er það gert til þess að reyna að skapa sátt um ferlið varðandi uppbygginguna..  Ákvörðunin er tekin í samráði við Skipulagsstofnun.

Með þessari ákvörðun hefur því Blöndulína 3 verið tekin af framkvæmdaráætlun næstu þriggja ára þannig að nægur tími sé til þess að undirbúa og framkvæma nýtt umhverfismat.  Ný forgangsröðun framkvæmda við styrkingu meginflutningskerfisins á Norðurlandi í kerfisáætlun Landsnets 2016-2025 hefur nú verið send til Orkustofnunar til samþykktar.

Yfirlýsing Guðmundar Inga Ásmundssonar forstjóra Landsnets:

„Við höfum verið að innleiða breytt vinnulag sem miðar að því að ná verkefnum upp úr þeim átakafarvegi sem þau hafa verið í. Liður í því er stofnun verkefnaráða og hagsmunaráða sem tryggja öllum hagsmunaaðilum aðkomu. Þannig viljum við tryggja virkt samtal, gagnkvæman skilning og betra upplýsingaflæði í aðdraganda ákvarðana um framkvæmdir,“ segir Guðmundur Ingi. „Með því að taka Blöndulínu 3 af framkvæmdaáætlun næstu þriggja ára sköpum við  nægilegt svigrúm til þess að undirbúa nýja og vandaða málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í samræmi við okkar breyttu áherslur.“