Umhverfisráðherrar Norðurlanda samstíga í loftslagsmálum og hvetja til sjálfbærrar nýtingar á plasti

Umhverfisráðherrar Norðurlandanna hafa gefið út framtíðarsýn nýrrar plastáætlunar sem þeir samþykktu á fundi sínum í Olsó í dag.  Framvegis er þannig gert ráð fyrir að framleiða, nýta og endurvinna plast í hringrásarkerfi sem skaðar hvorki heilsu manna né umhverfis.  Áætlunin byggir í raun á fyrri samnorrænum aðgerðum varðandi plast og er henni ætlað að efla samlegðaráhrif í norrænu samstarfi og auka þekkingu og vitund um plast sem fyrir er á Norðurlöndum.  Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra Ísland gerði að umtalsefni á fundinum þá staðreynd að landamæri Íslands eru sjórinn og því þurfi landið að vera í fararbroddi þegar kemur að aðgerðum gegn plastmengun í hafi.  Sagði hún lifibrauð Íslendinga að miklu leiti háð hafinu og þeim ríkulegu gjöfum sem það færir okkur.  Við vildum ekki taka á móti þeim gjöfum innpökkuðum í plast og því vill hún beita sér fyrir því að gripið verði til markvissra aðgerðar til að hindra plastmengun.

Framkvæmdastjórn ESB vinnur nú að undirbúningi áætlunar um plast í hringrásarkerfi.  Sérstaklega er undirstrikað mikilvægi þess að skapaður verði góður eftirmarkaður með plast og hvatt til hönnunar sem ýti undir endurvinnslu á plasti.  Einnig að ráðist verði í aðgerðir gegn plasti í neysluvörum.

Loftslagsmál voru í brennidepli á fundinum í dag og sendu ráðherrarnir frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir undirstrika að loftslagsmálin séu stærsta verkefni mannkyns í dag.  Segir í yfirlýsingunni að ráðherrarnir styðji heilshugar löggjöf og aðgerðir í loftslagsmálum sem byggja á niðurstöðum vísindarannsókna og staðreyndum

Umhverfis- og auðlindaráðherra Íslands sagði á fundinum að loftslagsbreytingar af mannavöldum væru stærsta umhverfisógn samtímans.  Gríðarlega mikilvægt væri að bregðast við því sem skapar þessa ógn og koma í veg fyrir frekari útblástur gróðurhúsalofttegunda.  Stærsta einstaka skrefið sem íslensk stjórnvöld hafa tekið í þeim efnum er ákvörðun núverandi ríkisstjórnar um að veita ekki frekari ívilnanir til mengandi stóriðju sagði hún.  Jafnframt sagði hún að það yrði að draga úr ofneyslu okkar sérstaklega hér á Vesturlöndum þar sem í dag væri ofneysla í raun helsta orsök þess loftslagsvanda sem við glímdum við.

Samkvæmt yfirlýsingunni eru umhverfis- og loftslagsráðherrar Norðurlandanna staðráðnir í því að aðildarríki Parísarsamkomulagsins starfi áfram að skilvirkri framkvæmd þess.  Stefnt verði að samráði á áriu 2018 þar sem allir aðilar íhugi að auka metnað sinn fyrir árið 2020 í ljósi niðurstaðna rannsókna.  Kolefnisgjöld og niðurfelling á niðurgreiðslum til jarðefnaeldsneytis eru nefd sem mikilvæg tæki í þessu sambandi.

Bráðnun íss á norðurslóðum hefur áhrif á alla jörðina.  Á fundinum var rædd sú keðjuverkun sem hin hraða bráðnun íss á Norðurslóðum hefur í för með sér.  Í Oslóaryfirlýsingunni lýsa ráðherrarnir yfir þungum áhyggjum af þeirri staðreynd að hlýnun andrúmslofts á norðurslóðum sé meira en tvölfalt hraðar en annarsstaðar í heiminum.  Minnkun ísbreiðunnar raskar orkujafnvægi í heiminum og hefur aftur áhrif á á loftslag um allan heim.

Lesa má yfirlýsinguna í heild hér